Hugur - 01.01.1995, Blaðsíða 72
70
John R. Searle
HUGUR
tölva getur búið yfír séu nákvæmlega samskonar og hjá mönnum.
Mér líkar vel hvað þessi fullyrðing er afdráttarlaus, og það eru svona
fullyrðingar sem ég mun fjalla um. Ég mun færa rök fyrir því að
forrituð tölva skilji, í bókstaflegri merkingu þess orðs, jafn mikið og
bílar og samlagningarvélar, nefnilega alls ekki neitt. Skilningur
tölvunnar er ekki bara lítilsháttar skilningur (eins og minn skilningur
á þýsku); hann er núll.
Snúum okkur nú að andmælunum:
1. Kerfisrökin (Berkeley).
„Þótt það sé rétt að maðurinn sem er Iokaður inni í herberginu skilji
ekki söguna, þá ber að hyggja að því áð hann er einungis hluti af
stærra kerfi, og kerfíð skilur söguna. Maðurinn hefur stóra bók fyrir
framan sig þar sem reglurnar eru skráðar, hann hefur rissblöð og
blýant fyrir útreikninga og hann hefur „upplýsingabanka“ með
kínverskum táknum. Það er því ekki verið að eigna einstaklingnum
skilning, heldur öllu kerfínu sem hann er bara hluti af.“
Svar mitt við kerfiskenningunni er sáraeinfalt: Gerum ráð fyrir að
maðurinn innbyrði alla þessa þætti kerfisins. Hann man reglurnar í
bókinni og öll kínversku táknin, og hann gerir alla útreikninga í
huganum. Maðurinn innbyrðir þannig gjörvallt kerfið, það er hreint
ekkert við kerfið sem hann hefur ekki. Það má jafnvel kasta
herberginu og gera ráð fyrir að hann sé á víðavangi. Og allt er við það
sama, hann skilur enga kínversku og sama máli gegnir um kerfið því
kerfið hefur ekkert umfram manninn. Ef hann skilur ekkert, þá er
engin möguleiki á að kerfið skilji neitt, því kerfið er bara hluti af
honum.
I raun finnst mér hálf skammarlegt að svara kerfiskenningunni
jafnvel á þennan hátt, mér virðist kenningin svo vonlaus frá upphafi.
Hugmyndin er sú að þótt maðurinn skilji ekki kínversku, þá geti hann
ásamt slatta af pappír skilið kínversku. Ekki er auðvelt að gera sér í
hugarlund hvernig einhverjum, sem ekki er blindaður af hugmynda-
fræði, gæti yfirleitt fundist slík kenning sennileg. Og þó held ég að
margir þeirra sem hafa ánetjast hugmyndaheimi róttækrar gervigreindar
geti á endanum sagt eitthvað þessu líkt. Rekjum því málið ögn frekar.
Ein útgáfa af þessari hugmynd gerir ráð fyrir því, að þótt maðurinn
sem hefur innbyrt kerfið skilji ekki kínversku á sama hátt og