Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 159
F ORNK VÆÐAS P JALL
155
íslendingar hafa ósjaldan átt leið um á þeim tímum þegar þeir voru að
koma sér upp rímum. Það er í hæsta máta sennilegt að í Björgvin hafi
mæst margir og breytilegir menningarstraumar, þótt fátt verði hins
vegar sagt með fullum sanni eða sæmilega öruggri vissu um skáld-
skapariðkanir þar í bæ um þetta leyti, annað en það sem ráða má af
rúnaristum sem þar hafa verið grafnar upp og segja að vísu margt
merkilegt. Ég fæ ekki betur séð en allt geti staðist, sem Vésteinn segir
um þetta, en líklega mætti snúa efninu á fleiri vegu, og yrði samt ekki
hrakið. Það er ekki heiglum hent að dæma um glataðan enskan skáld-
skap á ferð í Björgvin um 1300, þegar ekki eru beinar heimildir aðrar
en rúnaristur, sem vandlega þegja um þennan menningarþátt, hvað þá
að skýr svör fáist um áhrif þessa ímyndaða skáldskapar á verðandi
íslensk rímnaskáld á leið um í Noregi í upphafi rímnagerðar á íslandi.
Þessar íhuganir leiða óhjákvæmilega til hugleiðinga um kappakvæðin
og afstöðu þeirra til rímna. Kappakvæðin eru venjulega talin vestur-
norræn að uppruna, og með þeim og rímum er sérlegur svipur, eins og
oft hefur verið bent á og ekki þarf að lýsa hér. Báðar þessar kveð-
skapargreinar kynnu að vera í mótun á þeim tímum þegar íslendingar
höfðu náin skipti við Norðmenn, og ekki er ósennilegt að svipuð erlend
áhrif hafi náð til beggja landanna með líkri kveðskapartísku, sem gat
átt þátt í að móta annars vegar það sem við þekkjum síðar sem rímur
á Islandi og hins vegar þann glataða kveðskap sem talið er að liggi að
baki kappakvæðanna. Auðvitað kemur hér líka til greina víxlverkun
eða að önnur kveðskapargreinin hafi haft áhrif á mótun hinnar. Það
sem á milli ber myndi skýrast af mismunandi aðstæðum og ólíkri kveð-
skaparhefð í hverju landi. Gun Widmark varpaði fram hugmyndum
sem gengu í þessa áttina í grein sem birtist í Arv 1959 (Folkvisan Hag-
bard och Signe, bls. 25) og tók þær upp að nýju í ritgerð sem hún birti
í Fróðskaparrit 18, 1970 (Om rimvanor i vástnordisk och dansk ballad-
diktning, bls. 271-74). Sjálfsagt hefur einhverjum fleirum dottið svipað
í hug, þótt ég kunni ekki að rekja. Vésteinn er einnig á þessu að því
leyti að hann telur kappakvæði og rímur einnar ættar.
Það er vissulega nærtækt að hugsa sér samband á milli kappakvæða
og rímna. Miklu erfiðara er að finna haldbær rök og sýna fram á það
hvernig háttað er um skyldleikann. Astæðan er deginum ljósari. Kappa-
kvæði eru munnlegur kveðskapur, og verður að gera ráð fyrir flutningi
ótal sinnum öldum saman, áður en þau voru skrifuð upp, ef komast á
aftur á þá tíma þegar íslenskar rímur voru í mótun. Betur er ástatt um