Morgunblaðið - 19.04.2008, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 19.04.2008, Blaðsíða 38
38 LAUGARDAGUR 19. APRÍL 2008 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Litlu-Sandvík. Búskapurinn var Páli ákveðin lífsnautn, kjölfesta og köll- un. Þau hjón þróuðu sitt blandaða bú í takt við nýja tíma. Hitt er svo undr- unarefni hvernig þau hjón komust í gegnum allan þann eril og stórverk- efni sem þau sinntu fyrir sveit sína og samtíðarmenn. Páll Lýðsson var kvaddur til for- ystu í öllum stærstu félögum Árnes- inga og Sunnlendinga, því er með hreinum ólíkindum hvað hann kom víða að verki í félagsmálum, enn- fremur var hann sakir mannkosta og reynslu héraðshöfðingi sem menn treystu á, nokkurs konar Njáll sam- tíðarinnar. Menn vildu heyra hans úrræði bæri vanda að höndum. Í heimasveit sinni Sandvíkurhreppi var hann oddvitinn og hreppstjórinn og eldhúsið hennar Ellu málstofan þar sem lausnirnar urðu til yfir kaffi- bolla á öllum tímum sólarhringsins. Það var gaman að fylgjast með fé- lagsmálamanninum Páli Lýðssyni, hann var aburðagóður ræðumaður, gat verið hnyttinn í tilsvörum en bæri vanda að úrræðamaður sem tal- aði af þekkingu og í lausnum hins reynda manns. Fremstur meðal jafn- ingja að stjórna fundi. Hann var frá- bær fundarritari og eru fundargerðir hans skrifaðar í stuttu og hnitmiðuðu máli og eru þær skólabókardæmi um hvernig slíkt á að gera. Rithöndin var skýr og sagði hann að leturgerð- in væri stafkarlaletur. Mest þótti mér þó til um þann hæfileika hans að sætta sjónarmið og ná einingu og samstöðu en hitt var aðdáunarvert að gengi slíkt ekki upp tók hann af skarið sem sýndi festu hans sem for- ystumanns. Hvenær og hvernig fór hann svo að því þegar búskapnum sleppir og félagsmálastörfunum að skilja eftir sig heilt ævistarf á sviði ritstarfa og sagnfræði. Á því sviði var lífið honum leikur, hver stund var nýtt í þágu fræðimennsku og öflunar heimilda. Ég vil persónulega þakka Páli alla þá vinsemd, umhyggju og hlýju sem hann sýndi mér í mínum störfum og öll heilræðin. Við framsóknarmenn þökkum honum samfylgd og forystustörf í okkar þágu. Páll var höfðingi í lund, hann var lykilmaður sem menn horfa til á öllum stundum mannlegra sam- skipta, hann einfaldlega lyfti stund- inni með nærveru sinni. Hann var drengskaparmaður, góður félagi og óáreitinn vinur vina sinna. Það er mikill harmur kveðinn að fjölskyld- unni í Litlu-Sandvík, ský hefur dreg- ið fyrir sólu um sinn. Þegar slíkur maður á í hlut mun aftur birta, því hvenær sem við heyrum góðs manns getið kemur nafn hans upp í hugann. Við Margrét sendum fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Guðni Ágústsson. Á Héraðsskjalasafni Árnesinga, Austurvegi 2 á Selfossi, virtist þriðjudagurinn 8. apríl ætla að verða lítt frábrugðinn flestum vinnudögum þar. Um klukkan hálftólf gáfu end- urtekin sírenuhljóð vísbendingar um að óhapp hefði orðið. Því miður eru þau tilvik algengari en svo að valdi verktruflun á ofangreindum vinnu- stað. Klukkustund síðar leiddu há- degisfréttir útvarps um alvarlegt umferðarslys á Eyrarbakkavegi hugann að því til hverra ógæfan hefði