Hugur - 01.01.1995, Page 66
HUGUR 7. ÁR, 1994-1995
s. 64-86
John R. Searle
Hugur, heili og forrit*
Hvaða þýðingu fyrir sálfræði og heimspeki skyldu nýlegar tilraunir til
að líkja eftir sálargáfum manna með tölvum hafa? Til að svara þessari
spurningu vil ég byrja á að gera greinarmun á „róttækri“ gervigreind
og „hófsamri“ eða „varfærinni“ gervigreind. Samkvæmt hófsamri
gervigreind er megingildi tölva í rannsóknum á mannshuganum fólgið
í því að þær eru gífurlega öflug tæki. Þær gera okkur til dæmis kleift
að setja fram og prófa kenningar með nákvæmari og hnitmiðaðri
hætti. En samkvæmt róttækri gervigreind eru tölvur ekki bara tæki til
að rannsaka mannshugann; tölva sem er forrituð á réttan hátt er hugur,
í þeim skilningi að sé hún búin réttu forriti þá býr hún yfir
raunverulegum skilningi og vitsmunum. Samkvæmt róttækri
gervigreind getur forrituð tölva haft vit og þess vegna eru forritin ekki
bara tæki sem gera okkur kleift að prófa sálfræðilegar skýringar,
heldur eru sjálf forritin skýring.
Ég hef ekkert við hófsama gervigreind að athuga, að minnsta kosti
ekki í þessari grein. Hér mun ég beina spjótum mínum að þeim
fullyrðingum sem ég hef eignað róttækri gervigreind, einkum því að
rétt forrituð tölva hafi raunverulegt vit og að forrit skýri þannig
mannlega vitsmuni. Þegar ég tala um gervigreind hér á eftir á ég við
róttæku útgáfuna eins og hún birtist í þessum tveimur fullyrðingum.
Ég mun skoða verk Rogers Schank og samstarfsmanna hans við
Yale háskóla vegna þess að ég er kunnari þeim en nokkrum öðrum
sambærilegum verkum og vegna þess að þau eru ákaflega skýrt dæmi
um verk af því tagi sem ég vil skoða.* 1 En ekkert af því sem á eftir
kemur veltur á smáatriðum í forritum Schanks. Sömu rök ættu við
* „Minds, Brains, and Programs" birtist upphaflega í The Behavioral and Brain
Sciences, 3. hefti, 1980. íslensk þýðing er hér birt með góðfúslegu leyfi höfundar
og útgefenda. Við þýðinguna hef ég notið aðstoðar Einars Loga Vignissonar, Atla
Harðarsonar, Mikaels M. Karlssonar og Skúla Sigurðssonar sem las þýðinguna af
mikilli nákvæmni. (Þýð.)
1 Schank, R. og R. P. Abelson. 1977. Scripls, Plans, Goals and Understanding. New
York, Academic Pr.