Morgunblaðið - 27.05.2006, Page 70

Morgunblaðið - 27.05.2006, Page 70
70 LAUGARDAGUR 27. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Mig langar að minn- ast í nokkrum orðum merkilegs manns sem fallinn er frá um aldur fram. Þegar mér var tjáð andlátsfrétt Sigurðar setti mig hljóðan. Fráfall hans var óvænt og minnir mann illilega á að maður veit aldrei hvenær maður kveður vini, kunningja eða ástvini í hinsta sinn. Ég kynntist Sigurði og eiginkonu hans Guðnýju fyrir um tíu árum þeg- ar þau fluttu á Seyðisfjörð. Fljótlega kom í ljós að þarna hafði Seyðfirð- ingum færst góður liðsauki. Kraftur, bjartsýni og umhyggja þeirra fyrir samfélaginu kom strax í ljós. Sigurð- ur var mikill félagsmálamaður og áorkaði ýmsu á því sviði. Okkar kynni voru einkum í gegnum starf Lionsklúbbsins á Seyðisfirði sem og samstarf í bæjarpólitíkinni svo sem sveitarstjórnarkosningarnar 1998 og það flokksstarf sem því tengdist þá og síðar. Mér er það í fersku minni hvað Sigurður var drífandi, bjart- sýnn og áræðinn þegar leitað var leiða til að móta stefnuskrá og út- hugsa baráttuleiðir og framkvæma. Kraftar hans og reynsla nutu sín vel í þessu verkefni og ljóst er að framlag hans skipti miklu máli um að vel tókst til. Ávallt var hlustað á ráðlegg- ingar hans enda ljóst að þar fór gegnheill og skynsamur einstakling- ur, ríkur að reynslu. Ef leitað var til Sigurðar með verkefni minnist ég þess að hann var ætíð bóngóður og miklaði ekki fyrir sér að ganga í hlut- ina. Þannig félaga er gott að eiga að og enn betra að læra af og vinna með. Ég vil að leiðarlokum þakka Sig- urði af heilum hug góð kynni og óska honum velfarnaðar á nýrri vegferð þar sem krafta hans hefur verið þörf. Guðný og aðrir aðstandendur, ég sendi ykkur mínar bestu kveðjur en ég get því miður ekki verið við útför Sigurðar vegna dvalar erlendis. Góð- ar minningar um góðan dreng bera SIGURÐUR ÞORGEIRSSON ✝ Sigurður Þor-geirsson fæddist á Grásíðu í Keldu- hverfi 20. desember 1944. Hann varð bráðkvaddur 14. maí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Seyðisfjarðar- kirkju 24. maí. Sigurði fallegan og verðskuldaðan vitnis- burð. Blessuð sé minn- ing Sigurðar Þorgeirs- sonar. Jónas A.Þ. Jónsson. Það var frekar óskemmtilegt samtalið þegar Birkir hringdi í mig, mánudaginn 15. maí og sagði mér frá því að góður vinur okkar, Siggi í Eimskip, hefði fallið frá. Það er alltaf jafn erfitt að sjá eftir góðu fólki sem er hraust og í blóma lífsins fara frá okkur en þannig er víst bara lífið. Ég kynntist Sigga þegar ég hóf störf í Austfar sem lítill polli og voru fyrstu kynni okkur þegar við reynd- um að bæta umhverfið og laga blómabeðið sem var sameiginlegt milli Austfars og Eimskips. Það var gengið í það verk eins og flest allt sem tengdist Sigga. Liðu síðan árin og maður þrosk- aðist og fór burtu í skóla en alltaf þegar maður kom heim í jólafrí eða sumarfrí þá var kíkt til Sigga, því alltaf reyndist hann klár í spjall. Fyr- ir fjórum árum hófum við síðan nán- ara samstarf en þá ákvað Siggi að styrkja fótboltann um hver jól og áramót þar sem haldin var firma- keppni fyrir fyrirtæki á Seyðisfirði sem gátu tekið þátt og það kom í minn hlut og nokkurra félaga að spila fyrir Sigga. Við spiluðum í nafni Eimskips þrjú ár í röð en slepptum síðasta móti. Öll þrjú árin sem við tókum þátt unnum við keppnina og færðum Sigga bikara í höfn sem síð- an voru settir upp á skrifstofu hans. Alltaf sýndi Siggi þessu áhuga og kom og horfði á strákana sína keppa og síðan þegar nálgaðist áramót var mannskapurinn kallaður saman og ákvað að hittast í íþróttahúsinu. Þá komu þau hjón brosandi með mynda- vélina til að taka hópmynd sem minn- ingu um hversu gott samstarf þetta var. Það klikkaði ekki að alltaf færði Siggi okkur gjafir fyrir árangurinn, hvort sem það voru pennar