Morgunblaðið - 19.03.2006, Blaðsíða 6
6 SUNNUDAGUR 19. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Kvenspæjarinn í Botsvana
- Fimmta bókin komin
Þetta er ein besta, yndislegasta,
hreinskilnasta og fyndnasta bók sem
hefur komið út í áraraðir og speglar lífið
eins og það er.
The Plain Dealer
25.000 eintök af Kvenspæjarabókum
Alexander McCall Smith hafa selst
hérlendis síðan fyrsta bókin kom út árið
2004.
edda.is
1. sæti
Allar bækur
Penninn Eymundsson
og Bókabúðir MM
8. – 14. mars
Halldór J. Kristjánssonbankastjóri Landsbank-ans segir bankann hafaafar sterka stöðu um
þessar mundir. Eiginfjárstaðan sé sú
styrkasta meðal íslenskra banka og
verulega hærri en banka á Norð-
urlöndum og Bretlandi, lausafjár-
staðan sé góð og áhættudreifing með
starfsemi í 12 löndum stórbætt.
Hins vegar standi bankinn, eins og
aðrir á íslenskum fjármálamarkaði,
frammi fyrir nýjum aðstæðum sem
felast í því að nú fylgjast miklu fleiri
með fjármálalífinu hér heima en áð-
ur. Ljóst sé að huga þurfi að þeim
gagnrýnisröddum sem fram hafa
komið í skýrslum erlendra grein-
ingar- og matsfyrirtækja að und-
anförnu.
Smæð hins íslenska hagkerfis,
stærð bankanna og einstakir þættir
á markaðnum veki spurningar hjá
þessum aðilum og þótt aðilar hér
heima séu sannfærðir um að þeir
vinni faglega og rétt að málum, þurfi
að sannfæra aðra um að svo sé og
draga úr þeim þáttum sem valdið
geta tortryggni eða komið undarlega
fyrir sjónir séð utan frá. Til þess
þurfi nákvæmari og ítarlegri upplýs-
ingagjöf til greiningaraðila og fjár-
festa.
Nú hefur verið mikil umræða um
bankakerfið af hálfu erlendra grein-
ingardeilda og matsfyrirtækja og
ýmsar athugasemdir komið fram.
Þurfa bankarnir ekki að þínu mati að
taka mark á þessari gagnrýni?
„Íslenska bankakerfið og allir að-
ilar sem koma að íslenskum fjár-
málamarkaði, hvort sem það eru
stjórnvöld, fjármálaeftirlit, fjöl-
miðlar, Seðlabankinn eða bankakerf-
ið standa frammi fyrir nýjum veru-
leika. Fjöldi þeirra sem fylgist með
íslenska efnahagskerfinu hefur
margfaldast. Það eru ýmis atriði á ís-
lenska fjármálamarkaðnum í heild
sem menn þurfa að huga að og ná að
kynna betur,“ segir Halldór og nefn-
ir einkum þrennt; óeðlilega stöðu á
íbúðalánamarkaði, gagnkvæm eigna-
tengsl og hraðan vöxt bankanna.
Íbúðalánin veikur punktur
„Hér hefur ekki fengið að þróast
eðlilegur íbúðalánamarkaður. Ríkið
og að einhverju leyti markaðsaðilar
hafa ekki látið markaðslögmálin
þróast og það er veikur punktur að
mati þeirra sem rýna í íslenska efna-
hagsstjórnun að hér starfi ríkis-
styrktur íbúðalánasjóður. Þá kemur
það mönnum mjög spánskt fyrir
sjónir að á meðan Seðlabankinn hef-
ur verið að hækka skammtímavexti
og reyna að slá á þenslu og ætlast
auðvitað til þess að þessar ákvarð-
anir skili sér einnig í almennum
vaxtaákvörðunum, þá gilda ekki
markaðslögmálin í ákvörðunum
Íbúðalánasjóðs. Það er mjög mik-
ilvægt að færa þessar ákvarðanir á
markaðsgrundvöll,“ segir Halldór.
En bera bankarnir ekki líka
ábyrgð á ástandinu með innkomu
sinni á íbúðalánamarkaðinn?
