Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 17
PAMPHILUS DE AMORE
13
(comoediá), en slíkar bókmenntir tíðkuðust einmitt í Norður-Frakklandi
á síðara hluta tólftu aldar. Höfundur þess er ókunnur. í kvæðinu eru
fjórar persónur: Pamphilus, Galathea, gyðjan Venus og ónefnd kerling
(Anus). Pamphilus er ungur að aldri, félítill og ástfanginn af Galatheu,
og þar sem hann veit ekki hvernig hann á að vinna þessa fögru mey,
ákallar hann Venusi, sem flytur honum boðskap Ovidiusar um sigra í
ástamálum og hvetur hann til dáða. Pamphilus ávarpar Galatheu, og
þótt vel fari á með þeim, ákveður hann að hlíta ráðum Venusar og fá
sér túlk, aldraða konu, til að ræða málin við Galatheu og tryggja biðlin-
um sigur. Kvæðinu lýkur á þá lund, sem lesendur myndu helzt kjósa:
þau Pamphilus og Galathea ná saman með hjálp kerlingar.
Ritsmíðin Pamphilus hafði ekki lengi verið við lýði, þegar hún fór að
ná furðu miklum vinsældum í ýmsum löndum Vestur-Evrópu, en þegar
kemur fram á fjórtándu öld er farið að dofna yfir áhuga á kvæðinu.
Áhrifa frá því gætir í ýmsum bókmenntum miðalda, svo sem í verkum
þeirra Boccaccios og Chaucers.3 Eins og önnur læsileg latínurit frá tólftu
öld var Pamphilus skólabók um nokkurt skeið, enda hefur kvæðið ýmis
einkenni sem meistarar á miðöldum kunnu vel að meta, svo sem góðlát-
lega kímni og gnótt spakmæla. En mestu máli skipti þó sá fróðleikur
frá Ovidiusi um kvenna ástir sem siðvöndum lærifeðrum þótti skaðsam-
legur ungum námspiltum og raunar einnig öðrum mönnum, þar sem
náttúra mannsins er nógu framfús til munúðlífis án þess að hún sé
eggjuð til losta með lestri syndsamlegra versabóka.
Pamphilusi var snarað á norrænu, að öllum líkindum ekki síðar en
um miðja þrettándu öld. Tveir fyrstu þriðjungar kvæðisins eru varð-
veittir í norsku handriti, sem Ludvig Holm-Olsen telur vera frá því um
1270, en síðasti þriðjungurinn hefur glatazt með öllu. Pamphilus á
norrænu hefur verið gefinn út tvisvar: fyrst af E. Kölbing, ‘Bruchstiick
einer altnordischen Bearbeitung von Pamphilus und Galathea’, Ger-
mania xxiii (1878), 129-41, og síðan af Ludvig Holm-Olsen, ‘Den
gammelnorske oversettelsen av Pamphilus, med en underspkelse av
paleografi og lydverk,’ Avhandlinger utgitt av Det Norske Videnskaps-
Akademi i Oslo. II. Hist.-Filos. Klasse 1940. No. 2. Báðar útgáfur eru
stafréttar, og með hinni síðari fylgir Ijósprent af handriti. Um stafsetn-
ingu, orðmyndir og önnur skyld atriði hefur Ludvig Holm-Olsen ritað af
mikilli gaumgæfni í inngangi að útgáfu sinni, og verður ekki farið út í
3 Sjá Thomas Jay Garbaty, ‘PAMPHILUS, DE AMORE. An Introduction and
Translation’, Chaucer Review II (1967), 108-34, og rit sem þar er vitnað til.