nú lagt leið sína. Ýmis nöfn kunn- ugra, sem þar fara oft um brautir, kviknuðu í huga en aðeins augnablik því sem betur fer er okkur fæstum gefið að skynja „Hverjum klukkan glymur“ næst. Að liðinni hálfri stund hringir síminn, – sonur tilkynnir lát föður. Tíminn stöðvast, allt verður svo óraunverulegt og aldrei verður fánýti þeirra orða, sem liggja manni næst tungu, jafn ljóst. Dagurinn líð- ur og að sækja minningar um ald- arfjórðungs samskipti einkum á sviði safnamála og sagnfræðirannsókna í Árnesþingi. Á Héraðsskjalasafni Ár- nesinga var Páll tíður aufúsugestur. Þangað sótti hann sér fjölþættan fróðleik og í smiðju til hans var gott að leita fanga þegar þekkingu skorti um menn og málefni í héraði. Oft var gripið til símans, hringt til Litlu- Sandvíkur og Páll spurður álits. Ef stóð á svari, sem ekki var oft, fór hann upp í skjalasafn sitt í stóru rými undir súð og lausnin var fengin stuttu síðar. Nú er þessi fræðabrunnur ekki lengur innan seilingar og mun mörg- um þykja þar skarð fyrir skildi. Mánudaginn 7. apríl síðdegis kom Páll síðast á héraðsskjalasafnið að vitja um ljósmynd ætlaða í sagnfæði- verk hans sem nú er í umbroti. Hann hafði skamma viðdvöl, fékk afrit myndar og bað um að hún yrði send til prentsmiðjunnar. Öryggi og verk- gleði einkenndi framgöngu Páls þá og þannig mun hann lifa mér í minni. Kæra Elínborg, börn, barnabörn og aðrir aðstandendur. Innilegar samúðarkveðjur frá mér og konu minni með þeirri ósk að minningin um látinn ástvin geymist björt í hugum ykkar. Björn Pálsson. Á braut er farinn merkur maður sem gegndi mikilvægu hlutverki í endurmótun á stefnu Sláturfélags Suðurlands. Endurmótun sem skilaði félaginu úr öldudal og til sterkrar stöðu sem hefur meðal annars leitt til mikillar atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni og gert Sláturfélagið að stærsta atvinnuveitanda á Suður- landi. Páll vann málum fylgi með samtöl- um og rökræðum en var fastur fyrir ef á þurfti að halda. Hann átti auðvelt með að setja aðstæður í sögulegt samhengi og finna leiðir sem sköpuðu samstöðu um erfið mál. Í formannstíð Páls þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir sem hann leiddi til sátta með trú á framtíð sem myndi sýna þessa stefnu rétta. Páll hafði lag á að hlusta og laða fram það sem skipti máli í samskipt- um við fólk. Margir leituðu til hans með ábendingar um það sem betur mætti fara og gilti það bæði um starfsfólk og bændur. Eftir yfirvegun og skoðun kom Páll þessum atriðum á framfæri með ábendingum um hvern- ig sætta mætti sjónarmið. Menn eins og Páll deyja ekki held- ur skilja eftir sig sterkar minningar og hverfa til mikilvægra starfa á betri stað. Fyrir hönd Sláturfélagsins og starfsfólks þakka ég forystu Páls og afburðagóð kynni og sendi eiginkonu og aðstandendum samúðarkveðjur. Steinþór Skúlason. Oft hefur íslenska þjóðin mátt reyna hve torsótt hefur reynst að stunda slysalaust atvinnuvegi þjóðar- innar, vegna erfiðs tíðarfars og áhættusamlegra samgangna. Þrátt fyrir miklar tilraunir til að bæta sam- göngur og draga úr slysahættu, þá er þessi vandi enn yfirþyrmandi og óvið- unandi. Eitt