„Jú, það er ábyrgð sem allir verða
að taka til sín. Þetta mál leysist ekki
nema í góðri samvinnu ríkisins og
bankanna. En ég undanskil það ekki
að bankarnir verða líka að taka
þessa gagnrýni til sín þó það sé fyrst
og fremst á færi stjórnvalda að leysa
málið. Ég held að yfirlýsing for-
sætisráðherra á mánudaginn [um
fyrirhugaðar breytingar á Íbúða-
lánasjóð] hafi verið mjög mikilvæg á
erlendum mörkuðum, því óskyn-
samlegt fyrirkomulag íbúðalána er
eitt af því helst sem stingur í augu
hjá erlendum greiningaraðilum.“
Halldór segir að æ fleiri hnjóti um
þá staðreynd að til séu gagnkvæm
eignatengsl milli banka og fyrir-
tækja sem þeir eiga viðskipti við.
„Þetta er atriði sem við verðum að
taka til okkar. Það er vitað að þegar
erlendir aðilar eru að horfa á efna-
hagslíf og bankakerfi í litlu hagkerfi
hafa þeir áhyggjur af því að nálægð-
in geri það að verkum að við-
skiptaákvarðanir séu teknar á
grundvelli tengsla en ekki óháðra
mælikvarða. Hér notum við auðvitað
óháða mælikvarða í öllum við-
skiptum, enda er bankakerfið rekið
faglega eins og afkoman staðfestir.
En við gefum slíkum vangaveltum
ákveðinn byr þegar menn taka eftir
að það eru ákveðin gagnkvæm eigna-
tengsl til staðar. Í tilviki Landsbank-
ans hefur þetta ekki verið til staðar,
en við þekkjum tilvik þar sem þetta
hefur verið til staðar. Ég tel að KB-
banki hafi stigið mikilvægt skref á
föstudaginn þegar þeir tilkynntu að
til stæði að leysa upp eignarhald
bankans í Exista.“
Stendur til að draga úr eigna-
tengslum Landsbankans við íslensk
fyrirtæki?
„Þar komum við inn á umræðu um
hlutverk bankanna á hlutabréfa-
markaði og gagnrýnisraddir um að
þeir séu hugsanlega of umfangs-
miklir á því sviði. Það er í sjálfu sér
ekkert óeðlilegt við að bankar eigi í
fyrirtækjum,“ segir Halldór en
bendir á að huga þurfi að umfanginu.
Hlutfallslega hafi Landsbankinn
haft jafnmikið af sínum heildar-
eignum í hlutafélögum um árabil en í
ljósi vaxtar bankans sé umfangið
orðið meira en áður. „Bankarnir
verða að huga að þessu.“
Hraður en traustur vöxtur
Halldór segir að hraður vöxtur
bankanna hafi einnig vakið athygli
en hins vegar hafi í honum falist
áhættudreifing og að vöxturinn hafi
verið mjög traustur. Vöxtur sem
þessi veki alltaf spurningar en bank-
arnir þurfi að útskýra þetta vel, eins
og ábendingar hafi borist um. Al-
þjóðavæðing og útrás atvinnulífsins
hafi haft það í för með sér að bank-
arnir hafa getað lánað í mjög traust
og örugg verkefni.
„Lánhæfismatsfyrirtækin hafa
talið þetta jákvæða þróun og hækk-
andi lánshæfismat Landsbankans á
liðnum misserum hefur grundvallast
á bættri alþjóðlegri áhættudreifingu
og bættri grunnafkomu.“
Aðspurður hvort erlendar lántök-
ur bankanna hafi ekki verið of miklar
segir Halldór að hafa verði í huga að
bankarnir séu með æ stærri hluta
sinnar starfsemi erlendis. Þótt heild-
arskuldbindingarnar séu háar á ís-
lenskan mælikvarða, verði að skoða
þær í því ljósi að bankarnir væru
með stóran hluta sinnar starfsemi í
Danmörku, Bretlandi og víðar.
Framvirkir samningar hafa verið
til umfjöllunar að undanförnu. Ætlið
þið að reyna að takmarka gerð fram-
virkra samninga?
„Það virðist sem erlendir grein-
ingaraðilar greini ekki nægilega á
milli hlutabréfa sem bankarnir eiga
fyrir hönd viðskiptavinanna og eigin
bréfa bankanna. Þeir túlka það
þannig að sá eignarhlutur sé tengdur
fyrirgreiðslum og með einhverju
leyti á meiri áhættu bankanna en
þeir í raun og veru eru. Þetta form á
fjármögnun bankanna er eitthvað
sem bankarnir þurfa að taka til at-
hugunar. Þessir samningar henta
best til fjármögnunar á skemmri
tíma á eignarhlutum viðskiptavina
og í afmörkuðum viðskiptum. Þeir
eiga síður við um stórar hlutabréfa-
stöður og eiga ekki við í fjármögnun
til lengri tíma.“
Hafið þið í huga að draga úr þess-
um samningum?
