Gripla - 01.01.1984, Page 16
HERMANN PÁLSSON
PAMPHILUS DE AMORE
í norrœnni þýöingu
NÝ ÚTGÁFA MEÐ SKÝRINGUM
I. FORMÁLI
Elzta heimildin um kynni íslendinga af Ovidiusi er Jóns saga helga,
sem hefur að geyma svofelldan kafla um biskup: ‘Mansöngskvæði vildi
hann eigi heyra né kveða láta, en þó fékk hann því eigi af komið með
öllu. Það er sagt, að hinn heilagi Jón biskup kom að einn tíma, er einn
klerkur er Klængur hét og var Þorsteinsson, er síðar varð biskup í Skál-
holti, las versabók þá er heitir Ovidius de arte. En í þeirri bók talar
meistari Ovidius um kvenna ástir og kennir með hverjum hætti menn
skulu þær gilja og nálgast þeirra vilja. Sem hinn sæli Jóhannes sá og
undirstóð hvað hann las, fyrirbauð hann honum að heyra þess háttar
bók og sagði að mannsins breyskleg náttúra væri nógu framfús til mun-
úðlífis og holdlegrar ástar, þó að maður tendraði (eigi) sinn hug upp
með sauruglegum og syndsamlegum diktum.’1 Þótt vitnað sé til Ovid-
iusar á nokkrum stöðum í fornritum,2 virðast áhyggjur Hólabiskups af
illum áhrifum hins rómverska skálds á íslenzka skólapilta ekki fá mikinn
stuðning í bókmenntunum. Mun hitt vera öllu sennilegra að íslenzkir
rithöfundar á miðöldum hefðu haft gott af því að kynnast Ovidiusi betur
en raun ber vitni um. Og þess verður einnig að gæta, að tilvitnanir til
Ovidiusar í íslenzkum fornritum þurfa ekki að vera sóttar beint til verka
hans, heldur hafa þær getað komið úr ritum frá miðöldum.
Latneska ástakvæðið Pamphilus (önnur mynd Panphilus)—eða Pam-
philus de amore, eins og það er stundum kallað — er talið vera ort á
ofanverðri tólftu öld og að öllum líkindum á Norður-Frakklandi. Þessi
litla versabók, sem er ekki nema 790 línur, er oft talin vera gamanleikur
1 Biskupa sögur I (1858), 237-8. í annarri gerð Jóns sögu helga (sama rit, 165-
6) er ekki talað um Ars amatoria eins og hér heldur Ovidius epistolarum, sem
versabókin Heroides er þar svo kölluð.
2 Glöggt yfirlit yfir þetta vandamál er grein eftir Astrid Salvesen, ‘Ovid’ í
Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder xiii (1968), 63-65.