Andvari - 01.01.1997, Page 22
20
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
ANDVARI
við Árnasafn, Kristian Kálund og Finnur Jónsson, má segja að hver
útgáfan hafi rekið aðra, útgáfur sem hingað til hafa flestar verið látn-
ar duga sem undirstaða undir frekari textarannsóknum, ómetanleg
afrek mikilla iðjumanna, enda þótt sums staðar hefði mátt gera betur.
Við þessum arfi og þessum starfsanda tók Jón Helgason þegar
hann í bókstaflegum skilningi settist í stól Kristians Kálunds, sem
bæði var gamall og traustur, en helsta hjálpartækið var gömul ritvél
sem hann greip stundum til og sýndi síðar sem ritvél Árna Magn-
ússonar eftir að íslendingar á ferð í Kaupmannahöfn fóru að leggja
leið sína í safnið. Og það kom brátt í ljós að hann mundi ekki verða
eftirbátur forvera sinna. Honum voru sendir stúdentar víða af lönd-
um til að vinna undir hans leiðsögn að misjafnlega skynsamlegum
verkefnum. Ég heyrði hann segja af einni slíkri sendingu:
Enskur prófessor sendi unga stúlku, nemanda sinn, til Kaup-
mannahafnar og fékk henni það verkefni að skrifa upp texta eftir
skinnbókarbroti í Árnasafni. Stúlkan kom til Jóns og hann fékk
henni skinnblöðin, dökk af óhreinindum, slitin og máð, og að mestu
ólesandi jafnvel þeim sem reynslu höfðu af handritalestri, hvað þá
óvönum unglingi. Stúlkunni fékk hann borð og sæti á lestrarsal Há-
skólabókasafns, og þar settist hún með blöðin. Góðri stundu síðar
vitjaði Jón stúlkunnar til að sjá hvernig henni gengi lesturinn. Þá
hafði hún skrifað stöku bókstafi og stundum hálf orð hingað og
þangað af skinnblaðinu, en í engu samhengi, en skýringin á þessu
verklagi kom fljótlega í ljós: Þegar stúlkan fór að rýna í þessi skinn-
blöð og sá að hún gat ekki lesið eitt einasta orð fór hún vitanlega að
gráta. Tárin féllu á skinnið, og viti menn! Þar sem tárin féllu komu í
ljós fáeinir stafir, en allt það sem varð læsilegt undir táraflóðinu
skrifaði stúlkan upp. Þetta nefndi Jón stundum sem eina af þeim að-
ferðum sem hægt væri að grípa til þegar reynt væri að ráða fram úr
því sem illa gekk að lesa. Aðferðin dugir þó líklega betur konum en
körlum ef því skal trúað sem segir í latneskum málshætti: ‘Canes,
dum volunt, mingunt, mulier, dum vult, flet.’3