Morgunblaðið - 14.12.2006, Blaðsíða 32
32 FIMMTUDAGUR 14. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
É
g er ein af öllum þeim
sem ná aldrei að lesa
allt sem mig langar.
Eitt af því sem hefur
færst neðarlega í stafl-
ann er tímaritið Þjóðmál. Ég hef
gluggað í nokkur heftanna en gaf
mér í fyrsta sinn á dögunum tíma til
að kynna mér almennilega efni eins
tímarits, 3. heftis þessa árs.
Þjóðmál eru að mörgu leyti vand-
að tímarit. Það lítur vel út, fer vel í
hendi og er ekki stútfullt af glans-
andi auglýsingum. Þá er þægilegt að
hafa skoðanir, fræðiumræðu og pæl-
ingar manna sem eru á svipaðri póli-
tískri línu samankomna á einum
stað. Björn Bjarnason, dóms-
málaráðherra, veltir t.a.m. fyrir sér
stjórnmálum líðandi stundar en
hann ætti að vera fyrirmynd ann-
arra stjórnmálamanna þegar kemur
að því að tjá sig í riti, hvort sem er í
blöðum og tímaritum eða á vefsíðu
sinni.
Sumar greinar í Þjóðmálum skýra
vel afstöðu og rök hægri manna og
er það vel. Aðrar halda á lofti und-
arlegum, jafnvel afturhaldslegum,
hugmyndum sem eru tímaritinu
ekki til sóma.
Af fjórtán greinum í áðurnefndu
hefti er aðeins ein eftir konu, Sigríði
Andersen. Greinin heitir „Því þéna
karlmenn meira?“ og er dómur um
bók sem Sigríður segir vera sjálfs-
hjálparbók fyrir fólk sem vill hærri
laun. Miðað við dóminn virðist bókin
þó ganga að nokkru leyti út á að
réttlæta kynbundinn launamun, t.d.
með því að benda á aðrar orsaka-
breytur en kyn, og halda því á lofti
að karlar hafi verið með hærri laun
því þeir hafi tekið meiri áhættu, ver-
ið í leiðinlegri störfum eða bara
hreinlega verið svo duglegir.
Hræðsluáróður Hjartar J. Guð-
mundssonar í grein um „deyjandi
Evrópuþjóðir“ er dapurlegt innlegg
í umræðu um innflytjendur hér á
landi. Þar segir hann að ekki eigi að
taka á móti fleira fólki hér á landi en
„hægt er að aðlaga [svo] með góðu
móti að íslenzku þjóðfélagi“. Hjörtur
er nánast hysterískur í kvörtunum
sínum yfir að „félagslegur rétttrún-
aður“ takmarki málfrelsi. Hann
hlýtur að vita að málfrelsi snýst ein-
mitt um að fólk megi tjá sig og þ.m.t.
andmæla skoðunum þeirra sem
halda á lofti kreddum um innflytj-
endur eða aðra þjóðfélagshópa.
Hjörtur lætur í veðri vaka að átök
á Balkanskaganum séu eingöngu
vegna þess að þar búi ólíkar þjóðir
og þjóðabrot en minnist ekkert á
hrun kommúnismans og hvernig
Júgóslavía liðaðist í sundur. Sem
sagnfræðinemi ætti hann að þekkja
hversu margar breytur búa oftast að
baki átökum.
Hræðsluáróðurinn nær hámarki
með þeirri fullyrðingu að verði ekk-
ert að gert vakni Íslendingar upp
einn daginn „við þá staðreynd að
fólkið sem byggir landið á ekki leng-
ur neina samleið og þar með segir
það sig sjálft að hér verður ekki
lengur eitt þjóðfélag heldur mörg
ólík sem hugsanlega munu eiga í
innbyrðis deilum líkt og á Balk-
anskaganum.“ Hvað er maðurinn að
fara? Hvítir menn vopnist?
Eitt er víst að ég á miklu meiri
samleið með íranskri vinkonu minni,
búsettri hér á landi, en með Hirti.
Erum ég og Hjörtur þá ólík þjóð-
félög?
Ritstjóri Þjóðmála, Jakob F. Ás-
geirsson, fer einnig mikinn um ís-
lenska tungu og íslenskt þjóðerni í
ritstjóraspjalli og kallar útvarp á
pólsku og öðrum tungumálum „stór-
kostlegt skemmdarverk“.
Staðhæfing hans um að Bretland
og Ísland hafi fylgt svipaðri stefnu í
innflytjendamálum þar sem engar
hömlur eru á er beinlínis röng enda
hafa hömlur á innflutningi fólks hér
á landi verið margfalt meiri en í
Bretlandi.
