Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Side 27
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 2014 27
Hanna RaGnaRsdóttiR
Menntavísindasviði Háskóla íslands
HildUR BlÖndal
Menntavísindasviði Háskóla íslands
Uppeldi og menntun
23. árgangur 1. hefti 2014
Fjölmenningarlegt námssamfélag:
Reynsla nemenda af alþjóðlegu námi
í menntunarfræði við Háskóla Íslands
Í greininni eru kynntar niðurstöður rannsóknar sem gerð var árið 2011 á áhrifum
náms sem byggt er upp og mótað á grunni gagnrýninnar uppeldisfræði og með útgangspunkt í
styrkleikum nemenda í fjölbreyttum alþjóðlegum hópi. Markmið rannsóknarinnar var að athuga
hvaða áhrif þátttaka í alþjóðlegu námi í menntunarfræði við Háskóla Íslands hefur haft á líf og
störf sjö nemenda af erlendum uppruna. Þátttakendur voru konur á aldrinum 23–46 ára sem
höfðu nýlokið alþjóðlegu námi í menntunarfræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið eða
voru langt komnar í náminu. Rannsóknin var tvíþætt: Nemendunum var annars vegar skipt í
tvo rýnihópa og hins vegar voru þeir beðnir um að skrifa frásögn um reynslu sína af náminu.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þátttakendur hafi upplifað valdeflingu í námi
sínu og fjölmenningarlegt námssamfélag í reynd. Konurnar lýstu því hvernig námið hefur gefið
þeim ný tækifæri, nýjar hugmyndir, opnað þeim nýjar leiðir og aukið sjálfstraust þeirra. Einnig
benda niðurstöðurnar til þess að hugmyndafræði námsleiðarinnar hafi skilað sér til þátttakenda.
Efnisorð: Gagnrýnin uppeldisfræði, alþjóðlegt nám í menntunarfræði, nemendur af
erlendum uppruna, valdefling, fjölmenningarleg námssamfélög
inngangUr
Með hnattvæðingu hefur hreyfanleiki fólks aukist og mörg samfélög eru menningar-
lega fjölbreyttari en fyrir nokkrum áratugum. Slíkum breytingum fylgja nýjar áskoranir
sem hafa mikil áhrif á líf fólks (Süssmuth, 2007) og ná ekki aðeins til þeirra sem sjálfir
eru virkir þátttakendur heldur líka þeirra sem aldrei færa sig um set (Suárez-Orozco
og Qin-Hillard, 2004). Þessar samfélagslegu breytingar eru hvetjandi fyrir mennta-
rannsóknir, þar sem hlutverk skóla tekur breytingum í takt við þá samfélagslegu
þróun sem á sér stað. Breytingarnar skapa tækifæri og nýjar rannsóknarhugmyndir,