Samvinnan - 01.10.1968, Side 35
ÞORGEIR ÞORGEIRSSON:
UM MIROSLAV HOLUB
MIROSLAV HOLUB er fæddur árið
1923 í borginni Pilzen í Tékkóslóvakíu. Á
síðari árum hefur hann gefið út fjöl-
margar ljóðabækur sem selst hafa upp á
augabragði í óvanalega stóru upplagi.
Hann kveður nýstárlega og er talinn
brautryðjandi í nútíma ljóðagerð
tékkneskri. Ýmsir telja hann með at-
hyglisverðustu ljóðskáldum sem nú lifa
og starfa í Evrópu.
Margir furða sig á þeirri staðreynd, að
jafnframt þessu er Holub einn fremsti
vísindamaður lands síns. Enda var nafn
hans til skamms tíma þekktara í alþjóð-
legum læknavísindum en meðal ljóða-
grúskara utan landamæra Tékkóslóvakíu.
Penguin-útgáfa af ljóðum hans á ensku
í fyrra hefur kanske breytt þessu. í
Bandaríkjunum hefur hann tvívegis
dvalið um skeið við ónæmisrannsóknir
og um ferðir sínar þangað hefur hann
ritað fádæma skemmtilega ferðabók:
„Engill á hjólum“. Auk þessa hefur Holub
um árabil ritstýrt alþýðlegu vísindariti:
„Vesmír“ (Alheimurinn).
Um samkomulag vísindamannsins og
skáldsins í sér segir Holub meðal ann-
ars:
„Það er ekkert óbrúanlegt bil á milli
vísindalegrar hugsunar og listrænnar
hugsunar; hvorttveggja krefst sköpunar
ög frelsis. Vísindin eru í senn kerfi og
tilraunastarf. List er samfellt tilrauna-
starf.“
Hann hefur einnig sagt:
„List hlýtur að vera afrakstur af heil-
steyptum persónuleika, sem lætur sig
varða alla þá þekkingu, sem gagnleg
má verða fyrir venjulegan nútimaþegn.
Hjátrúarfull útilokun vísindastarfs frá
heimili lista og bókmennta verður ekki
til að örva skapandi hugsun, hún örvar
ekkert nema gamlar kreddur og úrelta
afstöðu, sem gerist æ ráðvilltari gagnvart
þeim heimi, sem við nú lifum í.“
Út af þessum orðum Holubs leggur A.
Alvarez í niðurlagsorðum formála síns
að fyrrnefndri Penguin-útgáfu. Hann
segir:
„Þessi ummæli finnast mér afgreiða
mikið af því þrugli, sem tröllríður um-
ræðum manna um nútímalist, þrugli um
verðmæti arfleifðarinnar gagnvart
ástandinu í dag. Þegar til að mynda
Leavisitar slá föstu algjöru sambands-
rofi milli hins almenna samfélags og
minnihlutamenningarinnar, eða þegar
bandarískir exístensíalistar hamra á
hliðstæðri og algjörri „firringu" lista-
mannsins gagnvart hinu tæknivædda
neyzlusamfélagi, þá eru þessir aðilar að
segja hálfan sannleika, en fyrir þetta
afneita þeir hverjum jákvæðum vonar-
neista, sem greina má í þessum iðn-
vædda og rafvædda heimi. Báðir þess-
ir hópar eru á vissan hátt að vísa frá sér
því sem áunnist hefur vegna eftirsjár
eftir því sem glataðist. Vafalaust hafa
verðmætir hlutir farið forgörðum, vafa-
laust hafði traust og sjálfu sér nægt
samfélag áranna fyrir iðnbyltinguna
upp á að bjóða styrk og öryggi, sem
hvergi er að finna í samfélagi okkar í
dag, en þetta var allt horfið árið 1918
ef ekki löngu fyrr. Kanske er rétt og
fagurt að gráta þessi glötuðu verðmæti,
en það er hreinasta íhaldsdraumsýn að
afneita því sem komið hefur í staðinn.
Þar fyrir utan er það nokkuð erfitt til
lengdar að sakna þess sem menn aldrei
hafa átt.
í slíka freistni hefur Holub aldrei
fallið. Þvert á móti sækir hann styrk
sinn í einbeitta, íhugula þátttöku í
veruleikanum umhverfis sig, neitar bæði
að útiloka hlutina og að lofsyngja þá
fyrir það eitt að vera til. Kveðskapur
hans er byggður á væmnislausri, tor-
trygginni, einlægri og ögn kíminni til-
finningu fyrir nútímanum. Eins og hann
segir í „Undirrót hlutanna":
Skáldskapur er í öllu. Það
er meginröksemdin
gegn skáldskap."
Áður hafa birzt á íslenzku ljóð eftir
Holub bæði í Birtingi og Timariti Máls
og menningar auk þess sem Ríkisútvarpið
hefur tvívegis flutt ljóð hans.
Bækur eftir Miroslav Holub.
1956 Birti kvæði í tímaritinu Kvéten
(Mai)
1958 Á dagvakt (kvæðabók)
1960 Akkilles og skjaldbakan (kvæðabók)
1961 Stafrófskver (kvæðabók)
1962 Farðu og opnaðu dyrnar (kvæða-
bók)
1963 Alveg skipulagslaus dýrafræði
(kvæðabók)
Þangað flýtur blóðið (myndskreytt
kvæði um sjúkrahús)
Engill á hjólum (ferðabók, hlaut
verðlaun útgáfufélags tékkneska
rithöfundasambandsins)
Svokallað hjarta (kvæðabók)
1964 Safn úrvalsljóða (Anamnesa)
1965 Þrjú skref á jörðu (atburðir og
hugrenningar á slóðum vísindanna)
35