Fréttablaðið - 21.11.2009, Blaðsíða 24
24 21. nóvember 2009 LAUGARDAGUR
S
etustofan á Aragötu 2.
Vigdís situr í gömlum, fal-
legum hægindastól; ætt-
ardjásni úr Sauðlauksdal
við Patreksfjörð, þar sem
föðurfjölskylda hennar bjó. Í sófan-
um gegnt henni situr Páll Valsson,
höfundur nýútkominnar ævisögu
Vigdísar – kona verður forseti.
„Það er alltaf erfitt að lesa um
sjálfan sig,“ svarar Vigdís, spurð
hvernig henni líki bókin, enda
langt því frá um eintóna lofgjörð að
ræða af hálfu höfundarins. „En ég
ber svo mikla virðingu fyrir verk-
inu og sé hversu haganlega það er
skrifað. Eigum við ekki að orða það
þannig að ég láti mig hafa það.“
Það var alls ekki sjálfgefin
niðurstaða að Vigdís myndi taka
þátt í ritun ævisögu sinnar. Í for-
setatíð sinni var Vigdís þekkt fyrir
að blanda ekki einkalífi sínu saman
við hina opinberu hlið, hélt sínu
fyrir sig. En hvað kom til að hún
lét til leiðast?
„Árin líða og lífshlaupið gengur
áfram. Ég gerði mér mjög vel grein
fyrir því að þessi saga yrði skrifuð
fyrr eða síðar. Þetta var svo sögu-
legur atburður sem gerðist hérna
árið 1980. Ég segi það alltaf að ég
er svo hreykin af því að Íslending-
ar skyldu þora þetta – þetta sner-
ist ekki um mig, heldur Íslendinga
sem þorðu.
Ég vissi að til voru menn sem
voru þegar farnir að safna heim-
ildum og áttaði mig á að þessi saga
yrði að koma út áður en ég yfir-
gæfi þessa jörð. Ef þessi bók hefði
verið skrifuð eftir að mínu lífs-
hlaupi lýkur hefði hún eingöngu
byggst á óbeinum heimildum og
blaðagreinum og ég óttast að það
hefði getað endað sem kjaftasögu-
bók og slúður.
Svo er ég svo heppin að Páll var
viljugur til að taka þetta verkefni
að sér og hefur leyst það með mikl-
um sóma. Sagan er sögð eins og
hann sér hana. Mér finnst til dæmis
mjög skemmtilegt hvað hann fer
langt aftur í tímann, langt fyrir
mína tíð, eins og var gert í Íslend-
ingasögunum. Þetta er nákvæm-
lega það sem við gleymdum þegar
allt fór í vaskinn. Við gleymdum að
hugsa um tímann á undan.“
Átak að lifa lífinu tvisvar
Það var einmitt þegar allt fór í
vaskinn sem ritun bókarinnar
hófst. „Við hittumst reglulega, að
minnsta kosti einu sinni í viku,
til að fara yfir málin,“ segir Páll.
„Um svipað leyti gerðist það að
þjóðfélagið hrundi. Það var því um
nóg að tala og Vigdís hafði mikinn
áhuga á að ræða atburði líðandi
stundar. Ég var því iðulega með
smá móral yfir því að þurfa allt-
af að draga hana hálfa öld aftur í
tímann og þýfga hana um tilveruna
þá. Annars sat ég bara í mínu horni
í rannsóknum og reyndi að púsla
þessu saman; talaði við fjölda
manns og fékk aðgang að gögnum
og bréfum Vigdísar …“
„Sem ég hafði aldrei lesið …“
skýtur Vigdís inn í.
„Já, það var ansi gaman að
stundum var eins og ég væri að
færa henni ný tíðindi þegar ég var
að sýna henni hvað hún hefði eitt
sinn verið að skrifa og hugsa. Það
kom aldrei til greina af minni hálfu
að skrifa einfalda samtalsbók, held-
ur alvöru ævisögu byggða á heim-
ildum. Bókin er skrifuð í þriðju
persónu, en ég vildi líka reyna að
skapa nálægð við viðfangsefnið
og láta rödd Vigdísar koma fram
og geri það með innskotsköflum
í fyrstu persónu. Þar bregst hún
beint við tilteknum spurningum
eða atburðum. Hugmyndin var
að reyna að ná þannig jafnvægi í
frásögnina, skapa bæði fjarlægð
og nálægð við viðfangsefnið og
nýta það að Vigdís er enn meðal
okkar.“
Vigdís tekur þó fram að oft og
tíðum hafi verið erfitt að horfa til
baka.
