Hugur - 01.01.1995, Page 89
HUGUR 7. ÁR, 1994-1995
s. 87-114
Atli Harðarson
Vélmenni*
1. Kafli: Kenning Alans Turing
Árið 1950 birtist grein eftir Alan Turing í enska heimspekitímaritinu
Mind. Greinin heitir „Computing Machinery and Intelligence". Það
mætti kalla hana „Reikniverk og vitsmuni" á íslensku. í þessari grein
veltir Turing því fyrir sér hvort hægt sé að forrita tölvu þannig að hún
fái mannsvit. Hann ræðir ýmis hugsanleg rök gegn þessari kenningu,
hafnar þeim öllum og stingur upp á aðferð til að skera úr um hvort
tölva geti hugsað eins og maður. Aðferðin er fólgin í því að láta
vélina gangast undir próf, þar sem hún er lokuð inni í einu herbergi
og maður inni í öðru. Prófdómarar skrifast svo á við manninn og
tölvuna. Þeir mega fltja upp á hvaða umræðuefni sem er. Takist þeim
ævinlega að finna út hvort er maðurinn þá hefur tölvan fallið á
prófinu. Takist prófdómurunum þetta ekki þá hefur tölvan staðist
prófið og þá er, að áliti Turing, engin ástæða til að ætla henni minna
vit, eða minni andlega hæfileika, en manninum. Svona próf er kallað
Turingpróf. Þótt til séu forrit sem halda uppi eðlilegum samræðum í
smástund, og standast prófið ef prófdómurunum er gefinn nógu stuttur
tími, vantar enn mikið á að tekist hafi að forrita tölvur þannig að þær
geti spjallað tímunum saman um alla heima og geima eins og menn
gera.
Kenningu Alans Turing í greininni um reikniverk og vitsmuni má
hluta sundur í tvennt:
a) Annars vegar taldi hann mögulegt að forrita tölvu þannig að
hún standist Turingpróf.
* Þessi ritgerð hefur verið nokkuð lengi í smíðum. Kristján Kristjánsson
heimspekingur Ias eitt uppkast hennar og lagði til góð ráð. Þann 2. október 1994
las ég hluta hennar á fundi hjá Félagi áhugamanna um heimspeki og fékk nokkrar
gagnlegar athugasemdir og ábendingar utan úr sal. Eftir það lásu Ólafur Páll
Jónsson heimspekingur, Jörgen Pind sálfræðingur og Skúli Sigurðsson
sagnfræðingur textann vandlega og bentu mér á ýmislegt sem betur mátti fara.