Íslenzk tunga - 01.01.1959, Page 73
JÓN AÐALSTEINN JÓNSSON
Ágrip af sögu íslenzkrar stafsetningar
Oft hafa orðið miklar umræður um stafsetningu íslenzkrar tungu
síðustu 120 ár eða svo. Er það ofur eðlilegt, því að fæstum
stendur á sama um það, í hvers konar flikur þeir klæða orð sín og
hugsanir. Hins vegar hefur á stundum færzt meiri hiti í þær umræður
en æskilegt er og þess vegna orðið minni árangur af þeim en skyldi.
Einkum eru það tvö sjónarmið, sem menn hafa viljað miða stafsetn-
ingu við: framburður eða uppruni.
Segja má, að fimm sinnum hafi verið skipt um stafsetningu á
þessu tímabili, þó að þær breytingar hafi stundum verið fremur
smávægilegar. Tvisvar hefur verið reynt að koma á mjög róttækum
breytingum og miða þá við framburð, en ekki hefur slík stafsetning
átt almennu fylgi að fagna. Sú stafsetning, er nú gildir og við höfum
búið við síðustu 30 ár, er miðuð við uppruna, að svo miklu leyti sem
þess er kostur.
Hér á eftir mun ég freista þess að rekja helztu atriði úr sögu ís-
lenzkrar stafsetningar í trausti þess, að einhverjum lesendum þyki
nokkur fróðleikur í.
I
Þegar prentöld hófst hér á landi á 16. öld, varð að sjálfsögðu að
ákveða, hvernig letur skyldi nota og hvaða stafsetningu. Hefð var þá
komin á um rithótt handrita, og var þess vegna eðlilegt, að stafsetn-
ing prentaðra bóka yrði í samræmi við hana, enda varð sú raunin á.
Elzta prentuð bók íslenzk er Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar
frá 1540 (NT). Er stafsetning þess mjög svipuð og á handritum. Er
rétt að geta um helztu stafsetningaratriðin, enda má segja, að flest
þeirra haldist lítt breytt næstu tvær aldir eða langt fram á 18. öld.