Tímarit lögfræðinga - 01.12.1975, Blaðsíða 37
skildu, að ákvörðunin hafi gengið hlutaðeigandi í móti, sbr. 11. gr.
Þetta ákvæði er óneitanlega stutt og skorinort, enda lætur það tveimur
mikilsverðum spurningum ósvarað: Hvers kyns stjórnvaldsákvörðun-
um verður skotið til æðri stjórnsýsluhafa? 0g hverjir — nánar tiltekið
— geta kært slíkar ákvarðanir?
Ákvarðanir sænskra stjórnvalda verða almennt kærðar án tillits til
þess, hvort sérstaka kæruheimild sé að finna í lögum eða reglugerðum.
En er hugsanlegt, að eðli máls geti staðið því í vegi — utan lögákveð-
inna tilvika — að stjórnvaldsákvörðunum verði skotið til æðri stjórn-
sýsluhafa? Réttarvenja hefur svarað því játandi. Sumar ákvarðanir
útheimta t. d. sérþekkingu, er lægra stjórnvald ræður eitt yfir. Dæmi
þess er að gefa einkunnir fyrir próf. Út í hött væri að skjóta slíkum
ákvörðunum til æðri stjórnsýsluhafa. öðru máli gegnir um ákvarðanir,
sem teknar eru, meðan á meðferð máls stendur, og varða málsmeðferð-
ina einvörðungu. Þar mætti í sjálfu sér kæra sérstaklega, en þvílíkt
gæti auðveldlega dregið alla stjórnarframkvæmd úr hömlu. Því hefur
myndast sú óskráða réttarregla, að þess konar ákvarðanir verði aðeins
bornar undir æðri stjórnsýsluhafa um leið og efnisákvörðun í við-
komandi máli.
Af orðalagi 11. gr. verður ráðið, að ekki getur hver sem er kært
stjórnvaldsákvörðun, heldur einungis sá, sem hún snertir. Það síðast-
nefnda á að sjálfsögðu fyrst og fremst við þann, er telst beinn aðili
máls, — hefur t. d. sótt um leyfi eða verið bannað að taka sér eitthvað
fyrir hendur. Kæruréttur byggist þó ekki einvörðungu á málsaðild,
heldur er hægt að kæra hverja þá ákvörðun, er hróflar við réttarstöðu
hlutaðeigandi eða öðrum lögvörðum hagsmunum. Foreldrar geta — svo
dæmi sé tekið — kært þá ákvörðun barnaverndarnefndar að taka barn
úr umsjá þeirra. 1 sænsku barnaverndarlögunum hefur hagsmunum
foreldra í þessu sambandi nefnilega verið veitt viss réttarvernd, þar
eð barnaverndarnefnd er skylt að leita álits þeirra, áður en fyrrgreind
ákvörðun er tekin. Að öðrum kosti væri hæpið að telja kærurétt vera
fyrir hendi í þessu tilviki.
Stjórnvald getur og kært ákvörðun annars stjórnvalds, varði hún
hagsmuni þess fyrrnefnda — einkaréttar eðlis. Beinist hún aftur á
móti að opinberum hagsmunum, sem stjórnvaldi er ætlað að gæta, hefur
það yfirleitt ekki rétt til að kæra, nema sérstaka kæruheimild sé að
finna í lögum eða reglugerðum.
Sá, sem kærir stjórnvaldsákvörðun, skal senda erindi þess efnis til
æðra stjórnvalds eða stjórnsýsludómstóls, sem bær er að fjalla um
kæruna, sbr. 12. gr. 1. mgr. (Sjá og 1.4. að framan.) Kæra á því að
175