Hugur - 01.01.1995, Page 27
HUGUR
Gildi, boð og ástæður
X
25
Víkjandi boð og ríkjandi
Þótt Vilhjálmur fari ekki rétt með verkhyggjuna um boð—þá
kenningu að vilja eða þörf þurfi til að við höfum ástæðu til að breyta
eftir boðum—þá bregður hann fyrir sig einum rökum sem virðast
duga vel gegn henni. Nú komum við að kenningu Kants um
skilyrðislausa skyldu, því þessi rök sækir Vilhjálmur til
Wittgensteins og Wittgenstein til Kants.19 En ég bið lesandann að
taka eftir því að fyrst í stað hef ég áhuga á sjónarmiðum
Wittgensteins og Kants hér vegna þess eins að þau eru stofn í mótrök
gegn því sem ég hef verið að segja um vilja, þörf og ástæður.20
Wittgenstein tekur dæmi af tvenns konar boðum:
Þú átt að spila betri tennis!
og
Þú átt ekki að ljúga svívirðilega!
Með orðalagi þeirra Wittgensteins og Kants er fyrra boðið
skilorðsbundið, og hið síðara skilyrðislaust, vegna þess að í fyrra
dæminu er
Ég hef engan áhuga á að gera betur
gild afsökun en ekki í hinu síðara. Ég kýs að segja að fyrra boðið sé
víkjandi, hitt ríkjandip- * Fyrra boðið víkur ef enginn áhugi er á að
fylgja því. Síðara boðið stendur hver sem áhuginn er á því.
Tökum nú eftir því að í tennis er kostur á öðrum dómum en þeim
gildisdómum að vel eða illa sé spilað. Þar er nefnílega kostur á
úrskurðum dómara sem dæmir leikinn. Dómarinn fellir úrskurði um
brot á reglum. Svoleiðis dómur jafngildir boðinu
Þetta á ekki að gera!
19 „Um gæði og siðgæði", 27.
20 Um Kant í þessu samhengi sjá ritgerðir Philippu Foot „Morality as a System of
Hypothetical Imperatives" og „A Reply to Professor Frankena" í Virtues and
Vices, 157-180. „Fyrirlestur um siðfræði" eftir Ludwig Wittgenstein er prentaður
í Heimspeki á tuttugust öld, 49-57, í þýðingu Þorsteins Gylfasonar.
21 Þessi nýbreytni í orðalagi skiptir máli eins og kemur fljótlega í ljós. Um
orðalagsvandann sjá Foot: „A Reply to Professor Frankena".