Eimreiðin - 01.01.1966, Page 20
8
EIMREIÐIN
M. Gíslason ritaði á móti þeim öllum, m. a. í stjórnarblaðið „Social-
demokraten“, er nú nefnist „Aktuelt“. Aðrar greinar hans komu
í „Kristeligt Dagblad“, „Nationaltidende", „Höjskolebladet“ og
„Jyllands-Posten“. Jörgen Bukdahl rithöfundur veitti Bjarna lið,
ásamt þeim Jens Marinus Jensen, landsformanni ungmennafélag-
anna, og fjölda lýðháskólamanna, en meðal þeirra létu dr. phil-
Holger Kjær í Askov, dr. jur. Poul Engberg lýðháskólastjóri og
cand. mag. S. Haugstrup Jensen mest til sín taka. Víðtækust áhrif
hafði Jörgen Bukdahl, enda er hann stórt nafn í norrænum bók-
menntum, og flestir hikuðu við að lenda í deilum við hann. Sjón-
armið Bukdahls höfðu áhrif á marga, m. a. Bent A. Koch, er seinna
varð aðalritstjóri „Kristeligt Dagblad“.
En andstæðingarnir létu sem þeir hvorki heyrðu né sæju önnur
sjónarmið en sín eigin, og að sumu leyti höfðu þeir meiri áhrif a
stjórnmálamennina. En Martin Larsen lektor kom þá til sögunnar.
Hann gat ekki lengur horft á einhliða áróður þeirra, enda þekkti
hann vel til málsins. Hann ritaði mikla grein í „Socialdemokraten"
4. febrúar 1953 og deildi á þá menn, sem höfðu gefið út bækling
í sambandi við sýninguna á Þjóðminjasafninu. Grein Larsens fjall-
aði mest um bæklinginn og afhjúpaði ýmsar skekkjur í honum.
En þá kom fram á sjónarsviðið maður, sem flestir ætluðu að
væri íslandsvinur, magister Chr. Westergárd-Nielsen, er síðar varð
prófessor við háskólann í Árósum. Hann skrifaði gegn Martin Lar-
sen, og þar sem hann þekkti vel til íslenzkra málefna, veikti það
traustið á Larsen að nokkru leyti. Westergárd-Nielsen reyndist vera
harður deiluhöfundur og neytti óspart allra meðala, m. a. skírskot-
aði hann til viðkvæmrar þjóðernistilfinningar. Meira að segja gerði
hann tilraun til að telja Dönum trú um að íslendingar myndu gera
tilkall til Grænlands, ef þeir fengju handritin!
Góður stuðningsmaður íslendinga var C. A. C. Bruun, fyrrver
andi sendiherra. Hann ritaði neðanmálsgrein í „Berlingske Aften
avis“ í apríl 1953 og tætti í sundur mörg falsrök í sambandi við
afhendingu handrita og skjala árið 1927. En andstæðingar afhend-
ingarinnar sóttu nú svo fast fram, að málið komst í sjálfheldu.
Julius Bomholt menntamálaráðherra reyndi að leysa málið og
kom með tillögu um að skipta handritunum, en löngu áður en
unnt var að leggja tillögu hans fram í Ríkisdeginum, hafði Island
svarað því ákveðið neitandi, og auk þess voru lýðháskólamenn mjög
á móti slíkri lausn. Hans Hedtoft forsætisráðherra sá þá enga aðra