Jakob hefur einnig áhyggjur af
fóstureyðingum og staðhæfir að
kristið fólk hljóti óhjákvæmilega að
líta svo á að líf kvikni við getnað. „Er
þögnin um fóstureyðingar til vitnis
um að kristin viðhorf risti ekki ýkja
djúpt með Íslendingum?“ spyr hann.
Aftur: Hvað er maðurinn að fara?
Kristið fólk er ekki á einni skoðun í
þessum efnum og það verður erfitt
fyrir Jakob að gagnrýna bókstafstrú
í framtíðinni.
Stefán Einar Stefánsson virðist á
því að sniðug leið til að berjast gegn
fóstureyðingum sé að persónugera
fóstur og vísa í Biblíuna en grein
hans ber heitið: „Augu þín sáu mig,
er ég enn var ómyndað efni“ (úr 139.
Davíðssálmi). Stefán fullyrðir, líkt
og Jakob, að líf kvikni við getnað. Ef
svo er þá þarf að fara að halda allt
aðrar skrár yfir fjölda og dánartíðni
Íslendinga.
Eins og Eyjólfur Þorkelsson og
Karl Erlingur Oddason, læknanem-
ar, bentu á í grein í Morgunblaðinu
fyrir nokkrum mánuðum er eðli-
legra að tala um meðgöngurof en um
fóstureyðingu. Þar kemur einnig
fram að langflest meðgöngurof fari
fram fyrir tíundu viku meðgöngu og
þá er um fósturvísi að ræða en ekki
fóstur, en Stefán tönnlast á því síð-
arnefnda í greininni. Þá er talið að
60–70% fósturvísa, sem ekki er
hreyft við, verði aldrei að barni.
Umræða um meðgöngurof þarf að
byggjast á staðreyndum og vera
með hag kvenna og kvenfrelsi að
leiðarljósi en ekki „kristin gildi“
íhaldssamra karla. Gaman væri t.d.
að sjá Stefán Einar velta fyrir sér
ábyrgð karla á getnaði frekar en að
leggja til að innlendar frumættleið-
ingar verði efldar til að „verja lífs-
rétt fóstursins“.
Það veldur áhyggjum ef efni Þjóð-
mála ber vitni um þá átt sem hægri-
menn (eða hluti hægrimanna) stefna
í á Íslandi enda held ég þeir hafi
margt skynsamlegra fram að færa
en eigið kristna siðferði þegar kem-
ur að fóstureyðingum og hræðslu-
áróður þegar kemur að alþjóðavæð-
ingu. Fræði- og stjórnmálamenn
sem vilja láta taka sig alvarlega ættu
að hugsa sig tvisvar um áður en þeir
skrifa í Þjóðmál með óbreyttu sniði.
Hvert
stefna Þjóð-
mál?
» Það veldur áhyggjum ef efni Þjóðmála ber vitnium þá átt sem hægrimenn (eða hluti hægri-
manna) stefna í á Íslandi enda held ég þeir hafi
margt skynsamlegra fram að færa
halla@mbl.is
VIÐHORF
Eftir Höllu Gunnarsdóttur
ALÞJÓÐLEG bók- og tímarits-
númer eru alþjóðleg staðalnúmer
sem eru íslenskum útgefendum að
góðu kunn. Tilgang-
urinn með þessum
númerum er að auð-
kenna sérhvern titil út-
gefinna rita og auð-
velda alla umsýslu með
þau í tölvum. Þau eru í
raun eins konar kenni-
tölur sem greina ekki
aðeins í sundur mis-
munandi titla og sömu
titla mismunandi rita,
heldur einnig mismun-
andi útgáfur og útgáfu-
form þeirra. Núm-
erakerfin hafa náð
gífurlegri útbreiðslu í
útgáfuheiminum, m.a. vegna þess að
hægt er að gera númerin læsileg á
vélrænan hátt í formi EAN strika-
merkis. ISBN- og ISSN-númer eru
þó jafnframt notuð óháð því hvort
útgáfan er ætluð til sölu á markaði
eða ekki og óháð formi hennar.
