Hugur - 01.01.1995, Síða 33
HUGUR
Gildi, boð og ástœður
31
en ekki þegar maðurinn þinn heldur fram hjá þér. Það sem er
athyglisvert um siðferðið er það að þessar undantekningar eru inn-
byggðar í það. Það er til dæmis siðferðilega réttlœtanlegt að segja
ósatt til að halda trúnað. Það er aldrei löglegt að brjóta lög, og það er
aldrei kurteisi að brjóta kurteisisreglu, þótt hvorttveggja geti verið
fyllilega réttlætanlegt. Þótt það geti verið réttlætanlegt að keyra með
120 km hraða eftir Hringbrautinni er það lögbrot, og þótt það kunni
að ver réttlætanlegt að móðga mann er það ókurteisi. En ef ég segi
illa förnum sjúklingi að hann líti vel út til að stappa í hann stálinu,
þá getur ósannsöglin verið réttlætanleg og þar með siðleg.
Að því leyti sem undantekningarnar eru innbyggðar í siðferðið
getum við kannski sagt að flóknar siðareglur—siðareglur með öllum
undantekningum—séu ófrávíkjanlegar og þar með algildar. Hitt er svo
mikill vandi nákvæmlega hverjar þessar flóknu siðareglur eru, eða
hvort nokkur kostur er á að grafast fyrir um þær.27
XVI
Algildi og afstœði
Siðaboð kunna þá að vera algild að þrennu leyti að minnsta kosti. Þau
eru ríkjandi en ekki víkjandi eins og lög, mannasiðir og leikreglur eru
líka. Þau eru lítt breytileg í tíma og rúmi, skulum við segja, sem lög,
mannasiðir og leikreglur eru ekki. Loks eru sum þeirra ófrávíkjanleg,
og hugsanlega öll ef þau eru nógu margbrotin. En siðferði er ekki
skilyrðislaust, og þar með er það ekki algilt í skilningi Kants.
Hvað er þá afstætt í siðferði? Það eru ástæður til breytni. Maður
hefur ekki aðrar ástæður til breytni en markmið sín, það sem hann
þarfnast og það sem hann vill. Það virðast ekki vera til neinar algildar
ástæður til breytni.
Háskóla íslands
í janúar 1994 ogfebrúar 1995.
27 Sjá Mikael Karlsson: „Meinbugur á rökleiðslu frá alhæfum forskriftum til
sérhæfra". Þar efast Mikael um að það sé yfirhöfuð möguleiki að setja fram
undantekningarlausar siðareglur cða lagareglur.