Morgunblaðið - 28.03.2004, Page 66
AUÐLESIÐ EFNI
66 SUNNUDAGUR 28. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
HLJÓMSVEITIN Deep Purple
heldur tónleika á Íslandi 24.
júní í sumar.
Hljómsveitin er ein af
frægustu þungarokksveitum
sögunnar og hefur áður
spilað á Íslandi, árið 1971.
Þrír af þeim liðsmönnum í
Deep Purple sem léku þá
verða einnig með á
tónleikunum að þessu sinni,
Ian Gillan, Ian Paice og
Roger Glover en í stað
þeirra Richie Blackmores
og Jons Lords eru komnir
Steve Morse og Don Airey.
Góðar líkur eru á því að
rokksveitin Uriah Heep,
sem er af sömu kynslóð og
Deep Purple, leiki einnig á
tónleikunum. Miðasala
hefst næsta föstudag, 2.
apríl, en sölustaðir verða
nánar auglýstir síðar.
Þá hófst miðasala á
tvenna aðra tónleika, með
þýsku hljósveitinni
Kraftwerk og bandarísku
sveitinni Pixies, í vikunni.
Seldust miðar upp á
klukkustund á Pixies en
ennþá er hægt að fá miða á
Kraftwerk. Tónleikar
Kraftwerk eru 5. maí en
Pixies spila 26. maí.
Einnig birtist frétt um það
annars staðar í blaðinu að
sveitasöngvarinn Kris
Kristofferson mun halda
tónleika hér á landi í sumar.
Deep Purple til Íslands
Deep Purple heldur tónleika á Íslandi í sumar.
LIÐ Snæfells í Stykkishólmi
leikur til úrslita um
Íslandsmeistaratitilinn í
körfuknattleik karla. Snæfell
vann Njarðvíkinga í
undanúrslitum í þremur leikjum
án þess að
Suðurnesjamönnum tækist að
vinna einn leik. Ekki er enn
ljóst hvort það verður Grindavík
eða Keflavík sem mætir
Snæfelli í úrslitum en rimma
Grindavíkur og Keflavíkur er
enn óútkljáð.
Snæfellingar hafa komið
mjög á óvart í
körfuknattleiknum í vetur.
Fyrirfram var ekki reiknað með
að þeir myndu ógna veldi
Suðurnesjaliðanna þriggja sem
hafa svo gott sem verið einráð
á Íslandsmótinu undanfarin ár.
Lið Snæfells vann
úrvalsdeildina, skellti síðan
Hamri úr Hveragerði á snarpan
hátt í tveimur leikjum í 8-liða
úrslitum.
Þeir voru ekki hræddir við að
mæta Njarðvíkum í
undanúrslitum þótt
Njarðvíkur-liðið væri hokið af
reynslu. Snæfell vann fyrsta
leikinn og vann svo
ævintýralegan sigur í
„Ljónagryfjunni“ í Njarðvík um
síðustu helgi. Þessu var síðan
fylgt eftir með vinningi á
heimavelli á
fimmtudagskvöldið, 91:89.
Það blés ekki byrlega fyrir
Snæfelli að loknum fyrri hálfleik
því þá voru þeir 21 stigi undir,
50:29, og enn 20 stigum undir
þegar fjórði og síðasti leikhluti
hófst. Með baráttu, leikgleði og
vel studdir áhorfendum tókst
leikmönnum Snæfells að vinna
upp muninn og sigra.
Snæfell
leikur til
úrslita
MORÐ Ísraela á Ahmed Yassin,
stofnanda og andlegum leiðtoga
Hamas-samtakanna, vakti mikla ólgu
meðal Palestínumanna og í öllum
ríkjum múslíma. Hefur nýr leiðtogi
Hamas, Khaled Meshaal, hótað
grimmilegum hefndum og meðal
annars, að Ariel Sharon,
forsætisráðherra Ísraels, verði ráðinn
af dögum.
Ísraelar skutu eldflaug á Yassin,
sem var hálfblindur og hefur verið
lamaður frá 12 ára aldri, fyrir utan
mosku í Gaza-borg og urðu þá einnig
nokkrum öðrum mönnum að bana, þar
á meðal óbreyttum borgurum. Talið er,
að með morðinu, sem Sharon stýrði
sjálfur, hafi hann meðal annars viljað
hressa upp á vinsældir sínar meðal
ísraelskra kjósenda og sýna fram á, að
fyrirhugaður brottflutningur ísraelsks
herliðs frá Gaza væri ekki
veikleikamerki.
Hefur morðið á Yassin verið fordæmt
víða um heim, í ríkjum múslíma, í
Evrópu, Rússlandi og Kína, en
Bandaríkjastjórn lét nægja að lýsa yfir
„miklum áhyggjum“.
Ísraelar hafa hins vegar hótað að
drepa alla foringja Hamas-samtakanna
og ráðherra í Ísraelsstjórn hefur krafist
þess, að Yasser Arafat, leiðtogi
Palestínumanna, verði rekinn í útlegð.
Arabaríki kröfðust þess, að
öryggisráð Sameinuðu þjóðanna
fordæmdi morðið á Yassin en
Bandaríkjastjórn kom í veg fyrir það.
Hafa Ísraelar þakkað henni fyrir
staðfestuna.
Hóta að hefna morðsins á Yassin
Komið í veg fyrir for-
dæmingu í öryggisráði
AP
Morðið á Yassin hefur kynt undir ólgu í
öllum ríkjum múslíma en myndin er frá
mótmælagöngu í Pakistan.
MILDI þykir að Sigurbergur
Konráðsson, einn af eigendum
verktakafyrirtækisins Arnarfells, skyldi
sleppa lifandi þegar 50 tonna
beltagrafa sem hann vann í hrapaði
niður snarbrattar hlíðar
Fremri-Kárahnjúks á þriðjudagskvöld.
Sigurbergur var að vinna í um 110
metra hæð í Kárahnjúknum þegar
grafan tók að renna í átt að gilbrúninni.
Hann náði að henda sér út, en grafan
stöðvaðist á ystu nöf neðst í hlíðinni
eftir að hafa runnið rúma 60 metra og
oltið einu sinni. Um fimmtíu metra fall
er niður í gilbotninn þangað sem grafan
staðnæmdist.
Sigurbergur segir að í gær hafi
aðstæður verið skoðaðar og
niðurstaðan sé að grafan hafi færst til
vegna þess að boltar, sem héldu níu
tonna ballest aftan á vélinni, hafi
slitnað.
Sigurbergur segist ekki hafa verið í
mikilli hættu, því grafan hafi farið hægt
af stað og nægur tími verið til að sjá
það sem koma skyldi og fara úr
tækinu. Hann er heill heilsu og segir
hvorki á sér mar né skrámu.
Starfsmenn Arnarfells sem
Morgunblaðið hitti í Kárahnjúkum í
gær, segja það hafa orðið Sigurbergi til
lífs hversu reyndur hann sé og hafi
mikla tilfinningu fyrir tækjunum sem
hann vinnur á. Beltagröfur hafi áður
skrikað til í gljúfrinu, en aldrei staðið
eins tæpt og í fyrrakvöld.
„Það er engin tilviljun að ég er í
þessu sjálfur,“ segir Sigurbergur.
„Maður veit svo sem aldrei hvenær
eitthvað gerist og þennan hlut er erfitt
að varast. En við höldum bara áfram
þar sem frá var horfið, þetta hrekkir
mig ekki neitt.“
Grafa hrapaði 60 metra
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Beltagrafan hrapaði um 60 metra niður hlíðina.