ISBN og ISSN eru hliðstæð núm-
erakerfi, hugsuð fyrir ólíkar teg-
undir rita. ISBN-númerin, bókn-
úmerin, eru þannig ætluð fyrir
bækur, bæklinga og stakar skýrslur
til dæmis, en ISSN-númerin, tíma-
ritsnúmerin, fyrir blöð og tímarit,
ritraðar, árbækur, skýrslur og
fréttabréf. Notendur þessara núm-
erakerfa eru ekki aðeins útgefendur,
heldur einnig bóksalar, dreifing-
araðilar og bókasöfn, svo nokkrir
séu nefndir. Númerin eru lyk-
ilnúmer í pantana- og sölukerfum
bókaforlaga og verslana og í sölu-
skrám, reiknings- og birgðahaldi. Á
bókasöfnum einfalda þau alla skrán-
ingu og pantanaferli ritanna.
Uppbygging númeranna sjálfra er
ólík. ISBN-númerið sem hingað til
hefur verið tíu stafa tala, en mun
lengjast í þrettán stafa tölu á næsta
ári, inniheldur þátt sem segir til um
land, útgefanda og útgáfu. ISBN-
númerum er úthlutað í röðum til út-
gefenda eða í stökum númerum, eft-
ir umfangi útgáfunnar. Strikanúm-
erið er fundið með því
að skeyta framan við
það forskeytinu 978
skv. EAN-13 staðli.
ISSN-númerið er aftur
á móti átta stafa tala og
inniheldur engan þátt
sem tilgreinir fyrr-
nefnd atriði og er núm-
erunum úthlutað í
beinni númeraröð.
ISSN-númerið tengist
ekki útgefandanum
heldur fylgir titli tíma-
ritsins og er alltaf það
sama þar til titilbreyt-
ing verður. Strikanúm-
erið er fundið með forskeytinu 977
og einnig þarf að vera sérstakt
strikamerki til hliðar við að-
alstrikamerkið sem sýnir breytingar
á milli tölublaða og árganga.
Staðallinn á bak við ISBN-
númerið hefur nú verið endurskoð-
aður í ljósi stóraukinnar útgáfu efnis
á rafrænu formi. Með áframhaldandi
notkun á tíu stafa númerakerfinu
hefði númerakvótinn í heiminum
fljótlega klárast. Nýja þrettán stafa
númerakerfið, sem gengur í gildi 1.
janúar 2007, gerir ekki aðeins kleift
að framleiða fleiri númer, heldur
hefur ISBN-númerið til einföldunar
verið gert sambærilegt strikamerk-
isnúmerinu, þ.e.a.s. EAN-13 for-
skeytið 978 verður tekið upp sem
hluti af ISBN-númerinu. Síðar verð-
ur innleitt nýtt forskeyti, 979.
Með nýjum ISSN-staðli á næsta
ári mun hlutverk ISSN-númersins
með tilliti til rafrænnar útgáfu að
nokkru leyti verða víkkað út. Ekki
stendur til að breyta sjálfu núm-
erinu. Notkun á ISSN-númerum
hefur ekki haldist nóg í hendur við
stóraukna rafræna útgáfu. Útgáfa
fjölmargra tímarita hefur færst yfir
í það að vera jafnframt eða jafnvel
eingöngu rafræn og bókasöfn kaupa
þessar útgáfur í áskrift í vaxandi
mæli þótt aðgangur að íslenskum
vefritum sé enn að mestu leyti
ókeypis. Ekki er síður brýnt að auð-
kenna rafrænu útgáfurnar. ISSN-
og ISBN-númer eru skráningar- og
tilvísananúmer í réttar útgáfur rita,
óháð markaðssetningu, og skv. lög-
um um skylduskil skal rafrænu,
jafnt sem prentuðu efni, skilað til
Landsbókasafns. ISSN- og ISBN-
númerin er hægt að nota til að
mynda öruggar vefslóðir og fasta
tengla á netinu.
Alþjóðlegu bók- og tímaritsnúm-
erakerfunum er stjórnað af tveimur
óskyldum stofnunum, ISBN Agency
í London og ISSN International
Centre í París. Um allan heim eru
starfandi umboðsskrifstofur sem
annast úthlutun númeranna í við-
komandi löndum og skráningu rit-
anna eftir því sem við á, auk þess
sem þær bera ábyrgð á útbreiðslu og
kynningu á númerakerfunum. Hér á
landi er þessi þjónusta veitt í Lands-
bókasafni Íslands Háskólabókasafni.
Bók- og tímaritsnúmerum er út-
hlutað útgefendum að kostn-
aðarlausu.
Kennitölur fyrir
útgáfuheiminn
Helga Kristín Gunnarsdóttir
fjallar um alþjóðlegu
bók- og tímaritsnúmerakerfin
ISBN og ISSN
» Tilgangurinn meðþessum númerum er
að auðkenna sérhvern
titil útgefinna rita og
auðvelda alla umsýslu
með þau í tölvum.
