Tímarit lögfræðinga - 01.12.1975, Blaðsíða 43
Sé betur að gáð, svipar þó þessum lögum saman. í fyrsta lagi er
markmiðið það sama, — báðum lögunum er ætlað að tryggja réttar-
öryggi og hagkvæmni á sviði stjórnsýslunnar, að ógleymdri lögeiningu
með því að byggja út fjölda sérákvæða. 1 öðru lagi er gildissviðið
áþekkt, — Fvl. eru þó að því leyti víðtækari en FL, að þau ná — án
nokkurra undantekninga — til þeirra stjórnvalda, er starfa á vegum
sveitarfélaga. Og síðast en ekki síst eru efnisreglurnar furðu keim-
líkar. Ákvæði beggja laganna taka ekki aðeins til nokkurn veginn sömu
álitaefna, heldur leysa þau í megindráttum með sama hætti.
Þessi samanburður á norsku og sænsku stjórnsýslulögunum verður
að nægja að sinni. Fróðlegt væri án efa að bera þessi tvö lög saman
grein fyrir grein, en slíkt væri efniviður í aðra greinargerð, a. m. k.
jafn langa þessari.
3.2. Enginn vafi leikur á því, að FL (og Fvl.) hafa stuðlað að auknu
réttaröryggi og meiri hagkvæmni í sænskri (og norskri) stjórnsýslu.
Staða einstaklinga og annarra óopinberra aðila gagnvart stjórnvöldum
er tryggari en áður, og stjórnvöld eru nú síður í vafa um, hvað sé gild-
andi stjórnarfarsréttur í einstökum tilvikum, en það eitt sparar þeim
bæði tíma og fyrirhöfn. Þá er stjórnarframkvæmd öll einfaldari og
samræmdari en fyrr.
Þessi reynsla Svía (og Norðmanna) hlýtur að hvetja aðrar Norður-
landaþjóðir til að fylgja fordæmi þeirra. 1 Finnlandi er um þessar
mundir unnið að setningu stjórnsýslulaga, og í Danmörku hefur a.m.k.
komið til álita að gera það. Danir hafa þegar lögfest almennar reglur
um hluta málsmeðferðar hjá stjórnvöldum, einkum með lögunum um
upplýsingaskyldu stjórnvalda — lov om offentlighed i forvaltningen.
Er það útbreidd skoðun í Danmörku, að hentugra sé að innleiða al-
mennar reglur um meðferð mála hjá stjórnvöldum með setningu
dreifðra lagaákvæða í stað eins lagabálks.
Á íslandi ríkir sem kunnugt er veruleg réttaróvissa á sviði stjórn-
sýslunnar — ekki síst að því er varðar málsmeðferð hjá stjórnvöldum.
Óþarfi er að nefna dæmi því til staðfestingar. Því er jafnvel enn meiri
þörf á að setja heildstæð stjórnsýslulög hér á landi en á hinum Norð-
urlöndunum. Ségja má, að frumvarpið til laga um upplýsingaskyldu
stjórnvalda sé vísir að slíkri lagasetningu, — en betur má, ef duga skal.
Það er von höfundar, að þessi grein um sænsku stjórnsýslulögin
verði til þess að vekja athygli á þörfinni fyrir skýrari réttarreglur um
meðferð mála hjá íslenskum stjórnvöldum — og þar með auknu réttar-
öryggi og meiri hagkvæmni í íslenskri stjórnsýslu.
181