þessara sársaukafullu slysa varð hér á Eyrarbakkaveginum, mánudaginn 7. apríl, þegar tveir bílar rákust á með þeim afleiðingum, að annar bílstjórinn beið bana. Það var bóndinn og fræðimaðurinn Páll Lýðs- son í Litlu-Sandvík í Flóa. Þetta slys var mikið áfall fyrir marga hér um slóðir, þar sem Páll var einstakur að leysa margra manna vanda og mjög virkur í menningarlífi héraðsins. Páll átti eins og flestir ungir menn mikla drauma um glæsilega framtíð. En það sem einkenndi Pál umfram marga menntamenn samtímans var hinn lifandi áhugi hans á starfi bónd- ans og framförum í landbúnaði. Páll hafði allt frá æskuárum skapað sér það álit og traust, að honum voru jafnan falin fjölbreytt ábyrgðarstörf í þágu bænda, en það mátti ekki fjar- lægja hann frá ættaróðalinu Litlu- Sandvík. Páll unni jörðinni sinni, sveitinni og fólkinu sem byggði þessa stóru grasigrónu stórsléttu sem nefn- ist einu nafni Flói og er eitt kosta- mesta hérað landsins. Í Litlu-Sandvík hefur um alllangt skeið verið glæsi- legt höfðingjasetur sem byggist á miklum landkostum jarðarinnar og hlunnindum við laxveiði sem hafa tryggt mikla og góða afkomu ábú- enda í Litlu-Sandvík. Heyrt hef ég frásagnir um þriggja sólarhringa brúðkaupsveislu sem þótti hæfilegt kveðjuhóf glæsilegrar brúðar. Við Páll Lýðsson höfum átt mjög langt og gott samstarf. Páll var mik- ilhæfur maður, vinmargur og hafði yfir mörgum að segja, rak stórt bú með fjölskyldu sinni og stóð í margs- konar bókaútgáfu í sambandi við sagnfræðirannsóknir sínar. Þá var Páll vakandi áhugamaður og mjög virkur í menningarlífi héraðsins og barðist fyrir nýungum. Við kveðjustund héraðshöfðingj- ans í Sandvík heiti ég á sunnlenska bændur að hefja nýja sókn til að efla hlut íslenska bóndans og gera fram- tíð hans bjartari en hún er nú. Kæra Elínborg og niðjar Páls Lýðssonar, ég vil votta ykkur og öll- um aðstandendum mína innilegustu samúð og færa innilegar þakkir fyrir hin merku störf Páls Lýðssonar. Hjalti Gestsson. Á snöggu augabragði og fyrirvara- laust hvarf Páll frá okkur. Mikil til- hlökkun og vaxandi eftirvænting var tengd þeim ritstörfum sem framund- an voru hjá sagnfræðingnum og fræðimanninum. Bókin var í senn há- skóli og starfsferill hjá Páli. Ritun hans og fræðistörf verða kjöreign okkar og sjóður framtíðar. Sterk samsvörun var í ræktunarstarfi bóndans og sagnfræðingsins, bónd- ans að yrkja jörðina og annast arð- saman bústofn en sagnfræðingsins að gæta og ávaxta sagnaarfleifð kyn- slóðanna og færa hana sem gjöf til af- komenda. Hjá Páli var stórbúskapur á vettvangi ræktunar og ritstarfa. Mörg önnur störf utan heimilis ann- aðist hann. Á heimili þeirra hjóna var notalegt að koma. Veitingar og við- mót húsbænda teygðu drjúgt úr dvalartíma gesta. Tveimur verkefnum beitti hann sér fyrir, þar sem leiðir okkar lágu saman. Hann var í skólanefnd Tónlistar- skóla Árnesinga samfellt á árunum 1975 til 1995 og í skólanefnd Fjöl- brautaskóla Suðurlands 1983 til 1987. Í báðum þessum verkefnum kom fram framsýni og áhugi á við- fangsefninu en um leið skilningur og ábyrgð gagnvart sveitarstjórnum. Hlutur Páls í þessum verkum