Samvinnan - 01.10.1968, Page 12

Samvinnan - 01.10.1968, Page 12
Áfengismálin eru meðal þeirra efna sem mest hafa verið rædd á íslandi og verða vísast enn um langan aldur óþrjótandi umræðuefni. Um það þarf engum blöðum að fletta, að áfengisneyzla hefur orðið fjölmörgum ís- lendingum skaðvaldur og lagt í rúst heill og hamingju fleiri einstaklinga og fjölskyldna en menn almennt kæra sig um að viðurkenna. Hitt er aftur álitamál, hvort kenna beri sjálfu áfenginu um þetta böl eða hvort eitthvað sé bogið við sálarlíf íslenzku þjóðarinnar. Svo mikið er víst, að bannlögin frægu urðu ekki til að leysa vandann, og virðist einsætt að grafast verði fyrir rætur meinsins með einhverjum öðrum ráðum, til dæmis betra uppeldi og heilbrigðara almenningsáliti, sem fordæmi mis- notkun áfengis, áberandi ölvun á almannafæri og afbrot framin í ölæði. Áfengisvandamálið virðist af einhverjum ástæðum einkum gera vart við sig á norðlægari breiddargráðum hnattarins, á Norðurlöndum, í Norður- Ameríku og Rússlandi, og má vera að loftslag eigi einhvern þátt í því og hinir Iöngu vetur sem hafa tilhneigingu til að þrúga sálina. En or- sakanna er vafalaust víðar að leita og þá ekki sízt í því stressi sem nútímalíf leggur á einstaklinginn í tæknivæddum þjóðfélögum. Samvinnan hefur beðið þrjá sérfróða menn, tvo lækna og sálfræðing, að leggja orð í belg um áfengismál á íslandi, og einnig tvo leikmenn, erlenda og innlenda konu. Sjónarmið þeirra allra eru fyllstu athygli verð, þó varla séu öll kurl komin til grafar í þessum fimm greinum. Svosem til uppfyllingar langar mig til að vitna í orð Halldórs Laxness í íslendinga- spjalli, en þar er kafli sem ber heitið „Íslendíngar þjást af sjúkdómi sem er verri en húngursneyð". Þar segir nóbelsskáldið meðal annars: „Ónormalt heilsuleysi er varla til á Islandi nú á dögum, nema drykkjuæði; aðrir sjúkdómar eru verstir fyrir þá sem hafa þá, og ekki alment þjóðarböl; enfin, úr einhverju verða menn að hrökkva uþþaf. Þetta dagfarsprúða fólk sem unaðsamlegt er að samneyta algáðu, býr við slíka þjökun af þessu meini, að varla er sú fjölskylda til í landinu sem eigi ekki um sárt að binda út af því; stundum með fullkomnu nið- urbroti heilla ættmennahópa. Og vankunnátta í meðferð alkóhóls er talin bein orsök flestra glæpa sem framdir eru í landinu og máli skifta. Læknar hafa sagt mér að við þessu allsherjarmeini íslendínga sé samt einginn brúklegur læknir á íslandi, þaðanafsíður sérfræðingur í því; og heilbrigðisstjórnin hlær að þeirri uppástúngu að sjúkdómurinn verði rannsakaður vísindalega í von um að komist verði fyrir hann, sem þó hefur verið gert við aðra íslenska þjóðarsjúkdóma einsog sullaveiki holdsveiki og berklaveiki: fyrst voru þeir rannsakaðir, síðan útrýmt. Drykkjuæði er þeim mun erfiðara viðfángs en aðrir sjúkdómar að það er snertur af sjálfsmorði, eða réttara sagt útrás sjálfsmorðsfýsnar, og þar- afleiðandi háð vilja einstaklíngsins, þarsem þrjá hina fyrrnefndu þjóðar- sjúkdóma feingu menn óforvarandis og án sjálfskaparvíta........... Um tvö skáld á nítjándu öld er oft látið í veðri vaka að þau hafi orðið húngurmorða í Reykjavík, Brynjólfur Kúld og Sigurður Breiðfjörð, en það kvað vera hægt að sanna að báðir hafi dáið úr alkóhólisma. Ljúflíngur íslenskrar þjóðarsálar, skáldið Jónas Hallgrímsson, dó einnig úr afleiðíngum alkóhólisma í Kaupmannahöfn: fótbrotnaði í ölvímu og hljóp ilt í brotið. Áfeingisnotkun á íslandi er reyndar samkvæmt alþjóðlegum vísitölum einhver hin lægsta í Evrópu miðað við almenna neyslu. Hinsvegar bera íslendíngar áfeingi allra manna verst, þá skortir ,,þrek“, eða kanski aðeins almenna mannasiði til áfeingisneyslu á við verulegar drykkju- þjóðir, og verða miður sín til líkams og sálar af tiltölulega litlum skammti þessa væga eiturs. I Reykjavík sjást til dæmis fleiri menn drykkjubrjál- aðir á almannafæri en í mestum vínborgum álfunnar, en í slíkum borg- um er hægt að eiga heima ævilángt án þess að sjá nokkru sinni drukkinn mann. Rólegir three bottle men sem hvorki dettur af né drýpur, einsog hjá einglendíngum, væru óhugsandi á íslandi. Sumir halda að alkóhólismi íslendínga sé einhverskonar líffræðileg eða sálfræðileg andmæli gegn því gegndarlausa mjólkurþambi, meira en [ nokkru öðru landi, sem viðgeingst á íslandi nú á dögum. Rétt er það, ( Frakklandi er „buveur de lait“ skammaryrði sem menn eiga vígt um einsog „mjólki þinn“ var á íslandi til forna; þó er athyglisvert að vísitala sýnir að frakkar upp og ofan, sem aldrei sjá mjólk eftir að þeir koma af brjósti, drekka árlega átta sinnum meira áfeingismagn en islendíngar, þannig að ef íslendíngur fær sér eitt staup af brennivíni drekkur fransmaður átta á sama tíma. Ef fslendíngar neyttu áfeingis í líkingu við frakka, mundi íslenska þjóðin líða undir lok í einni kynslóð." „Þrekleysið" sem Halldór Laxness minnist á og byggir á vafasömum vísitöluútreikningi er áreiðanlega ekki í því fólgið að hver íslendingur þoli minna áfengismagn en hver Frakki (vínneyzla er einungis miklu almennari í Frakklandi en á íslandi), heldur er hér um að ræða sálrænt og siðferðilegt þrekleysi. íslendingar hafa hvorki þann sálarstyrk né sjálfsaga sem geri þeim fært að umgangast áfengi með eðlilegum hætti. Má vera að bannhelgin og pukrið eigi einhvern þátt í þessari sálrænu veilu. Svo mikið er víst, að vandinn verður ekki leystur til frambúðar með forboðum, heldur með því að taka áfengismálin á Islandi nýjum tökum, vinna að enduruppeldi þjóðarinnar á öllum sviðum. Áfengisbölið er að mínu viti aðeins einn angi þeirrar spillingar sem gagnsýrir þjóð- félagið í heild og birtist meðal annars í því að bindindissamtökin hafa beinan fjárhagslegan hagnað af áfengissölu ríkisins. s-a-m.

x

Samvinnan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.