Helga Kristín
Gunnarsdóttir
Höfundur hefur umsjón með úthlutun
ISBN- og ISSN-númera í Lands-
bókasafni Íslands - Háskóla-
bókasafni.
ÞAÐ líður að jólum, nú er
dásamlegur tími sem einkennist af
kærleika og samveru. Við njótum
þess að deila velgengni okkar með
ástvinum og einnig
með þeim sem ekki
hafa verið eins lán-
samir og við. Í meira
en 30 ár hafa Íslend-
ingar gefið til Hjálp-
arstarfs kirkjunnar.
Mig langar til að
segja þér frá hvernig
við höfum notað
framlög landsmanna
og hvað það hefur
þýtt fyrir aðra mann-
eskju.
Ekkjan Nyabag-
arama Violet
Í Sembabule-héraði í Úganda
býr Nyabagarama Violet sem er
75 ára gömul ekkja. Hún hefur
unnið hörðum höndum allt sitt líf,
eignaðist tvo syni og þrjár dætur.
Violet kveið ekki ellinni með fimm
uppkomin börn. En örlögin gripu
inn í. Violet lifði þá miklu sorg að
missa öll börn sín úr alnæmi. Í
stað öryggis í ellinni þarf Violet
nú að ala önn fyrir níu mun-
aðarlausum barnabörnum.
Violet skilar þakklæti
Violet segir lífið fyrst hafa orðið
erfitt eftir að hún missti börnin
sín. Húsið hennar var að hruni
komið. Börnin sækja vatn allt að
15 km leið. En nú eru hún og
barnabörnin hennar ein af þeim
sem fá stuðning frá Íslandi. Þau
búa í endurbyggðu húsi með
vatnstanki sem safnar rigning-
arvatni. Þau hafa fengið ýmis
áhöld og flest
barnanna ganga í
skóla. Violet bað sér-
staklega um að fá að
skila kveðju til allra
þeirra sem höfðu
stutt hana og barna-
börnin hennar. Violet
vill skila því til okkar
að framtíðin er bjart-
ari í dag en hún hefur
verið í langan tíma.
Foreldralaus en
ekki lengur ein
Tekist hefur að
draga úr alnæmissmiti í Úganda.
6,2 % af þjóðinni eru smituð en
hlutfallið er hærra í Sembabule.
Af 180.000 íbúum eru 32.000 HIV-
smituð. 13% barna eru mun-
aðarlaus. Það er erfitt að meðtaka
slíkar tölur, erfitt að ímynda sér
þjáninguna á bak við þær. En við
getum hugsað til okkar eigin
barna, hvernig það myndi vera
fyrir þau að fara ein á fætur með
áhyggjur af því hvernig þau eigi
að takast á við daginn. Ein að
hátta með tóman maga, ein með
sínar hugsanir, drauma og mar-
traðir. Við óskum engum slíkra
örlaga. Með hjálp allra þeirra sem
stutt hafa verkefni Hjálparstarfs
kirkjunnar meðal munaðarlausra
barna fá nú börn á hundruðum
foreldralausra heimila ráðgjöf,
huggun, leiðsögn og efnislega að-
stoð. Þau fá hús, rúm, vatnstank
sem safnar vatni af þakinu og
dugar þeim langt inn í þurrkatím-
ann. Þeim opnast leiðir til að sjá
fyrir sér. Fyrir framlög Íslendinga
geta þau líka fengið hænu sem
verpir og geit sem mjólkar. Þau
geta komist í skóla og lært hand-
verk.
Vertu með í jólasöfnuninni
Við hjá Hjálparstarfi kirkjunnar
vonumst til að njóta áframhald-
andi stuðnings landsmanna. Þú
getur notað tækifærið þessi jól og
gefið af þér til annarrar mann-
eskju svo um muni. Nóg er af
börnum sem munu vakna ein í
fyrramálið og þau þurfa þína
hjálp.
Ef þú vilt lesa meira um verk-
efnið í Sembabule getur þú farið
inn á vefsíðu okkar www.help.is.
Gleðileg jól og takk fyrir stuðn-
inginn.
Hvaða þýðingu hefur framlag
til Hjálparstarfs kirkjunnar?
Lydia Geirsdóttir skrifar um
verkefni Hjálparstarfs kirkj-
unnar, Hjálp til sjálfshjálpar
» Þú getur notað tæki-færið þessi jól og
gefið af þér til annarrar
manneskju svo um
muni.
Lydia Geirsdóttir
Höfundur er verkefnastjóri
Hjálparstarfs kirkjunnar.