eða bolir sem við göngum enn stoltir í, en þá vorum við alltaf jafn spenntir að hitta hann. Við stilltum okkur síðan upp og Guðný sá um að taka myndina. Síðan sendi hann okkur afrit og þessar myndir eru okkur dýrmætar minn- ingar um frábæra tíma. Fyrir hönd okkar sem kepptum fyrir þig og Eimskip viljum við þakka þér fyrir góðar stundir og stuðning- inn þessi þrjú ár. Einnig vil ég þakka þér fyrir vinskapinn og hlýjuna sem þú sýndir mér frá því ég hóf störf hjá Austfar, þá ungur að árum. Ég vil votta Guðnýju og fjölskyld- unni samúð mína. Megi guð vera með ykkur á þessum erfiðu tímum. Davíð Þór Sigurðarson. „Siggi á Seyðisfirði lést í gær,“ var mér sagt í síma að morgni mánu- dagsins 15. maí. Mér brá illilega að þessi fríski og fjörugi vinur minn skuli kallaður burt í blóma lífsins og hugsanir vakna um hverfulleika lífs- ins. Ég kynntist Sigurði um 1980 vegna starfa míns, en þá var hann umboðsmaður fyrir Eimskip á Fá- skrúðsfirði. Mér varð strax ljóst, að þarna var maður sem vissi hvað hann var að gera og lét ekki eiga hjá sér varðandi verk þau sem að honum sneru og var ávallt með allt á hreinu. Þegar Sigurður ákvað síðar að flytja frá Fáskrúðsfirði og hætta um- boðsmennsku þar fyrir Eimskip, þá kom ég að máli við hann og óskaði eftir því að hann tæki að sér af- greiðslu félagsins á Seyðisfirði sem og varð raunin og sinnti hann því starfi af kostgæfni til dauðadags. Vegna vinnubragða Sigurðar var hann beðinn að sinna ýmsu sem sneri að öðru en rekstrinum á Seyðisfirði, sérstaklega verkum sem vandræði höfðu verið með að sinna á öðrum stöðum. Öll slík verk hættu að verða til trafala eftir að hann tók þau yfir og gengu snurðulaust á eftir. Mér hlotnaðist sú ánægja að kynn- ast Guðnýju konu hans og sótti þau hjón heim þegar ég átti leið hjá og naut gestrisni þeirra. Sérstaklega minnist ég þeirrar höfðinglegu mót- töku sem við hjónin fengum þegar við komum til þeirra sumarið 2004 með tvenn vinahjón okkar eftir göngu frá Loðmundarfirði. Þá kom í ljós hversu samhent þau hjón voru, hvort sem var við að hlúa að sínu fal- lega heimili eða í móttöku lúinna ferðalanga. Elsku Guðný, ég og kona mín sendum þér innilega samúðarkveðju, við vitum að missir þinn er mikill. Ég ber þér jafnframt kveðju samstarfs- manna minna hjá Eimskip sem margir eiga eftir að sakna eigin- manns þíns. Guðmundur Pedersen. Nú þegar sumarið er á næsta leiti með öllum sínum töfrum, fuglasöng, trén farin að bruma og áður en langt um líður mun náttúran skarta sínu fegursta, kvaddi hún Bjarnfríður þennan heim. Hún varð ein af mikilvægu per- sónunum í lífi mínu sem seinni eig- inkona föður míns, Sveinbjörns Sam- sonarsonar. Sem barn fór ég á hverju sumri í heimsókn til Þingeyr- ar frá Patreksfirði og oftar en ekki siglandi á bátnum hans pabba, Svan- inum, og naut þess að vera með systkinum mínum við gott atlæti pabba og Bjarnfríðar. Börnin mín fengu líka að njóta þess að kynnast Bjarnfríði ömmu og hlökkuðu alltaf til að fara í heimsókn til ömmu og afa á Þingeyri. Bjarnfríði var margt til lista lagt, hún var söngelsk og var í kirkjukór Þingeyrar meðan heilsan leyfði. Hún var einstaklega laghent við sauma- skap og prjón, það kom bara full- skapað á örskotsstund og oftar en ekki án uppskrifta. Ég verð líka að minnast á blómin hennar, gluggarnir voru alltaf fagurlega skreyttir af marglitum blómstrandi plöntum og BJARNFRÍÐUR SIMONSEN ✝ BjarnfríðurSimonsen fædd- ist á Sandi í Sandey í Færeyjum 9. júlí 1924. Hún andaðist á Fjórðungssjúkra- húsinu á Ísafirði 22. apríl síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Þingeyrar- kirkju 29. apríl. seinna þegar fjöl- skyldan eignaðist hús með garði naut Bjarn- fríður þess að geta sinnt þessu hugðarefni sínu. Ýmsar minningar koma upp í hugann þegar hugsað er til baka. Ég man t.d. hve