var þýðingarmikill. Hann kom inn í þau verk á viðkvæmum tímum og fylgdi þeim eftir af einurð til mikillar far- sældar. Menntabrautum lagði hann lið, lagni ávallt beitti. Því skal votta þakklætið, hann þekking djúpa veitti. Góður vinur er kvaddur. Blessuð sé minning Páls og innileg samúð til fjölskyldu hans. Hjörtur Þórarinsson. Mikið er erfitt að skrifa þessar lín- ur. Ekki er það vegna þess að erfitt sé að finna tilefnin til að þakka Páli. Þau eru ótalmörg á langri samleið: Við vorum skólabræður og vinir í bernsku og allt að stúdentsprófi á Laugarvatni um miðja síðustu öld, að samferðin tafðist um sinn. Þegar ég var kallaður til ábyrgðar í Fjöl- brautaskóla Suðurlands fyrir aldar- fjórðungi, þá urðu fagnafundir því að mér til gleði og huggunar var Páll þar fyrir í skólanefndinni, ævinlega lagði hann skólanum vel til og mér persónulega. Og svo var það Aka- demían hans Páls hér við Ölfusárbrú, sl. áratug komu saman á haustkvöld- um um tveir tugir alþýðumanna, karla og kvenna, með langa og fjöl- þætta lífsreynslu að baki, til að standa undir vinstri handarkrika Páls, að njóta skyggnigáfu hans. Hvort sem það nú var að gaumgæfa Flóamannasögu, eða Sturlungabrall í Árnesþingi, eða Kambsránsmenn, eða sunnlenska atorkumenn síðari alda, eða drauga eða tröll, þá svipti Páll af huliðsblæju að við hin mætt- um sjá. Og þótt við töluðum öll í einu þá fór hann aldrei á taugum, geð- prýði hans var einstök. Fyrir allt þetta er hér þakkað, með grát í huga, en erfiðleikarnir stafa af reiðinni yfir því að einmitt nútíma- tæknin skyldi hafa hrifið Pál frá okk- ur, þar sem hann stóð í blóma lífsins. Það er ekki eins og verið sé að kveðja gamalmenni sem þurfti að fá hvíldina löngu, Páll átti svo margt eftir ógert, sér og okkur öllum hinum til skemmtunar og upplýsingar, nú þeg- ar bústörfum var aðeins af honum létt. En afköst hans í fræðunum, með- an bóndastarfið krafðist hans án und- anláts, voru slík, að líkt var því að hann gæfi af sér bók eða ritgerð jafn- an þegar kýr hjá honum bar. Þarf langt að leita til að finna jafndæmi. Hlýjar samúðarkveðjur sendum við Elínborgu og börnunum. En: hvar finn ég nýjan handarkrika? Þór Vigfússon. Fyrstu kynni mín af Páli Lýðssyni voru fyrir 35 árum þegar hann kenndi sögu í landsprófi á Selfossi. Við kenn- arapúltið sat bóndinn og fræðimað- urinn frá Litlu-Sandvík og fræddi okkur lipurlega um helstu atburði mannkynssögunnar. Seinna kynntist ég Páli gegnum störf mín hjá Búnaðarsambandinu. Þegar ég bað hann um auglýsingu frá Sláturfélagi Suðurlands á bakhlið ársritsins var svarið stutt og laggott. Já, ég hef heimild fyrir tveimur aug- lýsingum á ári. Engar málalengingar, ekki spurt um verð, málið afgreitt. Páll hefur verið gjaldkeri Rjóma- búsins Baugsstöðum frá því að safnið var opnað. Ég hef starfað með honum í stjórn ásamt Helga Ívarssyni um árabil og haft mikla ánægju af. Að hlusta á þá félaga ræða um liðna tíð, menn og málefni var ógleymanlegt. Þeir félagar rituðu síðan sögu Rjóma- búsins í tilefni af 100 ára afmæli þess árið 2005. Lítið rit en snoturt. Fyrir fimmtíu árum kom Páll að ritun á sögu Búnaðarsambandsins