Hugur - 01.01.1995, Síða 109
HUGUR
Vélmenni
107
að láta tölvu herma eftir málskilningi og vitsmunum manna. En af
þessari rökfærslu dregur hann þá ályktun að tölva sem þetta gerir
skilji ekki neitt, hún láti bara sem hún skilji. Skilningur hennar sé
ekki raunverulegur heldur bara eftirlíking. Hann hafnar semsagt þeirri
kenningu Turings að tölva sem stenst Turingpróf geti verið gædd
raunverulegum skilningi og raunverulegum vitsmunum og segir að
svona eftirlíking af skilningi sé ekki raunverulegur skilningur neitt
frekar en hermilíkan af slagveðri sé raunverulegt slagveður.
Searle telur að maðurinn í kfnverska herberginu skilji ekki
kínversku og að tölva geti aldrei skilið mál eða hugsanir vegna þess
að gögn, eða munstur, sem unnið er með eftir formlegum reglum,
eins og þeim sem maðurinn í kínverska herberginu og tölvur fylgja,
hafa eingöngu form (syntax) en ekki neina merkingu (semantík), þau
séu teikn en ekki tákn svo notað sé orðalag Þorsteins Gylfasonar.26
Þau eru ekki um neitt, vísa ekki á neitt. Fyrir tölvunni og manninum
í kínverska herberginu eru engin tengsl milli táknsins fyrir hund og
hunda. Táknið er bara strik og deplar en kemur hundum ekkert við.
Fyrir þeim sem getur hugsað í raun og veru hefur táknið hins vegar
merkingu. Það eitt að færa munstur (eða aðra hluti) til eftir
formlegum reglum getur, að áliti Searle, ekki gefið þeim merkingu
eða látið þau vera um eitthvað eða vísa á eitthvað.
Rök Searle virðast við fyrstu sýn ósköp einföld. En þau tengjast þó
ýmsum flóknum frumspekilegum vandamálum, ekki síst erfiðri gátu
sem John Locke glímdi manna fyrstur við, svo ég viti, og má orða
einhvern veginn svona: Þegar ég segi setningu hvað þarf ég þá að
gera, annað en að hreyfa talfærin, til að ég meini eitthvað með henni?
Svarið sem Locke gaf er á þá leið að ég þurfi að tengja orðin við
hugmyndir eða endurskin af reynslu í huga mér. Eitt merkasta
viðfangsefni heimspekinga á 20. öld hefur verið að skrifa neðanmáls-
greinar við þetta svar Lockes.
Hér er ekki rúm til að gera grein fyrir heimspeki máls og merkingar
eins og hún hefur þróast á þessari öld svo ég sný mér aftur að Searle.
Hann gerir ráð fyrir að hægt sé að orða leiðbeiningar á ensku um
hvernig svara skuli spurningum á kínversku án þess að þær innihaldi
neinar upplýsingar um merkingu kínverskra orða. Þetta stenst ekki.
26 Sjá Þorsteinn Gylfason 1985. Svipuð andmæli gegn kenningu Turing má finna í
Singh 1966 bls. 198 -200.