Náttúrufræðingurinn - 2007, Blaðsíða 66
Náttúrufræðingurinn
8. mynd. Öflugur náttsjónauki meö þak-
prismum, Zeiss Victory B T* MT 8x56,
„oröinn vinsæll hjá tófunæturveiðimönn-
um" að sögn íslensks seljanda.
Á nokkrum sjónaukum er skerp-
an stillt fyrir hvort auga fyrir sig
með því að snúa kvörðuðum stilli-
hólkum á báðum augnglerjum, sem
færa þau út eða inn. Þetta er ekki til
trafala ef kíkinum er aðeins beint að
fjarlægum hlutum, svo sem á sigl-
ingu eða við stjörnuskoðun, auk
þess sem slíkur kíkir er jafnan
vatnsþéttur án frekari þéttibúnaðar.
Einnig þarf að stilla sjónaukann
fyrir fjarlægðina á milli augna at-
hugandans með því að fella sjón-
pípurnar sundur eða saman um
hjarir á miðás tækisins þar til
myndirnar úr sjónpípum kíkisins
falla saman. Á mörgum kíkjum má
lesa þessa stillingu - í millímetrum
- af kvarða á milli augnglerjanna.
Myndgæði og frágangur
Hvað sem líður stækkun og ljós-
styrk eru sjónaukar mjög misdýrir
og sem fyrr segir fær kaupandinn
oftast það sem hann borgar fyrir.
Ákafur veiðimaður eða fuglaskoð-
ari, ellegar yfirmaður á varðskipi, er
líklegur til að gera meiri kröfur til
sjónauka en maður sem aðeins
bregður kíkinum upp nokkrum
sinnum í sunnudagsbíltúrnum.
Fyrst ber að nefna myndgæðin.
Mest ber á ýmsum villum í einföld-
um (ósamsettum) linsum eða illa
unnum linsukerfum. Beinar línur
virðast oft sveigðar, einkum við
jaðra myndflatarins og er talað um
„koddabjögun" eða „tunnubjögun"
eftir því hvort hliðarnar í ferhyrn-
ingi virðast svigna inn eða út á við.
Eins ber á því að láréttar og lóðrétt-
ar línur fást ekki skarpar samtímis
(sbr. sjónskekkju í mannsauga),
skerpa í jöðrum og miðju myndar
fer ekki heldur alltaf saman eða
punktar birtast með hala líkt og á
halastjörnu.
Við þetta bætast litvillur. Einfalt
safn- eða dreifigler brýtur Ijós mis-
mikið eftir bylgjulengd, rétt eins og
prisma, þannig að rendur eða skörp
birtuskil á fyrirmynd birtast sem lit-
róf. Þetta er leiðrétt með samsettum
safn- og dreifilinsum. Þokkalega lit-
leiðrétt linsukerfi kallast „akrómat-
ísk" en hin vönduðustu (og dýr-
ustu) teljast „apókrómatísk".
Ekki er hér allt talið, en að lokum
skal nefnd skerpa eða greiningarhæfni
kerfisins, sem er því meiri sem tveir
punktar komast nær hvor öðrum
áður en mynd þeirra rennur saman
í einn. Skerpan er gefin upp sem
sjónarhornið á milli punktanna og
hún eykst að öðru jöfnu (hornið
verður þrengra) með aukinni
stækkun.
Ekkert linsukerfi skilar full-
kominni mynd. En með rétt sam-
settum fræðilega reiknuðum kerf-
um af vandlega slípuðum safn- og
dreifiglerjum úr efni með mismun-
andi brothlutfalli er hægt að halda
villunum í lágmarki; einnig er dreg-
ið úr ljóstapi og glýju frá endurkasti
á mótum lofts og linsu- eða pris-
maflata með því að húða fletina
sérlegum efnum. í bestu nútíma-
sjónaukum með fjölhúðuðum glerj-
um komast allt að 95% ljóssins að
augum athugandans. Áður en húð-
un var tekin upp, sem var upp úr
1940, var ljóstapið um eða yfir 50%.
Góður sjónauki þarf að þola
hnjask. Minnsta hnikun á linsu eða
prisma veldur bjagaðri eða tvö-
faldri mynd. Samt þarf handkíkir
helst að vera léttur og fara vel í
hendi og auðvelt að koma fingrum
að öllum stillihnúðum. Sjónauki
sem notaður er í votviðri eða ágjöf
verður að vera vatnsþéttur og sum-
ir eru klæddir gúmlagi til varnar
höggum, seltu og raka. Auk þess
deyfir þannig lag skrjáf og þrusk frá
kíkinum þegar hann rekst í hluti,
eða svo er sagt í auglýsingum til að
gylla þessi tæki fyrir veiðimönnum.
Margir vandaðir handsjónaukar
eru fylltir óvirku niturlofti (köfnun-
arefni), sem kemur í veg fyrir að
raki þéttist á linsum og prismum
við snögg hitaskipti. Á tímum þeg-
ar myndavélar þykja sjálfsagður
hluti af farsímum þarf engan að
undra að í boði eru sjónaukar með
stafrænni myndavél. Enn hef ég
ekki frétt af sjónauka í farsíma.
UM HÖFUNDINN
Ömólfur Thorlacius (f.
1931) lauk fil.kand.-prófi
í líffræði og efnafræði frá
Háskólanum í Lundi í
Svíþjóð 1958. Hann var
kennari við Menntaskól-
ann í Reykjavík 1960
-1967, Menntaskólann
við Hamrahlíð 1967-
1980 og rektor þess skóla
1980-1995. Samhliða
kennslustörfum hefur
ömólfur samið kennslu-
bækur og hann hafði um árabil umsjón með
fræðsluþáttum um náttúmfræði í útvarpi og
sjónvarpi. Hann var um skeið ritstjóri Náttúru-
fræðingsins.
PÓST- OG NETFANG
HÖFUNDAR
Ömólfur Thorlacius
oth@intemet.is
Hringbraut 50
107 Reykjavík
134