Birtingur - 01.01.1957, Qupperneq 88
Gunnar Ragnarsson:
Um heimsfræði og heimspeki dr. Helga Péturs
Heimspeki í víðtækustu merkingu mætti
kalla tilraun mannsins til að gera sér grein
fyrir heiminum og stöðu sinni í honum.
Margar slíkar tilraunir hafa verið gerðar og
menn ekki verið á eitt sáttir, hvernig
túlka skuli heiminn. Ef spurt er: Hver er
hin rétta túlkun, hin sanna heimspeki?, má
svara á þá leið, að engin ein túlkun — eða
með öðrum orðum ekkert eitt heimspekikerfi
— sé fullkomlega rétt, heldur sé hér um
að ræða mismunandi vel — eða illa —
heppnaðar tilraunir. Við gerum yf irleitt ráð
fyrir, að mannkyninu sé að fara fram í
þekkingu, og nútímamaðurinn er sannfærður
um, að hugmyndir hans um heiminn séu
sannari og réttari en hugmyndir forfeðra
hans fyrir mörgum öldum. Hinar stórstígu
framfarir í náttúruvísindunum, sem hófust
í upphafi hinnar svokölluðu nýju aldar, hafa
smátt og smátt verið að innræta þetta
viðhorf. Og á því er heldur enginn vafi, að
þekkingarmöguleikar náttúnivísindanna
jukust stórkostlega, er menn höfðu orðið
ásáttir um rannsóknaraðferð.Er hér átt
við athugunar- og tilraunaaðferðina, sem allir
vísindamenn eru nú sammála um, að sé
hin eina rétta aðferð, eigi örugg þekking að
fást. Vísindamenn viðurkenna ekki aðrar
staðhæfingar en þær, sem fengnar eru með
ákveðinni viðurkenndri aðferð. Ekki er
heldur nokkur tilgáta talin vísindaleg, nema
mögulegt sé að sannprófa hana með
athugunum og tilraunum. Er það verkefni
fyrir rökfræðinga að rannsaka, hvaða
skilyrðum tilgáta þarf að fullnægja, svo að
hún geti talizt réttmæt vísindaleg tilgáta.
Þetta er mjög flókið mál, og ætla ég ekki að
gera því skil í einstökum atriðum, en
aðeins benda á nokkur grundvallareinkenni,
sem tilgáta verður að hafa til þess að
eiga vísindalegan rétt á sér. I fyrsta lagi má
tilgátan að sjálfsögðu ekki fela í sér
mótsögn. 1 öðru lagi verður hún að vera þess
eðlis, að mögulegt sé að gera athuganir,
er staðfesti hana eða hreki. Eða með öðrum
orðum: Reynsla vísindamanna í ákveðinni
grein á grundvelli sameiginlegrar aðferðar
er endanlegur mælikvarði á réttmæti
tilgátunnar. I þriðja lagi verður tilgátan að
skýra þau fyrirbæri, sem henni er ætlað
að skýra, betur en nokkur önnur tilgáta,
sem til greina kemur.
Hér hefur verið drepið lítið eitt á
vísindalegar tilgátur og lögð áherzla á,
að vísindamenn, hver í sinni grein, eru yfirleitt
sammála um, hvað sé leyfileg tilgáta í þeirra
grein, og allir sammála um hinn endanlega
mælikvarða á hana, sem sé athuganir og
tilraunir, er skera úr um gildi hennar. — En
nú ætla ég að innleiða orðin heimspekileg
tilgáta í þeirri merkinu, sem nú skal
greint: Heimspekileg tilgáta er tilgáta um
skýringu þeirra hliða veruleikans eða
reynslunnar, sem hin einstöku vísindi ná
ekki til með rannsóknartækjum sínum og
aðferð. Heimspekileg tilgáta er nokkurs konar
greinargerð fyrir veruleikanum í heild,
eða allri mannlegri reynslu, en takmarkast
ekki við eitt rannsóknarsvæði frá ákveðnu
sjónarmiði, eins og t. d. eðlis- og efnafræði
sem rannsaka efnisheiminn hvor frá sínu
takmarkaða sjónarmiði.
74