Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 163
FORNKVÆÐASPJALL
159
ekki til að skýra upptök rímna, og tengsl á milli lýriskra miðaldadansa
og sagnadansa verða ekki greind. Eftir á undrar það lesandann að
vinsæl kvæði, eins og gera verður ráð fyrir að sagnadansarnir hafi verið
um langt skeið hér á landi, skuli hvergi hafa skilið eftir þekkjanleg spor
í bókmenntum þjóðarinnar.
Mestur hluti sagnadansanna er útlendur að uppruna. Þeir hafa borist
okkur frá Norðurlöndum, frá Noregi, Danmörku eða Færeyjum. Stund-
um virðist skyldleikinn mestur við kvæði af vesturnorræna málsvæðinu,
og er sú skýring nærtæk að samband hafi verið náið milli Noregs, ís-
lands og Færeyja, á þeim tímum þegar þau kvæði bárust á milli. Sama
máli gegnir um þulur, sem hingað bárust og skyldastar eru þulum af
vesturnorrænu málsvæði. (íslenskt mál I, 1979, bls. 155.) Ætla má að
skilyrði hafi verið góð til flutnings slíks efnis munnlega milli Noregs og
íslands allt til loka miðalda. Eftir siðaskipti mætti fremur gera ráð fyrir
flutningi efnis munnlega frá Danmörku. Náinn skyldleiki við norskar
eða færeyskar gerðir getur bent til þess að kvæði eða þula hafi borist
okkur fyrir siðaskipti, þótt ekki þurfi ætíð svo að vera og sjálfsagt sé að
gera ráð fyrir undantekningum.
Vésteinn fjallar á bls. 105-109 urn menningarleg- og stjórnarfarsleg
tengsl íslendinga við grannþjóðir sínar á Norðurlöndum, einkum Dani
og Norðmenn. Hann vitnar til Finns Jónssonar að hann haldi því fram
að menningarsamskipti við vesturnorrænar þjóðir, Norðmenn og Fær-
eyinga, rofni um 1400, þegar kemst á konungssamband Noregs, íslands
og Danmerkur (bls. 106). Þessu andmælir Vésteinn. Nú er mér að vísu
ekki alveg ljóst hvar þetta á að standa í ritum Finns, enda skiptir það
ekki meginmáli. Hitt er aðalatriði að þessi skoðun hefur engan veginn
verið einráð, svo að ekki sé meira sagt, enda er fjarstæða að ímynda sér
að tengslin við Norðmenn rofni um 1400, svo að taki fyrir flutning á
kvæðum, þulum og sögum og öðru munnlegu efni á milli þessara landa
á þeim tíma. Hugmynd Björns K. Þórólfssonar kemur einkar skýrt fram
í riti hans, Rímur fyrir 1600, 1934, bls. 45, sem hér hefði mátt vitna til.
Björn segir m. a.:
Alla fjórtándu öld hljóta dansar að hafa borist til íslands eingöngu eða svo að
segja eingöngu frá Noregi, en um og eftir 1400 komu til íslands danskir hirðstjórar
og biskupar, og gátu þá dansar borist með höfðingjum þessum og sveinum þeirra.
Samt hafa íslendingar vafalaust, einnig eftir 1400, mest fengið dansa frá Noregi,
en auðvitað gátu margir þeirra dansa, sem vjer fluttum inn frá Noregi, verið
komnir frá Danmörku til Noregs.