Morgunblaðið - 27.05.2007, Qupperneq 14
14 SUNNUDAGUR 27. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
KLEPPSSPÍTALI 100 ÁRA
50 aura eða krónu á dag, eftir að-
stæðum.
Urðu innlyksa á Kleppi
Hugmyndir manna um geðsjúkra-
hús á þessum tíma voru á þann veg
að það væri heimili. Fólk sem ritaðist
þar inn var ekki talið líklegt til að
snúa aftur út í þjóðfélagið. Enda var
það svo að á fyrstu áratugunum urðu
margir innlyksa á Kleppi.
Óttar segir aðbúnað sjúklinga hafa
verið ákaflega bágborinn vegna
þrengslanna. „Fólki sem þekkti
hvorki haus né sporð hvað á öðru var
hrúgað inn á stóra sali, átta til tólf
voru á hverri stofu og sjúklingarnir
höfðu varla nokkurt eigið rými. Ekki
einu sinni náttborð. Fólkið var allt
klætt í spítalaföt og hafði lítið fyrir
stafni.“
Samhliða læknisstörfum sínum
rak Þórður Sveinsson stórt bú á
Kleppi og þótti búmaður góður. Síð-
ustu árin sem hann lifði var bústjóri
fenginn að búinu, Tryggvi Guð-
mundsson.
Þórður leit svo á, líkt og venjan var
á þessum tíma, að hollt væri fyrir
sjúklingana að vinna að bústörfum
enda komu þeir að langmestu leyti úr
sveitum landsins. Á vetrum voru
konurnar í ullar- og tóvinnu og karl-
arnir skáru tóbak og fleira.
Vinnulækningar voru alþekktar
úti í heimi á þessum tíma og rímaði
þetta vel við þau fræði. Róandi lyf
voru líka komin fram á sjónarsviðið
en Þórður hafði, að sögn Óttars, litla
trú á þeim og notaði þau ekki, nema
helst magnyl.
Hafði mikla trú á
vatnslækningum
Þess í stað notaði Þórður vatn mik-
ið við lækningar sínar. Það notaði
hann á tvo vegu. Annars vegar út-
vortis, þ.e.a.s. setti sjúklinga í heit og
köld böð. „Það var viðtekin trú
manna um allan heim að þetta væri
góð aðferð til að kljást við geðveiki.
Kalda baðið var notað til að gera fólki
bylt við og róa það þannig niður en
heita baðið var notað til að draga alla
orku úr jafnvel hraustustu skrokk-
um. Voru menn látnir liggja í 45°
heitu baði jafnvel í nokkra klukku-
tíma ef með þurfti,“ segir Óttar.
Hins vegar notaði Þórður svokall-
aðar innvortis vatnslækningar og
segir Óttar að hann sé þekktastur
fyrir þær. „Þær fóru fram með þeim
hætti að sjúklingurinn var sveltur í
talsverðan tíma, allt upp í nokkrar
vikur, og lifði einungis á 55° heitu
vatni. Þetta var því einskonar vatns-
og sveltimeðferð. Þessari aðferð
beitti hann líka á inflúensuveikt fólk
þegar spænska veikin gekk yfir land-
ið.“
Sjálfur skrifaði Þórður lítið um
lækningar sínar en Óttar segir að í
viðtölum hafi honum orðið tíðrætt
um að geðsjúkir svitnuðu ekki. Fyrir
vikið þyrfti að fá þá til að svitna, ann-
að hvort með heitu baði eða drykkju
heits vatns.
Óttar segir Þórð hafa haft gríð-
arlega trú á vatnslækningunum og
verið sannfærðan um að hann væri
að „svelta“ sjúkdóminn. „Inn í þetta
blandaðist að Þórður var einn helsti
spíritisti landsins og hafði ákveðnar
hugmyndir um það að geðsjúkdómar
stöfuðu – a.m.k. að einhverju leyti –
af yfirnáttúrulegum fyrirbærum.
Hann var því að reyna að reka illa
anda eða verur á lægri tilverustigum
út úr sjúklingunum. Þetta var op-
inbert leyndarmál og kom m.a. skýrt
fram í minningargreinum sem skrif-
aðar voru um Þórð.“
Langtímaáhrif lítil sem engin
Óttar segir skammtímaáhrif
vatnslækninga yfirhöfuð vera ágæt.
„Það segir sig sjálft að jafnvel
hraustustu menn róast verulega við
að leggjast í 45° heitt bað. Lang-
tímaáhrifin hafa þó að líkindum ekki
verið mikil ef nokkur. Sömu sögu má
segja um svelti- eða vatnsmeðferð-
ina. Eftir langvarandi svelti eru
menn ekki líklegir til mikilla átaka.“
Óttar segir allt sem tíðkaðist á
Kleppi í tíð Þórðar Sveinssonar hafa
verið í takti við þær lækningar sem
stundaðar voru í nágrannalöndunum
á þessum tíma – nema innvortis
vatnslækningarnar. Menn hafi verið
hættir að nota þær erlendis. Inn-
lagnir og útskriftir voru hlutfallslega
svipaðar og á Norðurlöndunum og
greiningaraðferðir líka.
