Andvari - 01.01.1997, Qupperneq 21
ANDVARI
JÓN HELGASON
19
starfa við handritasafnið. Þessi sjóður var svo ríflegur að allt fram á
daga Sigurðar Nordals gátu þeir sem fengu styrkinn lifað þokkalegu
lífi af honum einum. En safnið sjálft varð um tvö hundruð ára skeið
eitt höfuðvígi íslenskrar menningar, ekki einungis athvarf margra
ágætra manna sem vildu stunda íslensk fræði, heldur hafa þeir einnig
haft framfæri af vinnu sinni við safnið og útgáfur á vegum sjóðsins,
sem gerði þeim kleift að vinna landi sínu og þjóð það gagn sem ekki
varð unnið annars staðar en í Kaupmannahöfn.
Arni Magnússon var með afbrigðum glöggskyggn og athugull vís-
indamaður, að mörgu leyti langt á undan sínum tíma. Því miður
brann það sem hann hafði tekið saman um lærða menn á íslandi, rit
sem manni skilst að hafi verið drög að menningarsögu íslendinga, en
margt er þó varðveitt af minnisseðlum hans og athugunum sem
fræðimönnum er hollara að taka tillit til og athuga hvað hann hefur
haft til málanna að leggja. Hann lifði ekki svo lengi að hann gæti
neitt að ráði mótað fræðastörf í safni sínu, en samt sem áður er eins
og andi hans og viðhorf til fræðanna hafi lifað fram á þennan dag
með safni hans, að vísu misjafnlega góðu lífi. í Árnasafni hafa starf-
að sumir þeir menn sem þarfastir hafa verið íslenskri menningu: Jón
Olafsson frá Grunnavík, Eggert Ólafsson, Grímur Thorkelín, Finnur
Magnússon, Konráð Gíslason, Guðbrandur Vigfússon, Jón forseti
Sigurðsson, Finnur Jónsson, auk margra annarra sem hafa unnið þar
um lengri eða skemmri tíma við uppskriftir handrita og önnur fræð-
astörf. Allir þessir menn, ásamt fræðimönnum frá Norðurlöndum og
víðar að úr Evrópu, til dæmis að taka Norðmennirnir Carl Richard
Unger (1817-1897) og Gustav Storm (1845-1903), höfðu gert Árna-
safn að mikils metinni stofnun með þann orðstír að ekki var heiglum
hent að setjast þar í húsbóndasæti og ávaxta arfinn.
Þegar Jón Helgason tók við forstöðu Árnasafns hafði það verið í
vörslu Háskólabókasafns í tæp tvö hundruð ár, lengst af í þröngum
og misjafnt hollum húsakynnum, þar sem lítið var um þægindi. Áður
hafði safnið lengst af verið í umsjá ritara Árnanefndar, en sérstakan
bókavörð fékk það ekki fyrr en Kristian Kálund (1844-1919) var ráð-
mn í þá stöðu 1883, og þeirri stöðu gegndi hann til dauðadags, 4. júlí
1919. Kálund samdi skrá yfir öll handrit Árnasafns, svo og yfir íslensk
°g norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, en auk þess
var hann mikilvirkur og vandaður útgefandi, líklega kunnastur fyrir
vísindalega útgáfu sína á Sturlungu. Þann tíma sem þeir unnu báðir