„Það er mikið átak að lifa lífinu
tvisvar og rifja upp fortíðina því ég
dvel ekki mikið við hið liðna – ég
vil frekar horfa fram á við.“
Fullkomnunarárátta og vanmeta-
kennd
Í bókinni birtist allt önnur mynd
af Vigdísi en sjálfsagt flestir hafa
gert sér í hugarlund fram að þessu,
sérstaklega þeir sem ólust upp í
forsetatíð hennar; hugsjónin um
jafnréttið og mátt kvenna hefur
verið samofin ímynd hennar allt
frá því hún varð þjóðkjörinn for-
seti fyrst kvenna í heiminum. Það
kemur því óneitanlega á óvart að
ævisaga Vigdísar er saga konu
sem í hafa togast á fullkomunar-
árátta og vanmetakennd. Í fyrsta
lagi helgast það af uppeldi; Vigdís
hlaut ástríkt en strangt uppeldi og
leitaðist ávallt við að rísa undir
væntingum foreldra sinna en þótti
ævinlega herslumuninn vanta.
„Bæði þegar hún sótti um sem
leikhússtjóri hjá Leikfélagi Reykja-
víkur og bauð sig fram til forseta
voru það aðrir sem ýttu henni
af stað,“ bendir Páll á. Og í bæði
skiptin gerðist þetta allt á síðustu
stundu; hún var til dæmis hárs-
breidd frá því að hætta við forseta-
framboðið. „Það voru aðrir sem
sáu eitthvað í mér sem ég sá ekki
sjálf,“ segir Vigdís. „Ég hef hins
vegar reynt að gera allt vel sem ég
tek að mér. Allt frá því ég var ung
stúlka og var að fara út í lönd, sá
ég sjálfa mig eins og ég veit að for-
eldrar mínir vildu hafa mig. Og ég
geri það enn þann dag í dag.“
Í öðru lagi segir hún vanmeta-
kenndina hafa verið hlutskipti
kvenna á Íslandi. „Kvenfrelsi hefði
auðvitað orðið að raunveruleika á
Íslandi miklu fyrr ef konur hefðu
ekki verið með þessa miklu van-
metakennd fram eftir allri síðustu
öld. Þær eru jafnvel haldnar henni
enn þá en það er aftur á móti auð-
veldara að ýta henni frá sér núna
vegna menntunar. Það er hins full-
komlega hlægilegt að hugsa til þess
núna hvernig konur vanmátu sjálf-
ar sig; þær voru drifkraftur heimil-
isins, þungamiðja samfélagsins.
Þessu áttuðu sjómenn sig þó á;
þeir vissu að á heimilinu var konan
bæði fjármálaráðherra og mennta-
málaráðherra og hélt öllu gangandi
á meðan þeir voru úti á sjó. Þannig
hef ég að minnsta kosti skýrt það
hvers vegna sjómenn hvöttu mig í
framboð árið 1980 og það var ekki
síst fyrir þá áeggjan að ég lét slag
standa.“
Ekki víst að ég hefði kosið mig
sjálf
Saga Vigdísar er þó vissulega
öðrum þræði saga um kjark. Að
kona skyldi bjóða sig fram til
forseta 1980 var sannarlega vogað,
en enn vogaðra í ljósi þess að hún
var einstæð móðir – fyrsta ein-
hleypa konan til að fá að ættleiða
barn á Íslandi – og hafði einn-
ig barist við krabbamein. Marg-
ir hefðu eflaust látið hvatningar-
orð um forsetaframboð sem vind
um eyru þjóta við þær aðstæð-
ur. „Ég held ég hafi tekið þessu
sem ákveðinni ögrun og eftir á að
hyggja þurfti gríðarlegan kjark
til að takast á við þetta; að líta
aldrei til baka heldur alltaf fram á
veginn. Ég held að þessi bakgrunn-
ur minn hafi kannski líka hjálpað
öðrum að sjá sjálfa sig í nýju ljósi,
hverju þeir gætu afrekað. Allt sem
gerist í bókinni getur komið fyrir
allar stelpur í landinu, þær eiga að
geta samsamað sig með öllu, nema
mögulega að verða forseti.“
„Það er líka ein hugmyndin á
bakvið titilinn – Kona verður for-
seti,“ segir Páll. Sú lína er hugsuð
almennt.“
Hann snýr sér að Vigdísi: „Þú
sagðir einhvern tímann þegar
við vorum að rifja þetta upp, og
það kom alveg beint frá hjartanu:
„Þetta var hrein fífldirfska að fara
í þetta framboð. Ég hreinlega veit
ekki af hverju ég lét til leiðast.“
Ég held að það sé rétt. Ég veit ekki
hvort fólk gerir sér grein fyrir því
eftir á, þegar allt horfir öðruvísi
við og svo margt hefur breyst, hvað
þetta var fífldjarft.“
„Stundum gerðist það, eftir að ég
var kjörin, að fólk vék sér að mér
og bað mig afsökunar á því að hafa
ekki kosið mig,“ segir Vigdís. „Ég
bað fólk iðulega að taka það ekki
nærri sér, ég væri alls ekki viss
um að ég hefði kosið mig sjálf.“
Að endingu standa sig þeir einu
sem vanda sig
Kjör Vigdísar í embætti forseta
markaði tímamót á heimsvísu. Því
fór þó fjarri að Vigdís hefði gert
sér grein fyrir því á sínum tíma.
