Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 149
FORNKVÆÐASP JALL
145
lifðu á vörum fólks á svipaðan hátt og sagnadansarnir. Sumar þeirra
hafa borist munnlega erlendis frá og líkjast fornkvæðunum einnig að
því leyti. Dæmi um það eru alkunnar barnaþulur, eins og Sat eg undir
fiskahlaða föður míns, eða einstakir hlutar hennar, Bokki sat í brunni,
kúanafnaþulan, sem stundum er látin byrja Sittu, sittu, sonur minn
eða Ég skal dilla syni mínum, tröllanafnaþulan Kambur Skæringsson
o. s. frv., sem venjulega tengist þulunni Heyrði ég í hamrinum, upp-
talningin Táta, Táta, teldu dætur þínar, Karl fór á kolskóg og fleira af
þessu tagi, sem hefur borist á milli málsvæða. Hliðstæðar þulur eru
annars staðar á Norðurlöndum. Sama er að segja um kvæði eins og
Komdu til mín fyrsta kvöldið jóla, þulusögur ýmsar sem hingað hafa
borist á fyrri tímum og margt fleira. Einnig mætti nefna leikþulur eða
leikkvæði, eins og Flyttu mig yfir brú, brú breiða eða þuluna Við skul-
um hafa okkur upp á lönd, sem kynni að vera ættuð úr Hindarleik. Við
þetta bætast særingarþulur og ýmsar þulubænir, og hefur sumt af þessu
einnig borist munnlega á milli landa fyrr á tímum. í þessum þuluskáld-
skap er víða mikið frjálsræði í stuðlasetningu, og stundum eru alls engir
stuðlar eða svo óreglulega settir að ekki gefur sagnadönsunum neitt
eftir.
í fornkvæðaútgáfu Jóns Helgasonar er kvæðum raðað eftir aldri
uppskrifta, og fæst við það glöggt yfirlit um ritun þessara kvæða á mis-
munandi tímum. Á þessu byggir Vésteinn í fróðlegri samantekt á bls.
17, þar sem hann gerir grein fyrir hlutfallslegum fjölda kvæða annars
vegar í handritum frá 17. öld eða um 1700 og hins vegar í handritum
frá 18. og 19. öld. Eftir uppskriftum að dæma hefur gengi kvæðanna
dvínað eftir því sem á leið. Tiltölulega fá ný kvæði bætast við, og kvæði
í handritum 17. aldar manna koma hvergi nærri öll til skila í uppskrift-
um síðari manna. Á 19. öld þegar hófst skipuleg söfnun þjóðfræðaefnis
eru þó kvæði af þessu tagi enn á gangi, og hafa sum verið mjög algeng,
eins og t. d. kvæðið Ólafur reið með björgum fram og Stjúpmóðir,
ráddu drauminn minn.
Vésteinn víkur einnig að skiptingu kvæða milli landshluta eftir því
sem ráðið verður af uppskriftum. Elstu og auðugustu kvæðasöfnin eru
vestfirsk að uppruna, en ástæðan kynni að vera kappsemi einstakra
manna við uppskriftir kvæðanna. Það er tæplega fyrr en á 19. öld,
þegar leitað er eftir þjóðfræðaefni um allt land, að grundvöllur er fyrir
athugun á vinsældum mismunandi kvæða á einstökum stöðum í land-
inu, og hefði verið áhugavert að fá nánari athugun á dreifingu sagna-
Gripla VI — 10