Óttar segir aðferðina hafa verið
umdeilda og Þórður hafi á köflum
legið undir ámæli. Læknar hafi m.a.
kvartað til landlæknis. Hann aðhafð-
ist þó ekki í málinu.
Þrátt fyrir þetta segir Óttar Þórð
hafa verið ákaflega vel liðinn mann
og vinsælan meðal sjúklinga sinna.
„Hann þótti gríðarlega vel gefinn,
fróður og skemmtilegur maður.
Hann var líka alþýðlegur og þekkti
alla sjúklinga sína með nafni.“
Spítalanum skipt í tvennt
Árið 1919 hófust framkvæmdir við
Nýja-Klepp. Þeim lauk tíu árum síð-
ar og stendur sú bygging ennþá í
óbreyttri mynd. Arkitekt var Guðjón
Samúelsson. Þegar nýja byggingin
var tekin í notkun, 1929, var starf-
semi Klepps tvískipt. Þórður hélt
áfram að starfa sem yfirlæknir á
Gamla-Kleppi en fenginn var nýr yf-
irlæknir á Nýja-Klepp, Helgi Tóm-
asson. Fyrst um sinn voru 100 rými á
Nýja-Kleppi. „Þetta leysti húsnæð-
isvanda spítalans um skeið en innan
áratugar var allt komið í sama farið
aftur,“ segir Óttar.
Fram til ársins 1939, er Þórður lét
af störfum, var rekin gjörólík með-
ferð á þessum tveimur spítölum á
sömu lóðinni. Helgi var nýbúinn að
verja doktorsritgerð sína í Kaup-
mannahöfn og fór strax að reka mjög
nútímalega geðdeild á Nýja-Kleppi.
„Helgi er frumkvöðull nútímageð-
lækninga í landinu. Hann kom með
lyfjameðferð af ýmsu tagi að utan og
í hans tíð var Nýi-Kleppur mjög
lyfjamiðaður spítali meðan Gamli-
Kleppur var áfram vatnsmiðaður.
Helgi var mjög nútímalegur læknir
og mikill vísindamaður. Skrifaði m.a.
mikið um lyflækningar sínar og að-
ferðirnar sem hann var að þróa.“
Jónas frá Hriflu rak Helga
Fljótlega eftir að Helgi kom til
starfa lenti hann upp á kant við þá-
verandi dómsmálaráðherra, Jónas
Jónsson frá Hriflu. Úr varð svokallað
Stórubombumál sem öll þjóðin fylgd-
ist með af athygli.
Tómas Helgason, sonur Helga og
síðar yfirlæknir á Kleppi, segir að
upphaf málsins hafi verið sérkenni-
legar embættisveitingar og ofsafeng-
in viðbrögð Jónasar á næstliðnum
tveimur árum, sem læknar og aðrir,
bæði pólitískir samherjar og mót-
herjar, höfðu orðið varir við. Faðir
hans fór í vitjun til Jónasar í febr-
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Gamli-Kleppur Gamla spítalahúsið stóð í tæpa sjö áratugi en 1973 var því lokað og því gjörbreytt.
»Á fyrstu áratugunum urðu
margir innlyksa á Kleppi.
T
ómas Helgason óx úr grasi á Kleppi
þar sem faðir hans, Helgi Tómasson,
var yfirlæknir um árabil. Tómas tók
síðar sjálfur við þeim kyndli. Hann er
fæddur árið 1927 og var því fimm ára þegar
faðir hans tók öðru sinni við starfi yfirlækn-
is. Tómas segir það hafa verið gott að alast
upp á þessum óvenjulega stað enda hafi
Kleppur verið frjálslegt og þægilegt sam-
félag sjúklinga og starfsfólks.
„Kleppur var mjög gott samfélag og ég
öðlaðist strax þann skilning að bera á virð-
ingu fyrir fólki sem á við geðræn vandamál
að stríða. Þegar öllu er á botninn hvolft er
þetta líka bara fólk – rétt eins og ég og þú –
og engin ástæða til að umgangast það með
öðrum hætti. Ég lærði líka fljótt að ef ég
mætti sjúklingunum af skilningi og umburð-
arlyndi guldu þeir í sömu mynt. Ég vingaðist
við marga sjúklinga á æskuárum mínum og
sumir þeirra léku við mig.“
„Ógnvekjandi“ hegðun
Tómas varð ungur var við fordóma og
hræðslu fólks í garð Klepps sem hann rekur
öðru fremur til einangrunar spítalans og
þekkingarleysis á geðsjúkdómum. Ekki
hjálpaði það heldur til að opinber umræða
um veikindi af þessu tagi var afskaplega lít-
il. „Það hefur sem betur fer breyst í seinni
tíð en ætli hræðslan verði ekki alltaf í ein-
hverjum mæli til staðar. Óttast menn ekki
mest að missa vitið eða deyja?“
Tómas segir að vissulega séu brögð að því
að geðsjúklingar geti verið hættulegir – og
þá aðallega sjálfum sér – en þeim er þá ekki
hleypt út af spítalalóðinni nema í fylgd.
