Morgunblaðið - 11.12.2005, Page 26

Morgunblaðið - 11.12.2005, Page 26
26 SUNNUDAGUR 11. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ Í upphafi bókarinnar Thorsararnir er farið yfir það í stuttu máli hvernig grunnur var lagður að veldi ættarinn- ar og þátttöku hennar í þjóðlífinu. Drjúgan hluta tuttugustualdar var Thorsfjöl-skyldan, Thorsararnirsem svo voru kallaðir,eitthvert umtalaðasta fólk á Íslandi. Og það að vonum. Thorsararnir voru auðugri, valda- meiri og samheldnari en nokkur önn- ur fjölskylda. Þræðir þeirra virtust liggja um þjóðfélagið þvert og endi- langt. Þótt fjölskyldan væri tiltölu- lega fámenn sátu Thorsarar í ríkis- stjórn, á Alþingi, stjórnuðu bönk- unum og stærstu fyrirtækjunum, sátu í sendiráðum Íslands í útlöndum og réðu sumum öflugustu hagsmuna- samtökum landsins. Fjölskyldan átti glæsilegustu hús Reykjavíkur, sum- arskála og laxveiðiá, fjölda bújarða, flotta bíla og hafði þjóna á hverjum fingri. Auður Thorsaranna og völd sköpuðu fjölskyldunni margvísleg tækifæri og lífsþægindi sem aðrir fengu ekki. Margir horfðu öfundar- augum á hana, ekki ósvipað og horft var á auðuga gyðinga í öðrum lönd- um. Henni var oft núið um nasir að vera dönsk en ekki íslensk af því að fjölskyldufaðirinn, Thor Jensen, átti danska foreldra. Sú skoðun átti hljómgrunn og birtist iðulega í ill- skeyttum greinum og fréttaskrifum í Alþýðublaðinu, Tímanum og Þjóðvilj- anum að velgengni fjölskyldunnar bitnaði á almenningi sem hefði minna til skiptanna fyrir vikið. Thorsarar voru sakaðir um að misnota áhrif sín og aðstöðu. Og þeim var kennt um margt sem aflaga fór í þjóðfélaginu. En fjölskyldan átti einnig öfluga mál- svara og aðdáendur. Fólkið sem vann hjá fyrirtækjum hennar og á heim- ilunum bar henni vel söguna. Þeir sem kynntust Thorsurunum per- sónulega mátu þá umfram flesta aðra. Og myndin sem dregin var upp af fjölskyldunni í Vísi og þó einkum í Morgunblaðinu var ólíkt geðþekkari en í blöðum vinstri flokkanna; þar birtust Thorsarar sem menn fram- taks og örlætis, skörungsskapar og sem brautryðjendur nýrra atvinnu- hátta. Thorsararnir áttu sér ekki langa sögu þegar blómaskeið þeirra hófst. Thor Jensen kom til Íslands ungling- ur að aldri með tvær hendur tómar árið 1878, kvæntist íslenskri alþýðu- stúlku og vann sig upp við búskap, verslun og útgerð. Það skiptust á skin og skúrir í atvinnurekstri hans; um aldamótin varð hann gjaldþrota, en örfáum árum síðar var hann orðinn stórauðugur kaupmaður í Reykjavík. Hann var einn af frumkvöðlum togaraútgerð- ar hér á landi, en það var hún sem öðrum atvinnugreinum fremur skapaði hagsæld lands og lýðs. Á fjórða ára- tugnum reisti Thor mesta býli landsins, Korpúlfsstaði í Mosfellssveit, sem enn stendur sem minnismerki um óvenjulegan stórhug. Um árabil var mikill völlur á útgerðarfélaginu Kveldúlfi sem Thor stofnaði 1912 og synir hans ráku næstu ára- tugina. Það sinnti jöfnum höndum veiðum, vinnslu og sölu afurða erlendis. Um tíma var það stærsta fyrir- tæki landsins og réð þá yfir um þriðjungi af öllum fiskafla sem þjóðin veiddi. Kveldúlfur var árum saman bitbein í stjórnmáladeilum, einkum á fjórða áratugnum, þegar stjórnmálabaráttan varð hat- römust á Íslandi. Andúðin á Thorsurum og atvinnurekstri þeirra var öðrum þræði ágreiningur um ólíkar leiðir í atvinnurekstri; sam- vinnumenn, sem boðuðu kaupfélaga- rekstur, og sósíalistar, sem boðuðu þjóðnýtingu, voru öflugir á þessum árum og vildu einkaframtakið feigt. Tveir sona Thors Jensen sátu á Al- þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Ólaf- ur Thors, sem fimm sinnum