Tímarit lögfræðinga - 01.09.2003, Side 81
12. KRÖFUHAFASKIPTI
12.1 Framsal réttinda
í 12. og 13. gr. eru reglur um kröfuhafaskipti en ekki er að finna sérstakar
reglur um skuldaraskipti í lögum nr. 43/2000. Akvæði 12. gr. fjallar um framsal
kröfuréttinda (kröfuhafaskipti). í fyrri málsgreininni ræðir um réttarsamband
framseljanda og framsalshafa, en í þeirri síðari um samband framsalshafa og
skuldara. Rétt er að taka fram að skilyrði fyrir beitingu reglunnar er að framsal
hafi átt sér stað með samningi. Þó er ekki skilyrði að krafan sem framseld er hafi
stofnast með samningi. Krafan getur átt rætur sínar að rekja til lagafyrirmæla
eða stofnast vegna skaðabótaábyrgðar utan samninga.202
í 1. mgr. 12. gr. er kveðið svo á að um gagnkvæmar skyldur framseljanda og
framsalshafa í samningi sem felur í sér framsal réttinda gagnvart þriðja manni
(skuldara) gildi lög þess lands sem samkvæmt lögunum eigi við um samning
milli framseljanda og framsalshafa. Augljóst þykir að um samband framseljanda
og framsalshafa tiltekinna réttinda fari samkvæmt þeim lögum sem gilda um
framsalssamninginn.203 Leiðir reglan til þess að um réttarsamband framseljanda
og framsalshafa fer eftir þeim lögum sem gilda um framsalssamninginn sem
slíkan, þ.e. almennum reglum 3. og 4. gr.204 Um samning framseljanda og fram-
salshafa er því dæmt sjálfstætt og án tengsla við þær reglur sem gilda um réttar-
samband framseljanda og skuldara. Af þessu leiðir að þau lög, sem gilda um
réttarsamband framseljanda og framsalshafa, þurfa engan veginn að vera þau
sömu og gilda um réttarsamband framseljanda og skuldara.205
í 2. mgr. 12. gr. segir að um heimild til framsals, samband framsalshafa og
þriðja manns, skilyrði þess að á framsali verði byggt gagnvart þriðja manni og
um öll álitaefni um það hvort skyldur skuldara séu enn til staðar gildi lög þess
lands sem eiga við um réttindi þau sem framseld eru. Reglan felur samkvæmt
þessu í sér að lögum sem gilda um framseld réttindi ber einnig að beita varðandi
heimildir til framsals; um sambandið milli framsalshafa og skuldara; um skilyrði
þess að framsalinu verði beitt gagnvart skuldara og um sérhvert álitaefni varð-
andi það hvort skuldari hafi verið leystur undan skuldbindingu sinni. Orðalagið
„skilyrði þess að framsalinu verði beitt gagnvart skuldara“ nær jafnt til skilyrða
sem kunna að vera sett fyrir því að réttindin verði framseld, sem og þeirra form-
reglna sem nauðsynlegt er að fylgja til að framsalið gildi gagnvart skuldara.206
202 Sjá t.d. Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 708; Peter Arnt Nielsen: Intemational privat- og
procesret, bls. 526; Allan Philip: EU-IP, bls. 174; Torben Svenné Schmidt: Intemational for-
mueret, bls. 252 og Lennart Pálsson: Romkonventionen, bls. 104.
203 Sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 708 og Mario Giuiiano & Paul Lagarde: OJ 1980 C 282,
bls. 33.
204 Því má halda fram að regla þessi sé óþörf, enda segir hún ekki annað en það að lögin gildi um
samninga um framsal krafna.
205 Sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 708.
206 Sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 709 og Mario Giuliano & Paul Lagarde: OJ 1980 C 282,
bls. 34.
189