„Upp til hópa eru þeir meinlausir enda þótt
hegðun þeirra geti verið óhefðbundin.“
Tómas rifjar upp að í eitt skipti þegar
hann var drengur var hringt á Klepp vegna
„ógnvekjandi“ hegðunar manns sem var á
gangi í Kleppsholtinu. „Pabbi dreif sig upp í
bíl til að sækja manninn, sem hann vissi að
var sjúklingur á spítalanum, og tók mig með
sér, ætli ég hafi ekki verið svona tíu ára.
Þegar við fundum manninn fór ég út úr bíln-
um til að sækja hann. Varð hann ákaflega
glaður að sjá mig. Vitaskuld stóð almenningi
engin ógn af þessum manni, þó hegðun hans
hafi kannski verið svolítið óvenjuleg. Veg-
farendur hafa örugglega rekið upp stór
augu að sjá barn stíga út úr bílnum og ná í
manninn,“ segir Tómas og hlær.
Ein birtingarmynd fordóma íslensku þjóð-
arinnar í garð geðsjúkra er að áratugum
saman hefur verið lagt með neikvæðum
hætti út af orðinu „Kleppur“. Allir kannast
við orð eins og „kleppari“, „klepptækur“ og
„kleppsvinna“.
Tómas segir þetta aldrei hafa komið við
sig persónulega. „Ég er stoltur af því að
vera „kleppari“,“ segir hann hlæjandi. „Á
hinn bóginn hefur mér alltaf fundist þetta
leiðinlegt sjúklinganna vegna þar sem þeir
eiga það á engan hátt skilið.“
Dregið hefur úr þessu í seinni tíð og
sennilega þýddi lítið að tala um „klepps-
vinnu“ við ungmenni í dag. Þau kæmu af
fjöllum.
Tómas segir hins vegar ennþá eima eftir
af þessu viðhorfi. „Mér þykir það til dæmis
ákaflega miður á að síðustu árum er búið að
breyta merkingu orðsins „geðveikt“. Í dag
notar ungt fólk þetta til að lýsa hrifningu
sinni. Einhver er „geðveikt“ góður í fótbolta
og bíómyndir eru „geðveikar“. Þetta er leið-
inleg þróun og vanvirðing við geðsjúkt fólk.“
Samt má segja að þetta dæmi stingi í stúf
við hina almennu málþróun. Hér áður voru
geðsjúkir iðulega kallaðir fávitar eða vit-
leysingar en það þótti Tómasi og öðrum sem
til þekktu mjög miður. Í dag er talað um
geðsjúka eða geðfatlaða.
Ekki talað um „hjartafatlaða“
Enda þótt tíu ár séu síðan Tómas settist í
helgan stein fylgist hann vel með geðheil-
brigðismálum í dag og er umhugað um geð-
heilsu þjóðarinnar. „Það fer alltaf jafnmikið
fyrir brjóstið á mér þegar verið er að spara
og loka geðdeildum. Þá furða ég mig á því
þegar menn eru að býsnast yfir notkun geð-
lyfja. Þau hafa fyrir löngu sannað ágæti sitt.
Það er enginn að setja út á notkun hjarta-
eða krabbameinslyfja. Á þessu er enginn eðl-
ismunur. Ég er líka andvígur því að flytja
málefni geðsjúkra út úr heilbrigðiskerfinu,
þau eiga hvergi annars staðar heima. Geð-
sjúkdómar eru heilbrigðismál rétt eins og
hjartasjúkdómar. Hefur fólk einhvern tíma
heyrt talað um „hjartafatlaða“?“
Tómas segir margt hafa áunnist í geðheil-
brigðismálum á Íslandi á þeim hundrað ár-
um sem liðin eru frá opnun Kleppsspítala.
En betur má ef duga skal. „Það þarf að hlúa
vel að þeim sem eiga við langvinna geð-
sjúkdóma að stríða og fjölga búsetuúrræðum
með nauðsynlegum læknisfræðilegum stuðn-
ingi. Lengi getur gott batnað.“
STOLTUR KLEPPARI
Morgunblaðið/Sverrir
Kleppari „Ég er stoltur af því að vera „klepp-
ari“. Á hinn bóginn hefur mér alltaf fundist
þetta leiðinlegt sjúklinganna vegna þar sem
þeir eiga það á engan hátt skilið,“ segir Tóm-
as Helgason prófessor emeritus.