Andvari - 01.01.1997, Qupperneq 151
ANDVARI
ÞRJÚ ÓBIRT BRÉF FRÁ STEPHANI G. STEPHANSSYNI
149
og viðtakandinn hafa þekkst ungir menn, einnig er þar minnst á Bárðar-
dalskynið. Stephan G. Stephansson fylgdi foreldrum sínum í vinnu-
mennsku í Bárðardal árið 1870, þau fóru að Mýri og Stephan að Mjóadal.
Þá var Stephan 17 ára og Jón Jónsson á Mýri 19. Þeir voru svo nágrannar
næstu þrjú ár, þótt það sé löng bæjarleið frá Mýri að Mjóadal.
Ég hef hvergi séð nokkra skýringu á því hvers vegna foreldrar Stephans
G. Stephanssonar, Guðmundur Stefánsson og Guðbjörg Hannesdóttir, réð-
ust í vinnumennsku að Mýri í Bárðardal, þegar þau gáfust upp á hokrinu í
Víðimýrarseli árið 1870. Leiðin af Vatnsskarðinu til fremstu bæja í Bárðar-
dal er enginn smáspotti. Víst var oft mikill flutningur á vinnuafli þessara
ára, einkum var það yngra fólk sem fór í fjarlæga landshluta í vinnu-
mennsku, en þau Guðmundur og Guðbjörg voru komin af léttasta skeiði
og trúlega verið slitin af basli. Enda voru það ættartengsl sem réðu ferðum
þeirra. Föðurafi Stephans, Stefán Guðmundsson, var Þingeyingur, sonur
Guðmundar Halldórssonar frá Halldórsstöðum í Bárðardal. Föðuramma
hans, Helga Guðmundsdóttir, var einnig þingeysk. Faðir hennar og langafi
Stephans var Guðmundur sonur séra Jóns Þórarinssonar, sem um skeið
þjónaði á Eyjardalsá. Og enn styttist í Bárðardalinn fyrir fólkið í Víðimýr-
arseli, því tvær alsystur Guðmundar Stefánssonar og ein hálfsystir voru
giftar konur í Bárðardal, Guðný Guðmundsdóttir var eiginkona Jóns Ingj-
aldssonar á Eyjardalsá, Sigurbjörg Guðmundsdóttir var eiginkona Jóns
Jónssonar í Mjóadal, og hálfsystir þeirra, Helga Guðmundsdóttir var eig-
inkona Kristjáns Ingjaldssonar á Mýri. Þær hálfsystur skipta þannig Víði-
mýrarselsfólkinu á milli sín, Guðmundur, Guðbjörg og dóttirin, Sigurlaug
Einara, fóru til Helgu á Mýri, sonurinn fór til Sigurbjargar í Mjóadal.
Það eru því ekki bara vináttutengsl frá unglingsárum milli bréfritarans,
Stephans G. og viðtakandans, það eru líka fjölskyldutengsl. Jón frá Mýri
var bróðursonur Kristjáns Ingjaldssonar, eiginmanns Helgu.
Fyrstu þrjú árin í Vesturheimi var Jón frá Mýri í Winnipeg og nágrenni,
en fluttist árið 1906 vestur í Saskatchewanfylki og gerðist þar bóndi nálægt
Kandahar í svokölluðum Vatnabyggðum. Þar bjó hann í sex ár en hætti svo
búskap og var hjá börnum sínum í Wynyard í Saskatchewan, lést 1934.
Jón frá Mýri var vel greindur maður, skáldmæltur og fróður, ritaði ma.
um sögu landnámsins í Vatnabyggðum í Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar,
1919, 31-81. Hann ritaði einnig æviminningar sínar, sem ekki hafa verið birt-
ar. Hann lét félagsmál landa sinna til sín taka og tók gjarnan einarða af-
stöðu, bæði í trúmálum og stjórnmálum. í æviminningum hans kemur það
fram að hann ætlaði að verða Guðmundi Stefánssyni og fjölskyldu hans
samferða til Vesturheims en komst ekki með sökum plássleysis á skipinu.
Þar segir einnig um dvöl þeirra Guðmundar og Guðbjargar á Mýri: