Hugur - 01.01.1995, Page 131
HUGUR
Jörgen Pind
129
óljósa tilvist í lífheimi. Allan Newell var ófeiminn við að viðurkenna
þetta og lætur t.d. að því liggja á einum stað að maðurinn sé jafnvel
eina lífveran sem sé viti borin:
Fyrirbæri hugans hafa sprottið úr flóknum ferlum efnisheimsins og
er með sláandi hætti að finna í okkur mannfólki og þó hugsanlega
víðar (Newell 1980, bls. 138).
í einni af síðustu greinum sínum er hann langtum afdráttarlausari
og dregur skörp skil manna og dýra, svipað reyndar og Descartes
(1637/1991) mörgum öldum fyrr:
Greind einkennir þann hátt sem menn hafa við að leysa úr verkefnum
[...] Andstæða þess eru önnur kerfi - dýr, dúkkuhöfuð eða hvaðeina -
sem búa alls ekki yfir þessum eiginleika og geta því ekki sýnt
vitræna hegðun (intelligent behavior) (Newell, Young og Polk,
1993, bls. 39).
Jafnframt hefur Newell ætíð haldið því fram að gæða megi tölvur
sams konar viti og prýðir mannfólkið. Því er ekki að neita að þessi
kenning hefur farið fyrir brjóstið á mörgum sem vonlegt er. Á allra
síðustu árum hefur áhrifa Darwinisma tekið að gæta á ný innan
sálfræðinnar, þ.á m. í hugfræði (Barkow, Cosmides og Tooby 1992;
Pinker 1994), og að sama skapi hefur áhugi á „líffræðilega
trúverðugum“ kenningum aukist. Þetta er vafalítið ein ástæða þess að
nethyggja hefur á ný haldið innreið sfna í gervigreind og sálfræði
(Brooks 1991; Quinlan 1991) og efnisleg táknkerfi hafa látið undan
siga nema þá helst í rannsóknum á „æðri hugarstarfsemi“,
viðfangsefnum eins og rökhugsun (Johnson-Laird, 1993).
Nethyggjan á sér reyndar margvíslegar rætur, bæði nýjar og gamlar.
Að sumu leyti er nethyggjan angi af meiði tengslahyggjunnar sem
hefur skipt sköpum fyrir sálfræði (James 1890) og hugarheimspeki
undanfarinna alda. Þó eru öllu athyglisverðari þær rætur sem nær
liggja, t.d í verkum kanadíska sálfræðingsins Donald O. Hebbs (1949)
um nám í tauganetum þar sem reynt er að byggja sálfræðilega
kenningasmíði á taugafræðilegum grunni. Hebb setti sér það markmið
að skýra nám og skynjun með eiginleikum taugafrumna, nánar
tiltekið með kenningu um það hvernig samspili taugafrumna væri
háttað.