gott það var að koma í hlýtt eldhúsið hjá henni, fá te og nýbak- aðar kökur eftir leiki dagsins. Það var líka alltaf eitthvað mjúkt og fallegt í pökkunum sem komu frá Þingeyri. Ekki síst minnist ég þess hvað það var notalegt að sitja með Bjarnfríði og hlusta á lýsingar henn- ar á Færeyjum, lífinu þar og fólkinu hennar, þá urðu augun hennar dreymandi, það leyndi sér ekki hve ættartengslin voru sterk. Þegar ég kom svo til Færeyja fyrir nokkrum árum fannst mér eins og ég hefði komið þar áður, svo ljóslifandi voru lýsingar hennar í huga mínum. Ég vil líka minnast þess þegar Bjarnfríður varð áttræð. Þá komu meðal annars ættingar hennar frá Færeyjum til að samfagna henni. Þar bar hæst færeyska söngva og dansa í Víkingatjaldinu niðri á Þing- eyraroddanum. Elsku Bjarnfríður, við Hannes, börnin og barnabörnin þökkum fyrir allt. Megi góður guð vera með þér. Ég veit að pabbi og litla Jóvina hafa tekið á móti þér. Elsku systkin, Svenni, Matti, Jói, Jóvina og Anna, guð blessi ykkur og fjölskyldur ykkar. Helga. Elsku Bára frænka. Ó, hvað tilhugsunin um að heyra ekki kitl- andi hlátur þinn fram- ar gerir okkur sorg- mædd en minningin um brosið þitt og allt það fallega sem streymdi frá þér mun ávallt kalla fram hlýja tilfinn- ingu og bros á varirnar. Þú varst alltaf blíð og góð eins og engill þannig að nú vitum við að þeim hefur fjölgað. Guð geymi þig, Hafdís, Björn, Birgitta Líf og Björn Boði. Kvödd er mikil merkiskona. Ein af þessum einstöku manneskjum sem öllum þykir vænt um og öllum finnst þeir eiga, það er hún amma Bára eða Bára í Hannyrðabúðinni. Ég kynntist Báru fyrst árið 1973 þegar dóttir hennar Emma var nemandi minn í fimleikum, þá 7 ára gömul. Strax frá fyrstu kynnum urðum við hinir mestu mátar og vor- BÁRA BJÖRNSDÓTTIR ✝ Bára Björns-dóttir fæddist 16. maí 1927. Hún lést á heimili sínu 9. maí síðastliðinn og var jarðsungin frá Víðistaðakirkju 16. maí. um allt fram til hinstu stundar. Bára var allt- af hress og kát og tilbúin til þess að hjálpa ef á þurfti að halda þrátt fyrir að hún hefði meira en nóg að gera í sinni vinnu og með sitt heimili. Ef ég kom við hjá henni í Hannyrða- búðinni þá var hún alltaf reiðubúin til þess að koma með góð ráð varðandi útsaum og prjónaskap og allt sem því við kom. Nú á síðasta ári hjálpaði hún yngstu dóttur minni og vakti áhuga hennar á því að prjóna, því í hennar augum var þetta ekkert mál og smitaði alla af þessum ein- staka eldmóði sem hún bjó yfir. Þeg- ar ég eignaðist litlu barnabörnin mín nú á síðustu árum þá var hún mætt með litlar flíkur sem hún hafði gert til þess að færa þeim og ég held hún hafi aldrei komið í heimsókn til mín án þess að hafa einhverja handavinnu með sér sem gjöf til okkar. Ég kynntist einnig Magnúsi og fjölskyldu hennar mjög vel. Allt er þetta hið mesta öðlingsfólk og Emma er enn þann dag í dag ein af mínum bestu vinkonum. Bára bar alla tíð hag Fimleikafélagsins Björk fyrir brjósti, mætti á allar sýningar dáðist að öllu sem gert var. Hún kom einnig þangað færandi hendi og vil ég fyrir hönd félagsins þakka fyr- ir það. Börnin mín litu upp til þessarar góðu konu og þótti vænt um hana enda var ekki annað hægt. Ég mun ætíð minnast hennar eins og hún var í eitt sinn þegar hún kom til okkar fyrir nokkrum árum síðan, þá rúm- lega sjötug. Það rennir eldrauður bíll upp að húsinu, úti var nýfallin snjór. Út kemur Bára í eldrauðri kápu með hatt og í svörtum falleg- um skóm. Hún hleypur upp að hús- inu, kemur inn færandi hendi segir okkur fréttir af Emmu og börnunum hennar. Hún stoppaði kannski í tíu mínútur og þurfti svo að flýta sér til þess að heimsækja einhvern sem var veikur og hún vildi gleðja. Og út hljóp hún létt á fæti eins og ung kona og eftir stóðum við brosandi út að eyrum og glöð. Því það var það sem hún skildi eftir, gleðina. Öll