Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1983, Blaðsíða 183
Flugur
181
hlíð (V, 191). Hins vegar veit ég engin dæmi um myndina völva í þjóð-
sögunum, sbr. registrið í VI. bindi.
Myndin valva hefur líka verið notuð á þessari öld. Eyjólfur Guð-
mundsson á Hvoli (1870-1954) notar hana á prenti og Halldór Ármann
Sigurðsson (viva voce 1983) kveðst þekkja myndina valva úr talmáli.
Af orðinu völva hefur æxlast tilbrigðið vala — völu o. s. frv. í seinni
alda máli. Það tilbrigði hefur greinilega aldrei verið útbreitt. Er alls
óvíst að það sé komið beint af fornu beygingunni eins og slanga, heldur
gæti nefnifallsmyndin vala verið leidd út á seinni öldum af aukafalls- og
fleirtölumyndum orðsins í elsta máli, sem menn hafa þekkt úr Snorra-
Eddu, og einkum úr heiti kvæðisins Völuspá. Guðmundur Andrésson
hefur myndina vala, og styðst þá við fleirtölumyndina völur í einhverri
gerð Snorra-Eddu og heitið Völuspá. Guðmundur Ólafsson virðist hins
vegar telja gömlu beyginguna vera vola — volu, og kvæðið nefnir hann
Voluspá, Völvuspá eða Völuspá, en segir að almennt (,,vulgo“) heiti
þetta völva. Jón Grunnvíkingur hefur myndina vala, en virðist leiða
hana af gömlu eignarfallsmyndinni völu. Árni Böðvarsson rímnaskáld
(1713-1776) notar svo myndina vala og fleiri skáld á eftir honum, og
henni bregður fyrir í lausu máli síðan á síðustu öld.
3.
Eins og sjá má af því sem hér hefur verið rakið er uppkoma myndar-
innar valva einn angi af tilhneigingu fáliðaðs og sérstæðs beygingar-
flokks til að aðlagast virkari beygingarmunstrum, tilhneigingu sem rekja
má til elstu stiga íslensks máls. Lítum nú aðeins nánar á forsendur
þeirrar aðlögunar sem felst í þessari mynd.
Eftir að orðið slanga — slöngu o. s. frv. hefur að mestu tekið sess
orðsins slöngva hefur völva að kalla má staðið eitt, því ekki hefur verið
mikil stoð í hinu sjaldgæfa tilbrigði slöngva — slöngvu. Myndin völva
hefur ekki heldur getað haft stuðning af almennum hljóðdreifingar-
munstrum. Ekki dugir að skírskota til w-hljóðvarps, því forsendur þess
„hljóðvarps" brustu á 14. öld eða þar um bil, þegar w-hljóðið var al-
mennt orðið tannvaramælt og fallið saman við hið raddaða allófón af
/ (sbr. Ásgeir Bl. Magnússon 1959:18-19). Eftir það gat málnotandinn
ekki greint neinn mun á v-hljóðinu í t. d. mölva og hins vegar í hvarfa
(seinna hljóðið), sem ákvarðað gæti hljóðgildi rótarsérhljóðsins.
Nú hefur orðið völva sjálfsagt verið alllítið notað þegar vegna þess að