Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2005, Síða 275
Hegðun fólks í bruna í veggöngum
Rannsóknir um hegðun fólks í neyð í göngum hafa leitt ýmislegt óvænt í ljós. Reynslan
hefur sýnt að efnað fólk á auðveldara með að yfirgefa eigur sínar og þar með forða sér
heldur en efnalítið fólk. Menning og lífsviðhorf fólks virðast skipta miklu máli. I holl-
enskri rannsókn (Day, 2002) kom í ljós að Bandaríkjamenn yfirgefa bíla sína mun fyrr í
neyð en Hollendingar. Hvernig bregðast íslenskir ökumenn við? Rannsóknin sýndi einn-
ig að það er stórt bil á milli þess sem fólk segir að það muni gera og hvað það gerir síðan
í raunveruleikanum. Fólk tekur einnig seint ákvörðun um að forða sér eða ekki fyrr en
ljóst er að mikil yfirvofandi hætta steðjar að. Talið er að þessa hegðun megi rekja til þess
að fólk vilji ekki sýnast óttaslegið og enginn þorir að taka af skarið. Nauðsynlegt er því
að skýr skilaboð, frá aðila sem fólk treystir, berist sem fyrst til fólks um að forða sér út
þegar í stað. Af þessum ástæðum íhuga Frakkar t.d. að kenna bílstjórum með aukin
ökuréttindi að hvetja fólk til að forða sér lendi þeir í gangabruna. Mörg dæmi eru til þar
sem fólk hefur látist í gangnabrunum vegna þess að það flúði ekki út á meðan það gat og
stundum hefur það snúið við til baka til að sækja verðmæti úr bílnum. í stuttu máli má
segja að raunveruleg reynsla sýni að fólk hegðar sér almennt ekki eins og hönnuðir ganga
reikna með, því:
• Fólk þekkir ekki mun á neyðarútgöngum, neyðarsímum og öðrum útskotum.
• Fólk veit ekki hvað það á að gera í hættuástandi.
• Sumir halda að þeir viti hvað þeir eigi að gera, 20% myndu bíða í bílnum (halda
að þeir séu öruggari inni í bílnum), 30% myndu reyna u-beygju eða reyna að
keyra áfram og 50% myndu bregðast rétt við, þ.e. leggja bílnum og reyna að forða
sér út um næsta neyðarútgang.
• Áður en fólk tekur ákvörðun um að yfirgefa bílana sína safnar það fyrst öllum
verðmætum saman og tekur með sér.
• Reynslan hefur sýnt að jafnvel þótt fólk upplifi mikið álag og yfirvofandi hættu
hefur það ekki dugað til þess koma af stað örvæntingu og skyndilegum flótta.
Af þessum sökum er mikilvægt að fræða ökumenn um það hvað þeir eigi að gera í hættu-
ástandi en einnig þurfa upplýsingar að berast frá aðilum sem ökumenn bera traust til um
hvað þeir eigi að gera (Noizet, A og Mourey, F. 2005). I þessu sambandi má einnig benda
á að vel þekkt er að „töluð skilaboð" um eld eru mun áhrifameiri en hefðbundin bruna-
bjölluhringing.
Hvað er til ráða?
Við brunahönnun á veggöngum er því nauðsynlegt að skoða ítarlega hvað það er sem
raunverulega getur gerst, hversu líklegt það sé og hverjar afleiðingarnar gætu orðið.
Niðurstöðuna þarf síðan að bera saman við fyrirfram ákveðin viðmiðunarmörk og sé
áhættan óviðunandi er ljóst að gera þarf breytingar á hönnun ganganna. Þessar breyt-
ingar gætu t.d. falið í sér öflugari reykblásara, takmörkun á umferð bifreiða sem flytja
hættulegan farm, styttra bili á milli neyðarútganga, björgunarskýli í göngum sem tengj-
ast neyðargöngum, styttri viðbragðstíma björgunaraðila, styttra bil á milli slökkvitækja,
setja brunaslöngukefli, slökkvikerfi, myndavélavöktunarkerfi o.s.frv. þangað til áhættan
mælist viðunandi. Kostnaðar-nytjagreining (Cost-Benefit) gæti einnig nýst til að meta
hagkvæmni mismunandi öryggisráðstafana. Hönnunarferlið fyrir veggöng gæti þá litið
út eins og mynd 4 sýnir.
Tækni- o g vísindagreinar i 2 7 3