Morgunblaðið - 21.11.2004, Page 22

Morgunblaðið - 21.11.2004, Page 22
22 SUNNUDAGUR 21. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ Fólkið á Grettisgötu 32 sem gaf Jónasi fermingargjöfina ómetanlegu. Í miðið er amma hans, Jóna Guðmundsdóttir, en frá vinstri fimm af börnum hennar: Leif- ur, Sigurður, Jóhanna, Guðni og Þórður. Ég man það eins og það hafigerst í gær.Við pabbi vorum á leiðtil Þorlákshafnar fráReykjavík í nýja Opel- bílnum hans. Allt í einu segir hann við mig: „Hvernig litist þér á að Margrét kæmi til okkar aftur, Jónas minn?“ „Vel,“ svara ég samstundis. Við höfðum þá verið einir í Þorlákshöfn í alllangan tíma, og ég hafði kunnað frelsinu vel. En því var ekki að neita að betra var að hafa ráðskonu á heimilinu, og Margrét hafði áður gengið mér í móðurstað. Hún var myndarleg og stjórnsöm; kannski ívið of ráðrík fyrir strák eins og mig. Við heimsóttum Margréti nokkr- um sinnum, á meðan hún bjó í Bröttugötu og vann í Café Höll. Og samkvæmt ævisögu hennar mun faðir minn hafa boðið henni í bílferð til Þorlákshafnar til þess að sýna henni þetta fámenna en vaxandi þorp. Henni leist ekki ýkja vel á staðinn; hún kveðst hafa talið húsin og þau hafi ekki verið nema tólf. Einnig sýndi pabbi henni húsið sem hann var að reisa og yrði fullbúið áður en langt um liði. Margrét treysti sér ekki til að svara beiðni föður míns strax, svo að niðurstaðan varð sú að hún hugðist fara heim til Þýskalands seint á árinu 1956, hugsa málið yfir hátíðirnar, en ákveða síðan hvort hún settist að á heimaslóðum eða kæmi aftur til Íslands. Skömmu áður en hún fór afhenti pabbi henni böggul og sagði að hún mætti ekki opna hann fyrr en á jól- unum. Hún kvaðst í ævisögunni ekki hafa ætlað að trúa sínum eigin aug- um, þegar hún opnaði gjöfina í litla herberginu sem móðir hennar hafði til umráða í flóttamannabúðunum í Lübeck: Í pakkanum var armband úr skíragulli. En jafnframt fylgdi svohljóðandi bréf: „Gleðileg jól, elsku Magga mín. Ég vona að þú hafir það gott í Þýskalandi. Nú er pabbi alveg að verða búinn að byggja húsið okkar í Þorlákshöfn. Hann er meira að segja búinn að setja þak á það. Nú vantar bráðum ekkert nema þig og ég ætla að vona að þú komir aftur til okkar pabba. Okkur leið öllum svo vel þegar þú bjóst hjá okkur. Pabbi segist vilja að þú komir og búir í nýja húsinu okkar, og ég skal alltaf vera góður ef þú kemur. Gleðileg jól, Jónas Ingimundarson.“ Ég varð ekki lítið undrandi, þeg- ar ég las þetta í bókinni. Satt að segja var ég búinn að gleyma þessu bréfi og ég vissi ekkert um tilurð ævisögunnar. Það setti að mér ang- ur og ég hugsaði: Skyldi mamma mín sjá þetta bréf? Mér leið ekki vel þá þótt langt væri um liðið. En hvað sem því líður, þá kom Margrét til Íslands með Dettifossi 26. febrúar 1956, og við pabbi tók- um á móti henni á hafnarbakkanum og buðum hana velkomna. Sambúð föður míns og Mar- grétar Róbertsdóttur varð farsæl; þau giftu sig og eignuðust þrjú börn; Elísabet Anna fæddist í ágúst 1959, Róbert Karl fjórum árum síð- ar og Albert Ingi í janúar 1969. En þá var ég löngu farinn að heiman. Ég naut góðs af minni stóru fjölskyldu sem ævinlega var boðin og búin til að liðsinna mér og dekra við mig. Á