Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 148
144
GRIPLA
Texti annars handrits, sem Finnur tekur úr orðamun, stendur þó nær
vísunni í fornkvæðabók sr. Gissurar.
Þá er 2. er. kvæðisins í fornkvæðabókinni (Horfinn gjörist eg heimi
í hug) ættað úr Grettisrímum. Það er 3. er. í fjórðu rímu, prentað í
Rímnasafni Finns, 1. bindi, bls. 62. Þar er vísan á þessa leið:
Horfinn gjörust eg heimi úr,
hryggðin að mér kallar,
því hinu stærstu stoltarfrúr
styggjast við mig allar.
Orðalagið ‘heimi úr’ í 1. vo. myndar rétt rím, og ‘heimi í hug’ í kvæða-
bókinni er sjálfsagt breyttur texti, líklega í munnlegri geymd. Þar með
hefur rímið í 1. og 3. vo. farið veg allrar veraldar, en merking verður
engu síðri. Ég kann ekki skil á uppruna fleiri vísna í kvæðinu, en það
sem þó hefur komið í ljós kynni að benda til þess að kvæðið væri að
meira eða minna leyti sett saman úr stökum ástarvísum, sem einhver
hagur maður kunni. Endurtekning vísuorða stendur vafalaust í sam-
bandi við kvæðalag og flutning.
I Fk. 22, Kvæði af herra Pána, eru upphafsvísuorð endurtekin á sama
hátt og gert er í kvæðinu Gumnar hafa hér gaman í kveld, en í forn-
kvæðinu er að auki viðlag. Endurtekning upphafsvísuorða er í hlið-
stæðu kvæði í Danmörku og í Færeyjum (VÓ, bls. 211), en er ekki
íslensk uppáfinning.
Kvæðin sem hér hafa verið tekin til samanburðar eru ekki stælingar
á sagnadönsum. Þau eru hins vegar sum hver vitnisburður um líkan
brag í frumortum íslenskum skáldskap, sem er af allt öðrum toga og
óskyldur sagnadönsum bæði að efni, eðli og stíl. Á meðferð tvíhenda
háttarins er einnig sá reginmunur, að í kvæðum skáldanna íslensku er
hann venjulega stuðlaður og lýtur innlendum skáldskaparreglum, en í
sagnadönsunum er stuðlasetning mjög óregluleg og oftast engin. Frjáls-
ræði í stuðlasetningu eða stuðlaleysi er meðal þess sem Vésteinn nefnir
á bls. 15 sem einkenni sagnadansa, er greini þá frá því sem næst öllum
öðrum ljóðum íslenskum fram á þessa öld.
Það er að sjálfsögðu hárrétt að sagnadansarnir skera sig úr að þessu
leyti, og hefur oft verið á það bent. Hinu hefur ekki verið haldið eins á
lofti að fornkvæðin eru ekki ein íslenskra ljóða stuðlalaus, eða mjög
óreglulega stuðluð. Sama verður fyrir í sumum gömlum þulum, sem