dáðumst við að orku þessarar konu. Ég er viss um að hún heldur áfram að hlaupa, hjálpa og gleðja þó á öðr- um stað sé og þegar hún og Magnús hittast á ný kemur hún örugglega hlaupandi á móti honum. Hvort sem krýnist þessi þjóð þyrnum eða rósum, hennar sögur, hennar ljóð, hennar líf vér kjósum. (Jóhannes úr Kötlum.) Elsku Emma, Magnús og öll ykk- ar stórfjölskylda, við Ketill og fjöl- skylda sendum ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur og megi gleði yndislegrar konu ylja ykkur um ókomin ár. Hlín. Elsku afi. Mér finnst sárt að þurfa að kveðja þig og erfitt að hugsa til þess að næst þegar ég komi í Krossavík standi enginn í tröppunum og fylgist með bílnum renna í hlað. Ég get enn séð þig fyrir mér standa í dyrunum og segja ,,Sælinú“ eða ,,Já, sæl, elskan mín“. Eftir að þú hafðir heilsað öllum var maður að sjálfsögðu dreginn inn í kaffi til ömmu sem sagðist aldrei hafa neitt fyrir okkur, þrátt fyrir að á borðinu væru að minnsta kosti 7 kökusortir. Þú kenndir mér margt, afi minn, og reyndist mér vel. Ófáum stundum eyddirðu í það að segja mér frá líf- inu í gamla daga og hvað fólk gerði sér til skemmtunar, böllunum sem þú spilaðir á og þegar þú kynntist ömmu. Mér fannst alltaf gaman að heyra þig tala um ömmu, þú varst svo yfirmáta ánægður með hana. Þú hafðir alltaf mikinn áhuga á því hvað ég væri að læra og sér- staklega eftir að ég byrjaði í menntaskóla. Þú varst alltaf ánægð- ur að heyra það að mér gengi vel í skólanum og sagðir ávallt að mennt- un væri gulls ígildi. Þú spurðir mig oft hvernig þetta fólk væri nú þarna fyrir norðan og hvort það væri ekki almennilegt við mig. Þú kenndir mér ýmislegt um lífið og tilveruna sem þú hafðir sterkar skoðanir á, eins og öllu öðru. Þrátt fyrir það varstu mjög sanngjarn og vel hægt að ræða hlutina við þig eins og flestir vita. Fyrsta minning mín um afa er lík- legast sú þegar ég var 5 ára gömul BJÖRN SIGMARSSON ✝ Björn Sigmars-son fæddist í Krossavík í Vopna- firði 22. nóvember 1919. Hann lést á Landspítala – há- skólasjúkrahúsi 25. apríl síðastliðinn af völdum slyss og var jarðsunginn frá Vopnafjarðarkirkju 4. maí. að keyra dráttarvélina með honum. Það var fallegur sumardagur og afi á seinni rúntin- um fyrir hádegi. Ég man hversu hreykin ég sat á hnjánum á honum og stýrði dráttarvélinni af mik- illi prýði, mótmælti svo kröftuglega þegar afi kippti í stýrið við og við til að forða okk- ur frá árekstrum. Stolt mitt var ólýsan- legt. Afi minn var mjög hreinskilinn og honum fannst það ákaflega leiðin- legt ef hann fékk ekki að segja hug sinn. Eitt sinn man ég að hann sagði við mig ,,Já, já, Eva mín. Þú verður nú lagleg“. Ég hefði sennilega móðgast ef einhver annar hefði sagt þetta við mig, en af því að þetta var afi í Krossavík fannst mér þetta allt í lagi. Hann var nefnilega ekki að meina neitt ljótt, heldur var hann bara að segja að ég yrði alltaf lag- legri með aldrinum. Ég minnist þess atviks sérstaklega þegar ég kom í heimsókn í Krossavík fyrir stuttu í bleikum stígvélum með hjörtum og spurði þig hvort þér fyndist þau ekki flott. Þú hélst nú það og sagðir að þau væru aldeilis lagleg og varst frekar ánægður með að loksins væri ég farin að skóa mig vel. Þessir ung- lingar væru alltaf á einhverjum strigaskóm sem þyldu hvorki rign- ingu né skít. Það er ein af mínum síðustu og skemmtilegustu minning- um um hann afa þegar hann sagði þetta og þessi stígvél ætla ég mér að varðveita vel. Ég vona að þér líði vel, elsku afi minn, og að guð leyfi þér nú aðeins að spila á orgelið þarna uppi svo þú getir skemmt liðinu með gömlum góðum lögum eins og Kolbrún mín einasta og Sestu hérna hjá mér, sem voru alveg í uppáhaldi hjá þér. Ég veit þú spjarar þig, afi minn, hvar sem þú ert. Eva Þórey.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.