gegndi embætti forsætisráðherra, og Thor Thors, sem seinna varð sendiherra í Bandaríkjunum og hjá Sameinuðu þjóðunum. Þegar fram liðu stundir áttu fleiri sem tengdust fjölskyldunni eftir að leggja stjórnmálin fyrir sig. Jóhann Hafstein, tengdasonur Hauks, sonar Thors Jensen, varð for- sætisráðherra og Pétur Benedikts- son (bróðir Bjarna forsætisráðherra), tengdasonur Ólafs Thors, varð al- þingismaður eftir að hafa verið sendi- herra og bankastjóri. Thorsarar blönduðust einnig inn í kjarabarátt- una því einn af sonum Thors Jensen, Kjartan Thors, var formaður Vinnu- veitendasambandsins frá stofnun þess á kreppuárunum og fram undir lok sjöunda áratugarins. Þá létu tengdasynir Thors Jensen að sér kveða. Guðmundur Vilhjálmsson, maður Kristínar, var forstjóri Eim- skipafélagsins í meira en þrjátíu ár. Hallgrímur Fr. Hallgrímsson, maður Margrétar Þorbjargar, var forstjóri olíufélagsins Shell, síðar Skeljungs, í næstum hálfa öld. Hér er gripið niður í bókinni þar sem fjallað er um það hvernig umsvif Thorsaranna gátu smitast inn í líf barnanna. „Ef þú steinþegir ekki, helvítis Kveldúlfssonurinn þinn“ Marta, dóttir Ólafs Thors, hafði í bréfi frá Vínarborg sumarið 1936, borið lof á föður sinn fyrir hetjulega framgöngu á útifundinum í Barna- skólaportinu. Það þótti Ólafi vænt um. En hann og bræður hans gerðu sér grein fyrir því að hinar stöðugu umræður og blaðaskrif um Kveldúlf og Korpúlfsstaði íþyngdu konum þeirra og börnum ekkert síður en þeim sjálfum. Það voru ekki bara þeir fullorðnu sem urðu fyrir aðkasti. Börnin í fjölskyldunum fengu sinn skammt, ekki síst í skólanum. Sum þeirra voru komin á unglingsaldur og spennan og streitan sem þau fundu fyrir bættist ofan á og magnaði áhyggjuefni þroskaáranna. Þetta voru ekki lengur venjulegar stjórn- málaþrætur heldur ásakanir sem sneru að heimilunum og daglegu lífi allra fjölskyldnanna. Það var raunar ekki ný- lunda að börnin yrðu fyrir óþægindum vegna umsvifa feðra sinna og frænda. Marta Thors átti erfiðar minningar frá þriðja áratugnum, þegar hún lenti iðulega í áflogum við strákahóp í Barnaskólaportinu eftir skóla. Hún gat ekki látið háðsglósur þeirra um föður sinn og fjölskylduna sem vind um eyru þjóta, heldur hjólaði í þá. Langar flétturnar gerðu henni erfitt fyrir í slagsmálun- um og hún bað mömmu sína að klippa þær af, án þess að segja henni hvers vegna. Þegar fötin hennar voru rifin og tætt var gott að eiga skjól hjá gamalli konu í Þingholtsstræti, sem tók hana inn til sín, þvoði henni og gerði við verstu rifurnar svo hún þyrfti ekki að koma illa til reika heim til foreldra sinna. Mörtu var sérstaklega minnisstætt atvik sem gerðist á jólatrésskemmtun í skólan- um. Prúðbúin með slaufur í hárinu vissi hún ekki fyrri til en hún var lent í áflogum, rétt einu sinni, út af hnjóðyrðum í garð pabba hennar. Kennari kom og skakkaði leikinn, lyfti henni grátandi upp og lést vera að hugga hana, en hvíslaði í barnseyrað: „Ef þú steinþegir ekki, helvítis Kveldúlfs- ormurinn þinn, skaltu hafa verra af!“ Þarna má líklega finna rætur þess að börn Thorsbræðra gátu síðar meir fæst hugsað sér að hafa opinber af- skipti af stjórnmálum. Thor, sonur Ólafs Thors, sagðist hafa fengið al- gjört ofnæmi fyrir þeim á þessum tíma. Ómannblendnin, sem mjög bar á í Thorsfjölskyldunum, ágerðist lík- lega á þessum árum. Svo virðist sem fjölskyldurnar hafi þjappað sér sam- an og dregið úr samskiptum við óvandabundna. Richard Thors og hans fólk hafði aldrei verið mikið á al- mannafæri, en það er varla tilviljun að þegar hann byggði stóra húsið sitt á tvöfaldri lóð við