Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 167
FORNKVÆÐASPJALL
163
Þá er það misskilningur sem segir á bls. 216 að Specimen Lexici
Runici sé skrifað af Magnúsi Ólafssyni 1650. Magnús dó 1636, en
bókin var prentuð í Kaupmannahöfn 1650. Nefna má í leiðinni að
orðabókardæmið sem hér er fjallað um mun ekki vera frá Magnúsi í
Laufási, heldur hefur Guðmundur Andrésson bætt því inn í handriti.
Anthony Faulkes sýndi fram á þetta í grein í íslenzkri tungu 5, 1964,
og er það einnig tekið fram í íslenzkum fornkvœðum V, bls. 205, þar
sem Jón Helgason prentar brotið með tilvísun í grein Faulkes.
Fk. 50, Ólafs vísur, og 77, Kvæði af syndugri konu, voru í AM 622
4to, handriti Gísla Jónssonar síðar biskups, þegar Árni Magnússon
eignaðist það. Kvæðin áttu þó ekki heima í handritinu frá öndverðu, en
höfðu verið skrifuð ásamt fleiri kvæðum á auð blöð og blöð sem síðar
var aukið í bókina. Árni Magnússon fjarlægði þessi blöð og henti þeim
þegar hann hafði skrifað sum kvæðin upp og tekið orðamun úr öðrum.
Þó hélt hann eftir tveimur blöðum, sem nú eru í AM 99b 8vo. Á þeim
eru Ábóta vísur, og hefur Jón Helgason gefið þær út í Opuscula III
(Bibl. Arn. XXIX, bls. 173-83). Á undan Ábóta vísum grillir í niður-
lag Ólafs vísna, vendilega skafið út. Rithönd á Ábóta vísum er frá 17.
öld, og hyggur Jón Helgason að þær séu skrifaðar fremur fyrir en eftir
1650. Það er þá jafnframt til marks um ritaldur Ólafs vísna, sem voru
skrifaðar eitthvað fyrr en Ábóta vísur. Af miða með hendi Árna Magn-
ússonar kemur skýrt fram að sama rithöndin var á Ólafs vísum og á
Kvæði af syndugri konu. Árni kallar hana andstyggðar hönd. Nú má
ráða af þessu að ekki verður kveðið nákvæmlega á um ritaldur þessara
kvæða í 622. Á bls. 16 telur Vésteinn að þau hafi verið skrifuð upp á
fyrri hluta 17. aldar (in the first half of the 17th century), sem er
sennilegt. Þá gæti það líka verið rétt sem stendur á bls. 371 að uppskrift
á Kvæði af syndugri konu hafi verið frá því snemma á 17. öld (from the
early 17th century). En með engu móti fær staðist það sem segir á bls.
293, að Ólafs vísur hafi verið skrifaðar upp á fyrri hluta sextándu aldar
(in the first half of the sixteenth century).
Ég vil ljúka þessum orðum með því að óska Vésteini heilshugar til
hamingju með vel unnið verk, sem ég get ímyndað mér að hafi stundum
reynt á þolrifin. Þessi rannsókn er ótvírætt rækilegasta og vandaðasta
könnun sem gerð hefur verið á íslenskum sagnadönsum. Vésteinn hefur
haft feikilega mikið og erfitt efni undir, og að öllum jafnaði eru álykt-
anir hans hófsamar og traustar, eftir því sem orðið getur. Ég geri ekki
ráð fyrir því að rannsókn hans verði lokaorð um aldur og uppruna