Hugur - 01.01.1995, Page 123
HUGUR
Jörgen Pind
121
var þekkt af rannsóknum sálfræðinga og hafði fengið heiti á borð við
„tilbúnað" (set) og innsæi. Tilbúnaður er skýrt sem vanabundin
hneigð til að svara á einhvern tiltekinn hátt, og getur oft hamlað því
að fólk finni lausn á viðfangsefnum sínum. Að mati Newells og
félaga verður nákvæmlega sömu hegðunar vart hjá Rökfrœðingnum,
hann notar þær aðferðir sem hann ræður yfir í ákveðinni röð og tæmir
möguleika hverrar aðferðar áður en aðrar eru reyndar.
Þetta svipmót í hegðun manns og tölvu höfðu Newell og Simon
til marks um að þeir væru á réttri braut. f þeirra huga lék aldrei neinn
vafí á því að réttast væri að byggja forritunina á nákvæmri könnun á
mannlegri hegðun. Þetta varð enn frekar áberandi í síðari rannsóknum
þeirra sem birtust í bókinni Human Problem Solving árið 1972. Þar
er að finna greinargerð um forrit (þrautakónginn, General Problem
Solver) sem byggt var á nákvæmri könnun á „hugsanaklöddum"
(verbal protocols) frá þátttakendum í margvíslegum sálfræðitilraunum.
Efnisleg táknkerfi
Sú gervigreind sem Newell og Simon urðu einna fyrstir til að þróa
fékk síðar viðurnefnið „gamaldags gervigreind“ (GOFAI - Good Old
Fashioned AI) (Haugeland 1985). Að baki kenningum í gamaldags
gervigreind býr ákveðin sýn á eðli vitsmuna og enn voru það Newell
og Simon sem urðu til þess að skilgreina þessa sýn (Newell og
Simon 1976).
Meginhugmynd þeirra snýst um efnisleg táknkerfi og þeir staðhæfa
að efnisleg táknkerfi gegni sama hlutverki innan gervigreindar og
landrekskenningin í jarðfræði, frumukenningin í líffræði og
bakteríukenningin í læknisfræði.
Tákn verða á vegi okkar á hverjum degi og hæfileikum
mannshugans til táknunar virðast lítil takmörk sett. Táknkerfi eru
margvísleg. Tvö þeirra eru kannski öðrum mikilvægari, tákn talna í
talnakerfi og tákn málhljóða í ritkerfum tungumála.
Flest táknkerfí eru með þeim hætti að samband tákns og táknmiðs,
þ.e. hins táknaða, ræðst einvörðungu af hefð, ekki af eiginleikum
táknsins eða svipmóti þess og táknmiðsins. Þetta er t.d. ein ástæða
þess að tákna má tölur með margvíslegum hætti, svo sem með
rómverskum tölum