Búfræðingurinn - 01.10.1951, Blaðsíða 145
BÚFRÆÐINGURINN
143
Landbúnaðurinn þarf fleiri bændur, og bændaefnin eru til.
Á hverju ári vaxa upp í sveitunum ungir menn og ungar kon-
ur, sem fara út í buskann, vegna þess að hæfilegt jarðnæði er
ekki fyrir liendi handa þeim, og þau skortir fjármagn til þess
að reisa bú. Löndin eru til, en þau eru í eigu annarra, sem nota
þau misjafnlega, og mörg jörðin, sem er í eigu þess opinbera, er
illa setin og niðurnídd. Nýbýlastjórn ríkisins þarf að hafa
heimild til að taka þessi lönd og skipta þeim niður í býli, milli
þeirra, sem vantar jarðnæði. Og ríkisvaldið þarf að styðja þá
meira en er, til þess að hefja búskapinn. Hver ungur maður,
sem helgar sig landbúnaðinum, er dýrmæt eign framtíðar-
innar.
Allar þjóðir heims eru sammála um, að nauðsyn beri til þess
að auka framleiðslu landbúnaðaráfurða. íslendinga vantar líka
mat, mjólkina, smjörið og kjötið, fyrr en varir. Þetta er afar
auðvelt að framleiða hér, ef þjóðin vill. Ef þeir tímar kæmu,
að þjóðin yrði svöng, sem óskandi er, að ekki verði, mundi hún
sjá, að landbúnaður, rekinn með beztu tækjum, er árvissasta
og hollasta forðabúr landsins. Hann er hyrningarsteinn þjóð-
arinnar. — Bóndinn íslenzki varðveitir íslendingseðlið, sem
við fengum með landnemum fornaldarinnar. Hann stjórnar
sjálfur, þolir illa yfirráð. Kýs athafnafrelsi og umráð yfir sínu,
laus við alla múgmennsku. Stjórnast af sínum eigin hugmynd-
um og vinnur af eigin þörf. Hann er sinnar eigin gæfu smiður.
— Þess vegna ættu sem flestir að fylkja sér undir merki land-
búnaðarins, stunda hann af alúð, og láta sér þykja vænt um
hann. Hann er færari en aðrir atvinnuvegir um það, að veita
nýju, hraustu blóði í æðar þjóðarinnar.
Bjarni Halldórsson.