Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1983, Blaðsíða 176
174
Flugur
séð en tvær framgómunarreglur séu að verki í íslensku; en vegna þess
að þær verka að jafnaði í sama umhverfi verðum við yfirleitt ekki vör
við áhrif nema annarrar þeirra (þeirrar sem sýnd er í (1)), því að hún
yfirgnæfir hina. Það er ekki nema undir sérstökum kringumstæðum eins
og þeim sem lýst var hér að framan sem hin kemur fram. Eðlilegt er að
telja þá fyrrnefndu (þá sem framgómar meira) hljóðkerfisreglu, en
hina hljóðfræðilega reglu í skilningi Andersons (1975; sjá líka
Eiríkur Rögnvaldsson 1981:27).
En um leið og við gerum þennan mun á tvenns konar framgómun
verður ekki betur séð en við losnum við ýmis vandamál í sambandi við
hina „hefðbundnu" (hljóðkerfislegu) framgómunarreglu. Þau felast
einkum í því, að hún virðist að sumu leyti vera „hljóðfræðilega eðlileg“,
því að einhver framgómun uppgómmæltra lokhljóða á undan frammælt-
um sérhljóðum er ákaflega algeng í málum heimsins; en talsvert vantar
þó á fullkominn „eðlileik“, því að reglan verkar ekki á undan fram-
mæltu hljóðunum [y] og [ö], en verkar hins vegar á undan [ai], sem
ekki er frammælt (sjá t. d. Kristján Árnason 1978). En hljóðkerfisreglur
þurfa ekki endilega að vera hljóðfræðilega eðlilegar (sjá Anderson
1981:511-512).
Hér höfum við athyglisvert dæmi um hvernig hljóðfræðilega eðlilegt
ferli hættir að vera hljóðfræðilega eðlilegt vegna hljóðbreytinga (í þessu
tilviki breytinga á sérhljóðakerfinu), en þau víxl sem þetta ferli olli
haldast áfram sem hljóðkerfisleg víxl. í þessu tilviki kom líka til
samfall við sambönd /k + j/ og /g + j/, sem hefur valdið því að fram-
gómunin í íslensku varð meiri en ella, og meiri en í skyldum málum (sjá
Anderson 1974:9). En hin upphaflega hljóðfræðilega ástæða þessara
víxla er enn fyrir hendi í málinu, og heldur áfram að framgóma lok-
hljóð, þótt í minna mæli sé, eins og sýnt var hér að framan.
HEIMILDASKRÁ
Anderson, Stephen R. 1974. The Organization of Phonology. Academic Press, New
York.
—. 1975. On the Interaction of Phonological Rules of Various Types. Journal of
Linguistics 11:39-62.
— . 1981. Why Phonology Isn’t „Natural". Linguistic Inquiry 12:493-539.
Eiríkur Rögnvaldsson. 1981. U-hljóðvarp og önnur a—ö víxl í nútímaíslensku.
íslenskt mál 3:25-58.