Sóleyjargötu 25 ár- ið 1938 reisti hann umhverfis það steinvegg sem var meira en mann- hæðarhár eins og enn má sjá. Annað eins virki hafði ekki fyrr verið byggt í Reykjavík. Þótt húsið væri miðsvæð- is í bænum var fjölskyldan óhult í garði sínum fyrir forvitnum augum og fjandsamlegum. Dýr útgerð í Ameríku Þegar hér er komið sögu býr Thor Thors í New York og hefur tekið við starfi verslunarerindrika Íslands af Vilhjálmi Þór. Thor R., sonur Rich- ards, fór til náms í Bretlandi og Þýskalandi eftir að hann lauk versl- unarskólaprófi 1935. Vorið 1939 fékk hann fyrir milligöngu Thors Thors, frænda síns, starf við íslensku deild- ina á Heimssýningunni í New York. Þegar sýningunni lauk 1940 fékk Thor R. starf hjá umboðsmönnum Kveldúlfs í New York. Hann kom heim haustið 1941 og tók þá við starfi framkvæmdastjóra hjá Kveldúlfi eins og faðir hans hafði vænst. Frændi hans, Thor Hallgrímsson, sonur Camillu, sem lauk stúdentsprófi 1934 og var við verslunarnám og störf í Kaupmannahöfn og London í tvö ár, var þá kominn til starfa á skrifstofu félagsins. Þar var þá einnig Sigurður Hafstein sem alist hafði upp á heimili Hauks Thors og Sofíu systur sinnar. Haustið 1939 fór Unnur, dóttir Richards, vestur um haf og dvaldi þar fram á sumar 1944; bjó hún um tíma í sendiherrabústaðnum hjá Thor Thors eins og Marta frænka hennar. Saman fóru þær í tveggja mánaða skemmtiferðalag um Bandaríkin þver og endilöng sumarið 1941. Fleiri af þriðja ættlið Thorsfjölskyldunnar voru í Bandaríkjunum á stríðsárun- um. Björn, sonur Kjartans Thors, fór 1943 til náms í arkitektúr við Berke- leyháskóla í Kaliforníu og var síðan í Harvardháskóla, en lauk ekki námi. Thor Ó., sonur Ólafs Thors, fór til náms í viðskiptafræði við Berkeley- háskóla 1941, lauk þaðan prófi 1944, kom þá heim og varð eins og frændi hans, Thor R., einn framkvæmda- stjóra Kveldúlfs. Ingibjörg systir hans giftist í nóvember 1944, rúmlega tvítug, Þorsteini Gíslasyni sem það sama ár hóf verkfræðinám í Boston, þar sem hjónin bjuggu næstu fimm árin. Margrét Þorbjörg, Mabba, dótt- ir Camillu og Guðmundar Hallgríms- son, fluttist vestur 1943. Hún hafði fyrst barnabarna Thors Jensen gift sig; það var sumarið 1936. Maður hennar var Pétur, sonur Ólafs John- son stórkaupmanns og Helgu P. Thorsteinsson. Ólafur var búsettur í New York og þangað héldu ungu hjónin 1943. Fékk Pétur starf á skrif- stofu Eimskips í borginni. Frænka Möbbu og alnafna, Margrét, dóttir Hauks Thors, giftist eftir stúdents- próf sumarið 1941 öðrum syni Ólafs Johnson, Erni flugmanni og síðar for- stjóra Flugfélags Íslands, og dvöldu þau um skeið í New York, meðan Örn var að leita að flugvél fyrir félagið. Ólafur, sonur Camillu, sem einnig Bókarkafli | Ætt Thorsaranna var valdamikil á Íslandi á síðustu öld og kom víða við í íslensku athafnalífi, stjórnsýslu og pólitík. Í bókinni Thorsararnir, auður, völd, örlög, rekur Guðmundur Magnússon sögu Thors Jensen og sona hans og veitir um leið sýn inn í mikinn umbrotakafla í Íslandssögunni. Veldi og saga Thorsaranna Hið svipmikla hús við Fríkirkjuveg 11 skömmu eftir að það var reist árið 1908. Margir áttu erindi við Thor Jensen á Fríkirkjuveginum. Þessa auglýsingu birti hann í Morgunblaðinu í janúar 1917 og var greinilega nóg um umgengnina. Bræðurnir Haukur, Ólafur og Richard Thors standa saman í fjörunni neðan við höfuðstöðvar Kveldúlfs á Skúlagötu. Björn, sonur Kjartans og Ágústu Thors, á þríhjóli sínu á stéttinni við hús Thorsbræðra á Grundarstíg 24 á þriðja áratugnum. Slík hjól voru þá fáséð.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.