Birtingur - 01.01.1957, Síða 10
Tristan Tzara er fæddur í Rúmeníu árið
1896, en hefur lengst af verið í Frakklandi.
Þegar heimsstyrjöldin fyrri var í
algleymingi, kom upp ný listastefna, sem
kosið var nafnið Dada. Þessi hreyfing leysti
menn úr viðjum úrkynjunar í list, hún var
andóf gegn vanabundnum hugmyndum
borgaranna, andóf gegn stríðinu, árás á
tunguna eða þau orð sem hljómuðu falskt í
stríðsóðri veröld. Og listamenn tóku við
sér, nýtt fjör færðist í þá, þeir héldu
ósmeykir út á víðáttur mannshugans, eins
langt og þeir komust. Of langt? Hver veit.
Eftir nokkur ár hafði dadaisminn að vísu
runnið skeið sitt, en byltingin hélt áfram.
Súrrealisminn tók við. Nöfn ýmissa skálda
eru tengd báðum þessum stefnum. Menn
byrjuðu á dada, urðu súrrealistar og
héldu út úr súrrealismanum. Tristan Tzara
er nefndur upphafsmaður dadaismans,
og í bók einni segir að dada hafi fæðzt
af vörum hans í kaffihúsinu Cabaret Voltaire
í Zurieh í Sviss árið 1916.
Dadaisminn var upphafið að þeirri
endurnýjun ljóðlistar sem síðar varð, þegar
súrrealisminn kom til skjalanna. Þessar
stefnur báðar eru lítt kunnar íslendingum.
Jónas E. Svafár er ef til vill það íslenzkt
ljóðskáld, sem stendur næst dada, engu
líkara en hann hafi á þessum rótleysisárum
íslandssögunnar fundið þörfina á að
ómerkja hátíðleikann, á sama hátt og
Tristan Tzara og félagar hans í Zurich árið
1916, þegar enn varð ekki séð fyrir
endann á heimsstyrjöldinni fyrri, en hvorki
þá né nú skorti hátíðleg orð, sem áður
höfðu verið fersk, en voru ekki orðin annað en
tæki til að sljóvga mannfólkið, sefja,
viðhalda blekkingu. Ljóð það eftir Tzara,
sem hér birtist á íslenzku, er frá árinu 1923, úr De Nos Oiseaux. J. 0.
2