„Þetta er alþjóðlegt og vel þekkt
form fjármögnunar sem eykur
sveigjanleika, en formið hentar ekki
að öllu leyti. Þó við séum sáttir við
þetta þá virðist sem áferðin af mikilli
notkun þessara samninga sé eitthvað
sem margir greiningaraðilar hafa
gert athugasemd við.“
Halldór segir að afmarka þurfi
samningana betur en gert hafi verið.
„Að okkar mati hafa greiningarað-
ilar mistúlkað þetta en þegar við
sjáum marga greiningaraðila í röð
sem tengja þetta við gagnkvæmt
eignarhald og samfallandi eign-
arhald, þá er þetta eitt þeirra atriða í
gagnrýninni sem við verðum að
horfa á.“
Nákvæmari upplýsingar
Hvað telurðu að bankarnir þurfi
að gera varðandi upplýsingagjöf?
„Bankarnir, stjórnvöld, Fjármála-
eftirlitið og Seðlabankinn standa
frammi fyrir nýjum aðstæðum í sam-
bandi við fjárfesta og greiningar-
aðila. Fram að þessu hefur okkur
verið sýndur mikill áhugi af hálfu al-
mennra fjölmiðla en þetta er annar
hópur aðila. Fyrir tólf mánuðum var
hægt að telja á fingrum annarrar
handar þá úr þessum hópi sem voru
að fylgjast með íslenskum fjármála-
markaði. Nú er þetta á annan tug að-
ila. Aðilar á markaðnum hér á landi
þurfa að laga sig að breyttum að-
stæðum og koma upplýsingum með
sérstökum hætti til þessa hóps,“ seg-
ir Halldór.
Þetta kallar að hans sögn á ný við-
brögð af hálfu allra aðila á markaði
og aðkomu sérhæfðra aðila varðandi
upplýsingagjöf. Fjárfestar og grein-
ingaraðilar þurfi nákvæmari og ít-
arlegri upplýsingagjöf en stunduð
hefur verið fram að þessu um bæði
íslenska hagþróun og fjármála- og
atvinnulíf.
Telurðu smæð hagkerfisins hér
heima, stærð bankanna og tengsl
þeirra við fyrirtæki hafa gert það að
verkum að erlendir greiningaraðilar
hafi orðið tortryggnir?
„Við erum alveg róleg yfir stöð-
unni og vitum að fjármálakerfið er
afar traust. Við verðum hins vegar
að átta okkur á því að ef erlendir að-
ilar skilja ekki einstaka þætti, sem
magna upp misskilning, þá þurfum
við einfaldlega að lagfæra það. Að
vissu leyti hefur verið erfitt fyrir
okkur að viðurkenna þetta því við er-
um alveg sannfærð um að þetta sé í
góðu lagi hjá okkur. En traust er
byggt á ímynd og þegar við áttum
okkur á því að vissir þættir í okkar
framkvæmd senda röng skilaboð,
verðum við að hlusta á það,“ segir
Halldór og ítrekar að þeir aðilar sem
greini íslenskan markað í fyrsta sinn
verði að setja sig vel inn í aðstæður.
Þeir sem það hafi gert beri fullt
traust til hagkerfisins og bankanna
og bendir Halldór á þær mörgu já-
kvæðu greiningar sem borist hafa
undanfarna daga.
Halldór J. Kristjánsson segir mikilvægt að sannfæra erlenda aðila um fagleg vinnubrögð bankanna
Þurfum að draga úr þeim þátt-
um sem valdið geta tortryggni
Mikil umræða hefur orðið undanfarnar vikur um
íslensku bankana. Árni Helgason ræddi við Hall-
dór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans,
um viðbrögð við framkominni gagnrýni.
Morgunblaðið/Þorkell
„Fjöldi þeirra, sem fylgjast með íslenska efnahagskerfinu, hefur margfald-
ast,“ segir Halldór J. Kristjánsson sem telur að auka þurfi upplýsingagjöf.
arnihelgason@mbl.is