„Alls ekki, ég hafði ekki hug-
mynd um að ég væri fyrsta konan
í heiminum til að verða kosin for-
seti fyrr en ég fór að fá viðbrögð
utan úr heimi. Eitt sinn var mér
sýnd fyrirsögn úr kínversku dag-
blaði þar sem stóð: Kona kjörin for-
seti á Íslandi. Þá hugsaði maður að
þetta sætti greinilega tíðindum. En
ég hafði ekkert verið að pæla í því
fram að þessu og varð satt best að
segja svolítið hissa.“
Vigdís tók Kristján Eldjárn sér
til fyrirmyndar. Hún lagði fyrst og
fremst áherslu á að vera samein-
ingartákn þjóðarinnar og forðað-
ist að trana sinni persónu fram. En
það hlýtur að hafa kostað sitt. „Jú,
ég gætti þess rækilega að blanda
ekki saman vinnu og einkalífi; hélt
mínu striki við að ala upp dóttur
mína og rækta vini mína eftir bestu
getu. Þetta krafðist gríðarlegrar
skipulagningar.“
„Það er líka eftirtektarvert,“
skýtur Páll inn í, „að þegar þær
aðstæður komu upp að Vigdís sem
persóna hefði mögulega skoðanir á
ákveðnum málum varð mikill titr-
ingur – það var mjög áberandi að
hún hafði sáralítið svigrúm.“
Krefst það fórna, að leggja part
af sér og sinni persónu til hliðar í
sextán ár? „Ég veit það ekki,“ segir
Vigdís. „Ef maður er upptekinn af
einhverri vinnu og vill gera vel
lítur maður ekki á það sem fórn.
Að endingu standa sig þeir einu
sem vanda sig, það var mitt leið-
arljós. Þegar eitthvað kom upp á
hugsaði ég: Hvað hefði Kristján
Eldjárn gert nú? Hann var svo far-
sæll forseti. Og ég vona að ég hafi
verið það líka.“
Hringdu ekki einu sinni í „konu-
bjánann“
Í ævisögu Vigdísar kemur fram að
hún hafi fundið greinilega fyrir
því að stjórnmálamenn treystu
forsetanum ekki alltaf til verka.
Á köflum fannst henni hreinlega
ómaklega að sér vegið, til dæmis
í flugfreyjuverkfallinu 1985. Rík-
isstjórn Steingríms Hermanns-
sonar hugðist setja bráðbirgðalög
á flugfreyjur á sjálfan kvennafrí-
daginn. Þetta þótti Vigdísi ótækt
og óskaði eftir að fá að bíða með að
undirrita lögin fram að miðnætti.
Því var neitað. Vigdís beið því með
að undirrita lögin til klukkan eitt
eftir hádegi, til að koma í veg fyrir
Þetta getur komið fyrir allar stelpur
Vigdís Finnbogadóttir skipar sérstakan sess í sögu og hjarta íslensku þjóðarinnar. Um ævi hennar, sorgir og sigra er fjallað í
nýrri bók Páls Valssonar, Vigdís – kona verður forseti. Bergsteinn Sigurðsson gekk á fund Vigdísar og Páls og spurði þau út í
verkið og samstarfið.
KONAN SEM VARÐ FORSETI „Það er mikið átak að lifa lífinu tvisvar og rifja upp fortíðina,“ segir Vigdís um ritun bókarinnar. „Ég dvel ekki mikið við hið liðna – ég vil frekar
horfa fram á við.“ FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
FRAMHALD Á SÍÐU 26
Fólk sækist eftir því sem er fyrir andann
Leikhúsið og listir hafa lengi skipað stóran sess í lífi Vigdísar og gera enn. „Ég hef hvergi lært jafn mikið um lífið og í
leikhúsinu. Það gerði mig að mannþekkjara, held ég. Þegar ég hitti fólk skemmti ég mér enn við að skipa því í hlutverk á
sviði í huganum.
Það var margt líkt með þeim tímum sem við lifum núna þegar ég var í leikhúsinu. Þetta voru samdráttartímar og
maður sá svo greinilega hvernig vel skrifuð, gagnrýnin verk tóku á málunum. Lífið er hvergi betur skilgreint en í leikhús-
inu.
Það „góða við kreppuna“ er að menningin blómstrar. Ég hef einmitt verið að gleðjast yfir því að það er sneisafullt í
leikhúsum og á tónleikum. Fólk sækist eftir því sem er fyrir andann, sem er mjög jákvætt. Út kemur hver bókin á fætur
annarri sem er stórkostlegur litteratúr. Menningin færir fólki nýja sýn á hlutina. Og hún getur brotist út í svo mörgu, til
dæmis prjónaskap. Það er svo róandi og gefur fólki eitthvað annað en það er að hlaupa eftir í daglegu lífi.“