Andvari - 01.01.1997, Síða 30
28
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
ANDVARI
stakan kafla um ‘dönskuborið orðfæri’. Þar gerir hann á þessa leið
grein fyrir sjónarmiði sínu:
Þá er að snúa sér að dönskuslettunum.
Áður en út í þá sálma er farið virðist mér rétt að gera örstutta grein fyrir
sjónarmiði mínu. Ég tel mig ekki málhreinsunarmann í venjulegum skilningi
þessa orðs. Nýyrðasmíð í blindri þrjózku er að mínu viti ekki aðeins óþörf,
heldur ósigurvænleg og jafnvel hættuleg. Það er ætlun mín að íslenzku rit-
máli sé hollt og nauðsynlegt að opna hlið sín fyrir mörgum orðum af er-
lendum stofni, svo framarlega sem þau fylla opin skörð í málinu og geta sam-
lagazt íslenzkum beygingum og rithætti. Slík auðgun ritmáls vors á að fara
fram eftir vandlega íhugun glöggskyggnra og málfróðra manna.
En eigi íslenzk máltilfinning að haldast óspillt, verðum við að berjast af al-
efli gegn erlendum, hingað til mest dönskum, orðum og talsháttum sem ekk-
ert erindi eiga, ekkert skarð fylla, heldur aðeins þvælast fyrir og byggja út
jafngóðum eða betri orðatiltækjum af innlendri rót sem við áttum fyrir. Ef
það lánast ekki, virðist mér sjálf heilbrigði tungunnar í voða. Sá sem hættir
að segja ‘fyrsta kastið’ eða ‘framan af’ og tekur upp ‘til að byrja með’ í stað-
inn, hefur ekkert áunnið, enga nýja hugmynd eignazt, aðeins týnt niður broti
af hinu íslenzka orðavali sínu og sljóvgað máltilfinning sína.5
En leiðbeining sem ég heyrði af munni hans sjálfs til þeirra sem rita
á íslensku var stutt og gagnorð: Það sem ekki hljómar vel þegar lesið
er hátt fer heldur ekki vel í rituðu máli. Og önnur um kommusetn-
ingu: Kommu á að setja þar sem misskilningi getur valdið ef ekki er
sett komma.
Det arnamagnœanske Institut
Eitt af því sem leiddi af kröfum íslendinga að fá íslensk handrit í
dönskum söfnum afhent til íslands var það, að Danir sáu að þeir
gátu ekki verið þekktir fyrir að hafa Árnasafn lengur í þröngum og
óhollum rangala í húsi Háskólabókasafns, fjárvana og illa fært um að
sinna því hlutverki sem því var upphaflega ætlað. Mér þykir líklegt
að kjallaragrein sem Jón Helgason skrifaði í Politiken 21. október
1950 hafi átt ólítinn þátt í að Danir, og síðar íslendingar, vöknuðu til
vitundar um að íslensku handritin væru ekki einvörðungu safngripir,
heldur einnig varðveisla margra alda menningar íslendinga og að
hluta til samnorrænnar menningar. Þessi grein Jóns birtist í íslenskri