í tilefni af fimmtíu ára afmæli þess 1958. Hann skrifaði tvo meginkafla bókarinnar: Sögu Búnaðarsambands- ins og um búnaðarfélagsskapinn í héraðinu. Páll var þá að ljúka sagn- fræðinámi frá Háskóla Íslands og sagði hann mér fyrir nokkrum dögum að kennarar hans hefðu sagt forystu- mönnum Búnaðarsambandsins að engu þyrfti að kvíða ef þeir fengju strákinn til verksins. Þegar kom að útgáfu Sunnlenskra byggða í tilefni af 70 ára afmæli Bún- aðarsambandsins leitaði útgáfu- nefndin til Páls sem aðstoðaði við prófarkalestur, prentun og útgáfu. Páll sá auk þess um ábúendatal og sveitalýsingu fyrir Sandvíkurhrepp. Fyrir nokkrum árum leitaði stjórn Búnaðarsambandsins til Páls vegna útgáfu á sögu Búnaðarsambandsins í tilefni af 100 ára afmæli þess árið 2008. Páll tók verkið að sér og hófst þegar handa með krafti sínum og dugnaði. Fyrirhugað var að ritið kæmi út nú í júní. Verkinu miðaði vel og var það á undan áætlun. Því miður setur hið sviplega og ótímabæra frá- fall Páls strik í reikninginn. Verkinu var ekki lokið en góðar líkur eru á að Lýður Pálsson sem verið hefur hægri hönd föður síns við ritið muni taka við þar sem frá var horfið. Á formannafundi Búnaðarsam- bandsins í janúar sl. var Páll Lýðsson gerður að heiðursfélaga fyrir störf sín að félagsmálum og ritstörfum fyrir sunnlenska bændur og læt ég hér með fylgja lokaorðin við þá veitingu því Páli líkaði þau vel. „Páll er afkastamaður og gengur rösklega um og til verka. Hann svífur oft inn á skrifstofuna mína til að hitta mig og gildir þá einu hvort það er maður hjá mér eða ég í símanum. Er- indið kemur svo í einni til tveimur setningum og svo sé ég undir iljarnar á honum. Hann hefur fá orð um mik- ið.“ Að endingu vil ég fyrir hönd Bún- aðarsambands Suðurlands votta eig- inkonu og fjölskyldu Páls dýpstu samúð okkar. Sveinn Sigurmundsson. Páll Lýðsson var stofnfélagi í Sögu- félagi Árnesinga. Frá byrjun var hann atkvæðamikill innan félagsins og lét sér ávallt annt um viðgang þess. Hann sótti flesta fundi þess, hélt áhugaverð og fræðandi erindi og átti ævinlega skemmtilegt innlegg í um- ræðuna. Frásögn Páls af réttardans- leik í Brautarholti 1955, á fræðslu- fundi félagsins í febrúar síðastliðnum er ógleymanleg þeim sem heyrðu. Það var eftir því tekið hve vel Páli tókst að benda á nýja fleti á viðfangs- efnum fundanna sem þörfnuðust frekari rannsókna og hann var óþreytandi við að hvetja áhugasama um að leggja sitt af mörkum sunn- lenskum fræðum til framdráttar. Páll var heiðursfélagi í Sögufélagi Árnes- inga. Árnesingur er rit sem Sögufélag Árnesinga gefur út. Í því birtust fjöl- margar greinar eftir Pál auk þess sem eftir hann liggja viðameiri sagn- fræðirit, s.s. um félagasamtök og fyr- irtæki bændanna. Þekking Páls á sögu Árnesþings var einstök. Áhugi hans á fólki var sannur og ættfræði í hávegum höfð. Hann hafði tekið sam- an ábúendatal Árnessýslu frá árinu 1703 og fram á okkar daga ásamt Halldóri Gestssyni úr Hrunamanna- hreppi. Skráning og kortlagning ör- nefna var einnig Páli hugleikin. Sjálf- ur sat ég eina kvöldstund nú í janúar með Páli og bændum í Laugardælum í Flóahreppi þar