Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 18
14
GRIPLA
þá sálma hér. Útgáfa Kölbings er að því leyti merkilegri, að hann dregur
athygli að ýmsum villum í handritinu, sem ráðnar verða af samanburði
við latneska frumtextann.
Útgáfa mín er gerð í öðru skyni og með öðrum hætti en hinar tvær.
í fyrsta lagi er stafsetning samræmd, svo að sem minnstur vafi geti leikið
á um merkingu einstakra orða og setninga. I fyrri útgáfum er ýmislegt
tvírætt af þeirri einföldu ástæðu að rithætti handritsins er nákvæmlega
fylgt. Sem dæmi um slíkt má nefna orðmyndina lytr í 335. versi, sem
virðist í fljótu bragði vera annaðhvort af sögninni að ‘lúta’ ella þá af
sögninni að ‘hljóta’, en samanburður við latínutextann sýnir ótvírætt að
hér er um að ræða sögnina að ‘líta’, og því skal hér rita lítur. í öðru lagi
hef ég hlítt versaskipan latneska kvæðisins í lengstu lög, og til glöggv-
unar hef ég sett tölur á spássíu í sömu röð og verður í versabókinni á
frummálinu. I þriðja lagi, eins og ég hef raunar þegar gefið í skyn, hef
ég borið norræna textann saman við hinn latneska, lagfært ýmis atriði
og bent á úrfellingar og viðauka. Þegar ég var að fást við samanburðinn,
var mér útgáfa Kölbings ekki tiltæk, og reyni ég þó nú að geta sem
flestra athugasemda hans í skýringum.4 En þorrinn af skýringum mínum
á sér ekki hliðstæðu í útgáfu Kölbings. Vænti ég þess að útgáfa mín
hjálpi lesendum til að átta sig á vinnubrögðum hins norræna þýðanda,
sem sneri þessari versabók á sína tungu.
Hér að framan hef ég beitt orðinu ‘norrænn’ um þýðanda verksins,
og stafar sú ónákvæmni af þeirri einföldu ástæðu, að enn hafa ekki
komið fram örugg rök fyrir því hvort hann hafi verið Norðmaður eða
Islendingur. I sjálfu sér skiptir slíkt næsta litlu máli, og er þó ávallt bezt
að hafa það sem sannara reynist. Handritið er tvímælalaust norskt, en
þar sem bregður fyrir í því íslenzkum rithætti, telur Ludvig Holm-Olsen,
að forrit þess hafi verið skrifað af íslendingi í Noregi. Að hyggju hins
norska fræðimanns stafar þýðingin frá áhuga Hákonar gamla á suðræn-
um bókmenntum, svo sem riddarasögum, sem snarað var á norsku að
tilhlutan hans. Um slíkt verður þó ekki staðhæft, enda mun öðrum
námfúsum Norðmönnum og íslendingum hafa þótt skemmtun að kvæð-
inu. Á hitt má einnig benda, að latneska kvæðið kann að hafa verið
lesið í íslenzkum og norskum skólum á þrettándu öld, eins og raunar
tíðkaðist annars staðar á Vesturlöndum um þær mundir. Þýðingin kann
að hafa verið gerð í þágu kennslu. Hér má að lokum lauslega minna á,
4 Mér er ljúft að þakka dr. Finnboga Guðmundssyni landsbókaverði þann
vinargreiða að senda mér ljósritað eintak af útgáfu Kölbings.