Morgunblaðið - 24.11.2005, Blaðsíða 24
24 FIMMTUDAGUR 24. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
DAGLEGT LÍF
SUÐURLANDSBRAUT 32 • SÍMI 591-5350
ÖLL sú umræða, sem átt hefur sér
stað að undanförnu um kynferðislega
misnotkun á börnum, kallar á vanga-
veltur um hvernig hægt sé að „lesa“
börn rétt sem orðið hafa fyrir mis-
notkun og þarfnast hjálpar. Hver eru
merkin, sem kynferðislega misnotuð
börn gefa frá sér? Vigdís Erlends-
dóttir, sálfræðingur og for-
stöðumaður Barnahúss, segir að
mjög erfitt geti verið að meta hvort
börn hafi orðið fyrir kynferðislegri
misnotkun eða ekki. En sýni börn
kynferðislega hegðun sem ekki er í
samræmi við aldur og þroska eru for-
eldrar hvattir til að ráðfæra sig við
sérfræðinga.
Raðast saman líkt og púsluspil
„Það er ekki bara nauðsynlegt að
fylgjast með líðan barna með tilliti til
hugsanlegrar kynferðismisnotkunar,
heldur er ævinlega brýnt að foreldrar
fylgist með líðan barna sinna frá degi
til dags. Það er svo margt sem getur
komið upp á hjá börnum og þau þurfa
þá að geta leitað ráða hjá hinum full-
orðnu. Einkennin eða merkin ein og
sér segja manni nánast ekki neitt
nema ef til kemur frásögn barnsins.
Oftar en ekki raðast heildarmyndin
þá saman,“ segir Vigdís.
Spurð um hverju foreldrar eigi sér-
staklega að hlusta eftir hjá börnum
sínum, svarar Vigdís því til að ekki sé
hægt að benda á eitthvað, sem sé al-
gilt í þessum efnum þar sem birtinga-
form vanlíðunar séu svo margvísleg.
„Börnum líður oft mjög illa ef þau eru
misnotuð. Þó er það svo að sum börn
sýna engin einkenni, en önnur sýna
mjög margvísleg einkenni, sem gætu
líka átt sér aðrar orsakir en kynferð-
islega misnotkun. Það eru samt
ákveðin atriði, sem benda eindregið
til þess að barn hafi verið misnotað,“
segir Vigdís. „Segi barn frá því að það
hafi orðið fyrir kynferðislegri mis-
notkun ber að sjálfsögðu að bregðast
við því með því að tilkynna það
barnaverndarnefnd. Dæmi eru um að
börnum sé ekki trúað, en það ber
vissulega alltaf að taka það alvarlega
ef börn segja frá því að þau hafi orðið
fyrir kynferðislegri áreitni eða of-
beldi. Sýni börn öðrum börnum eða
fullorðnum kynferðislega hegðun eða
kynferðislegan áhuga umfram það
sem eðlilegt má teljast miðað við ald-
ur og þroska, teikni þau kynferð-
islegar myndir eða tali þau á slíkum
nótum ber að taka það alvarlega og
kanna orsakir hegðunarinnar.“
Merkin eru mjög mismunandi
Sú hegðun eða þau einkenni, sem
sjást hjá þolendum kynferðislegs of-
beldis eru mjög mismunandi frá einu
barni til annars auk þess sem ein-
kennin eru mismunandi eftir aldri
barna, að sögn Vigdísar. „Sum börn
verða fjarræn, dauf og döpur. Önnur
eiga það til að einangra sig og sum
forðast það að vera heima við ef of-
beldið hefur átt sér stað þar. Ef börn
eru með líkamleg einkenni, eins og
t.d. ítrekaðar blöðrubólgur eða
sveppasýkingar, gæti það verið vís-
bending um kynferðislega misnotk-
un, en þó myndu slík líkamleg ein-
kenni ein og sér alls ekki vekja slíkan
grun. Fleiri þættir þurfa að koma til.
Þegar börn komast á unglingsárin,
sýna þau merki vanlíðunar á annan
hátt en yngri börn. Þá eru dæmi þess
að þau sýni sjálfsmeiðandi hegðun
auk þess sem áfengis- og fíkniefna-
neysla er algeng hjá þolendum kyn-
ferðislegrar misnotkunar. Sum börn
og unglingar, sem sætt hafa kynferð-
islegu ofbeldi, hafa lágt sjálfsmat auk
þess sem þess eru fjölmörg dæmi að
ungir þolendur byrji mjög snemma
að lifa kynlífi,“ segir Vigdís.
Börnin þurfa skýr skilaboð
Um leið og hlutverk foreldra er það
að fylgjast almennt með líðan
barnanna sinna, er það jafnframt
hlutverk foreldra að fræða börnin um
hættur og viðbrögð við kynferðislegu
ofbeldi. „Rétt eins og ætla má að
flestir foreldrar hafi það takmark að
ala börnin sín upp í góðum siðum, er
mjög mikilvægt að foreldrar haldi
fræðslu um kynferðisofbeldi að börn-
um. Hægt er að byrja á þeirri fræðslu
um leið og börnin eru farin að tala, en
þess má geta að við hér í Barnahúsi
tökum rannsóknarviðtöl við börn allt
niður í þriggja og hálfs árs gömul.