sem við fórum yfir örnefnaskrár og kortlögðum örnefni á loftmyndum. Páll var óþreytandi við að safna heimildum um sögu sýslunnar og var safn hans víðfrægt. Að sama skapi var hann einstaklega bóngóður við þá sem leituðu upplýsinga í viskubrunn hans. Við í stjórn Sögufélags Árnes- inga leituðum ósjaldan fróðleiks í smiðju Páls og undantekningalaust tók hann okkur vel, svaraði strax eða var rokinn heim til að fletta upp í heimildum. Það virtist vera Páli jafn mikið kappsmál að komast að því hvert svarið væri og þeim sem þurfti á svarinu að halda. Páll var ekki bara sagnfræðingur, hann var líka sagnamaður sem miðl- aði af þekkingu sinni á lifandi hátt bæði í ræðu og riti, sem vinsæl nám- skeið hans hjá Fræðsluneti Suður- lands undanfarin ár vitna um. Sögu- félag Árnesinga þakkar Páli Lýðssyni samfylgdina á liðnum árum. Fráfall hans er öllum sem unna sunnlenskum fræðum mikið áfall. Fyrir hönd Sögufélags Árnesinga votta ég fjölskyldu Páls mína dýpstu samúð. Þorsteinn Tryggvi Másson formaður. Þegar Páll Lýðsson hóf búskap í Litlu-Sandvík, ungur maður, hefur sjálfsagt sumum þótt nokkuð ein- kennilegt að háskólagenginn maður- inn skyldi velja sér þetta ævistarf. Fljótlega kom þó í ljós að auk bú- starfanna voru ærin verkefni á heimaslóðum fyrir hinn áhugasama sagnfræðing. Alla sína tíð var Páll óþreytandi að skrá sögu héraðsins og bændanna og naut þá þess að vera bæði þátttakandi í atburðunum og skrásetjari. Það má segja að með ólíkindum sé hversu mikið Páll lætur eftir sig af ritverk- um. Hann ritstýrði byggðasögunni „Sunnlenskar byggðir“ sem er margra binda verk og unnin fyrir daga tölvuvæðingar. Páll vann ótal af- mælisrit félaga á Suðurlandi og ritaði á svo lipran og læsilegan hátt að unun var að lesa. Páll var ætíð afkastamikill félags- málamaður og valinn til forustu enda þekkti hann vel til mála og ræðumað- ur var hann með afbrigðum góður. Hann var oddviti okkar í Sandvík- urhreppnum frá árinu 1970 þar til hreppurinn gekk inn í Sveitarfélagið Árborg. Það er margs að minnast frá þessum árum þegar blandaður bú- skapur var stundaður á öllum bæjum í hreppnum og samfélag bændanna var líkast því sem nú er að finna í þriðja heiminum. Samheldni og sam- félagskennd bætti reyndar upp frum- stæðar aðstæður og fábreyttan lífs- stíl. En það var hugur í mönnum. Það var lögð vatnsveita í bæina sem leysti af fúla heimilisbrunna og þegar hita- veita var lögð frá Selfossi niður á Eyrar var stofnuð Hitaveita Sandvík- urhrepps og heitt vatn lagt í þá bæi þar sem því var við komið. Stjórnsýsl- an var einföld en skilvirk. Hrepps- nefndarfundirnir voru haldnir í stof- unni hjá Páli. Þarna var dundað við að leggja á útsvör og fjallskil og fast- eignaskattar reiknaðir á vasatölvur. Allt gekk þetta vel þótt puttar okkar hreppsnefndarmanna væru kannski vanari kýrspenum og heykvíslum. Síðan voru álagningarseðlarnir hand- skrifaðir og sendir á bæina. Síðar komu svo menn til Páls og gerðu upp skuldir sínar við hreppinn en Páll færði öll viðskipti í höfuðbókina með sinni sérkennilegu skrift sem vísast á Páll Lýðsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.