Rauðarárstígnum Þegar afi minn og amma í föð- urætt, Guðjón og Jóna, brugðu búi í Austurhjáleigunni, fluttu þau til Reykjavíkur. Þau bjuggu fyrst á Rauðarárstíg 34, en systkinin sem ennþá voru ógefin og ókvænt keyptu síðan hús á Grettisgötu 32; þá var Guðjón afi minn látinn. Ég man óljóst eftir þessu litla húsi sem þau keyptu til niðurrifs og byggðu á lóðinni glæsilegt ættarsetur. Í mínum augum var um höll að ræða, og í henni átti ég athvarf og griðland hvenær sem ég vildi. Þarna bjuggu þau öll saman, amma mín og þau af börnum henn- ar sem ekki giftust: Sigurður, Jó- hanna, tvíburarnir Þórður og Leif- ur og Guðni. Sigurður vann alltaf sem járnsmiður í Stálsmiðjunni. Þórður var klæðskeri, rak sauma- stofu á jarðhæðinni og vann mikið. Jóhanna átti þvottahús í Reykja- vík, og var dugnaðarforkur, eins og þau systkinin öll. Þegar hún kom heim eftir langan vinnudag tóku húsverkin við; hún giftist ekki og helgaði heimilinu alla umfram- krafta sína. Leifur hafði gengið með krónískan sjúkdóm frá ung- lingsárum; hann fékk æxli við mænuna og lamaðist jafnt og þétt uns hann varð nánast ósjálfbjarga og dó langt um aldur fram. Guðni stundaði nám í Verslunarskólanum og varð síðan bókari hjá Einari ríka Sigurðssyni. Heimilishlýja og alúð bókstaf- lega umvafði mig um leið og ég steig fæti inn fyrir dyr á Grett- isgötunni. Þar var gestrisni, glað- værð og mikil vinnusemi í öndvegi. Jóhanna var hlý og elskuð af öll- um. Það var hún sem hélt saman stórfjölskyldunni umfram aðra. Hún stjórnaði heimilinu, og þótt allir væru samhentir lenti það á henni að hjúkra og styrkja, fyrst Leifi og síðan ömmu minni síðustu ár hennar. Það átti síðan fyrir Jó- hönnu að liggja að fá krabbamein og deyja á besta aldri. Hennar var sárt saknað. Guðni varð minn nánasti félagi, enda yngstur, og við fundum ein- hvern sérstakan samhljóm; hann hlustaði á tónlist með mér, hann söng, og við töluðum löngum sam- an. Hann kvæntist um þetta leyti Barböru Stanzeit, þýskri konu, og við áttum líka skap saman; hún kenndi mér það sem ég kann í þýsku. Þau eignuðust börn á Grett- isgötunni, og þá kvað við nýjan tón í húsinu. Systkinin urðu sex: Greta, Gunnar, Gylfi, Bryndís, Barbara og Berglind. Jólaboðin voru fastur liður í til- verunni og ógleymanleg með öllu. Þá var gengið milli hæða og íbúða, þar sem boðið var upp á íslenskan jólamat á einum stað, en á öðrum var súkkulaði á boðstólum með óteljandi tertum og kökusortum. Orðið kynslóðabil var ekki komið til Ómetanleg fermingargjöf Bókarkafli – Jónas Ingimundarson átti að mörgu leyti erfiða bernsku. Móðir hans átti við erfið veikindi að stríða og foreldrar hans skildu er hann var ellefu ára. Það vildi honum til happs að eiga stóra fjölskyldu sem studdi hann með ráðum og dáð, auk þess að gera sér grein fyrir tónlistarhæfileikum hans eins og fram kemur í þessum kafla úr bók Gylfa Gröndal. Jónas að spila í fyrsta sinn í fjölskylduboði. Talið frá vinstri: Jóna, amma Jónasar, Guðmundur Guðjónsson, Sigurður Guðmundsson, afabróðir, Jóhanna, Guðleif F. Pétursdóttir, Geirlaug Þórarinsdóttir, Jónas og Guðlín Kristinsdóttir. Samrýmdir feðgar, Jónas og Ingimundur Guðjónsson.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.