Það á að fræða börnin um hvað sé
rétt og hvað rangt í þessum efnum og
hvernig þau geti brugðist við í óæski-
legum aðstæðum. Í þessu sambandi
er jafnframt æskilegt að brýna fyrir
börnum að þau eigi að virða mörk
annarra hvað þetta varðar. Í ljósi
þess að sumum foreldrum er tamt að
tala um þessa hluti en öðrum ekki,
finnst mér að leik- og grunnskólar
ættu að stefna að því að setja slíka
fræðslu inn í sínar námskrár sem
kallar auðvitað á fræðslu til handa
uppeldismenntuðu fólki um hvernig
æskilegast sé að fræða börnin. Að
sama skapi er mikilvægt þegar verið
er að fræða lítil börn að kalla hlutina
sínum réttu nöfnum. Það þýðir ekk-
ert að segja barni að það séu einka-
staðir á líkamanum sem engin megi
snerta. Þau skilja ekki slíkt málfar.
Það þarf að kalla kynfærin sínum
réttu nöfnum og brýna það fyrir þeim
að segja frá lendi þau í misnotkun því
engum sé hollt að halda slík leynd-
armál. Börnin eru mun betur sett
með þessa vitneskju en án hennar og
eru þá betur í stakk búin að bregðast
við ef eitthvað kemur upp á. Vakni
grunur um að barn hafi sætt kynferð-
islegri áreitni eða ofbeldi ber að til-
kynna það barnaverndarnefnd,“ segir
Vigdís að lokum.
MISNOTKUN | Birtingarform vanlíðunar hjá börnum eru mjög margvísleg
Alltaf brýnt að hlusta
eftir líðan barna
Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur
join@mbl.is
UM 300 manns fylgdust með sýn-
ingu Íslendinganna á Future De-
sign Days í Stokkhólmi fyrir
skömmu. Ásgeir Hjartarson hár-
greiðslumeistari og einn af að-
standendum sýningarinnar segir
viðtökurnar hafa verið frábærar
og þátttakan á hönnunardögunum
skemmtileg og gagnleg. Ásgeir og
Bergþóra Þórsdóttir förð-
unarfræðingur og hárgreiðslu-
meistari eru eigendur hárgreiðslu-
stofunnar Supernova Hair &
Airbrush Studio og þau ásamt
Hörpu Einarsdóttur fatahönnuði
stóðu fyrir listviðburðinum á
þriðjudaginn. Þau nutu aðstoðar
Ástu Óskarsdóttur við förðunina
og Emils Ólafssonar við hár-
greiðsluna auk sex módela. Sýn-
ingin var langt frá því að vera
hefðbundin hárgreiðslu-, förðunar-
eða tískusýning þótt fyrirsætur
hafi gengið á nokkurs konar tísku-
sýningarpalli við undirleik viðeig-
andi tónlistar. „Þarna hleyptum
við listamanninum í okkur út og
við nutum okkar til hins ýtrasta í
að skapa nokkurs konar sambland
af myndlist, leikhúsi og tískusýn-
ingu,“ segir Ásgeir eftir sýn-
inguna.
Tókst rosalega vel
Efniviðurinn sem notaður var
ásamt hári fyrirsætnanna sam-
anstóð m.a. af fjöðrum, þurrkuðum
blómum, glimmeri, semelíu-
steinum, trjágreinum, vaxi, gervi-
hári, tjulli og perlum. „Fyrirsæt-
urnar gengu hægt og mynda-
styttulega um sviðið og í
bakgrunni var flott tónlist sem dj
Margeir sá um og áður en fyr-
irsæturnar komu á sviðið var sýnt
myndband af íslenskri náttúru.
Þetta tókst allt saman rosalega
vel,“ segir Ásgeir. Íslendingarnir
voru einnig með bás á sýning-
arsvæði hönnunardaganna þar
sem þau kynntu starfsemi hár-
greiðslu- og förðunarstofuna og
svokallaða airbrush-förðun. Ásgeir
segir að margir hafi sýnt áhuga og
útsendarar breskra tískutímarita
hafi m.a. lýst áhuga á samstarfi.
Hönnunardagarnir Future De-
sign Days eru haldnir á vegum
Futurelab, sænskrar ráðgjaf-
arstofu á sviði markaðssamskipta,
stefnumótunar og hönnunar. Á
Future Design Days kemur saman
fjölbreyttur hópur fólks og fyr-
irtækja og skiptist á skoðunum um
hönnun á breiðum grundvelli.
Skoðanaskiptin fara m.a. fram
með listviðburðum, fyrirlestrum,
málstofum og sýningum.
HÖNNUN
Trjágreinar, tjull
og glimmer
Framlag Íslendinganna.
Allur hópurinn í City Hall í Stokkhólmi, Ásgeir Hjart-
arson Bergþóra Þórsdóttir, Harpa Einarsdóttir, Ásta
Óskarsdóttir og Emil Ólafsson.
Steingerdur@mbl.is