Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Síða 38
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 201438
fjöLmenningarLegT námssamféLag
mikilvægara; maður öðlast þekkingu á sjálfum sér (staðalmyndir manns, áhyggjur,
ábyrgð og fleira) og þessi reynsla af því að skoða sjálfan sig í speglinum er auðvitað
ekki alltaf auðveld og skemmtileg, en mjög dýrmæt.
Vanda tók sterkt til orða þegar hún var spurð hvaða áhrif námið hafi haft á framtíðar-
áform hennar og svaraði „Þið getið ekki gert ykkur í hugarlund hvað þið hafið gefið
okkur!“
Eins og sjá má af þessari samantekt á helstu niðurstöðum lýsa þátttakendur nám-
inu sem umbreytandi og eflandi og telja reynslu sína af náminu almennt jákvæða þrátt
fyrir að áherslurnar í náminu hafi komið þeim mörgum á óvart í upphafi. Það að þær
eru tilbúnar til að mæla með náminu við aðra segir meira en mörg orð.
Í frásögnum viðmælenda má sjá skýr merki um þá gagnrýnu vitundarvakingu í
tengslum við menntun sem Freire (2007) lýsir en hún felur einmitt í sér að gera fólki
kleift að fjalla um og bregðast við áskorunum í umhverfi sínu. Valdefling viðmælenda
okkar nær svo sannarlega út fyrir skólastofuna, sem m.a. má sjá í frumkvæði sumra
þeirra við að efla og styrkja fjölbreytt móðurmál í gegnum stofnun formlegra samtaka.
Aðrir hafa valið að fara í frekara nám til þess að undirbúa sig enn frekar fyrir þátttöku
við uppbyggingu og breytingar á menntakerfi upprunalandsins.
UMrÆÐUr Og lOKaOrÐ
Í þessum hluta verða meginniðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman og gerð
grein fyrir helstu þemum auk þess að tengja frásagnir viðmælenda við þann hug-
myndafræðilega grunn sem námið byggir á og áður hefur verið fjallað um. Markmið
rannsóknarinnar var að athuga hvaða áhrif þátttaka í alþjóðlegu námi í menntunar-
fræði við Háskóla Íslands hefur haft á líf og störf sjö nemenda af erlendum uppruna.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að alþjóðlega námið hafi haft marg-
vísleg áhrif á þátttakendurna. Konurnar voru allar mjög ánægðar með að fá inngöngu
í námið og að hafa tækifæri til að stunda það á ensku. Fæstar þeirra hefðu treyst sér
í sambærilegt nám á íslensku að þeirra sögn. Skilbeck (2000) og Brennan og Naidoo
(2008) hafa eins og áður hefur komið fram lagt áherslu á mikilvægi þess að stuðla að
jafnrétti til náms, félagslegu réttlæti og lýðræði á háskólastigi ekki síður en öðrum
skólastigum. Mikilvægt er að gefa þessum atriðum gaum þegar fjallað er um aðgengi
að námi og mennastofnunum á Íslandi.
Konurnar nefndu allar að námið hafi styrkt sjálfsmynd þeirra (Heng, 1996), auk
þess sem þær hafi lært að vera virkir og gagnrýnir þátttakendur í eigin námi (Freire,
1998, 2007; Giroux, 1994; hooks, 1994), sem hvort tveggja fellur undir persónulegan
ávinning. Einnig virðast áherslur í hugmyndafræði fjölmenningarlegrar menntunar
(Banks, 2007; Nieto, 2010; Sleeter, 2002), gagnrýninni fjölmenningarhyggju (May,
1999a, 1999b) og gagnrýninni uppeldisfræði (Freire, 1985, 1999) hafa skilað sér í sterkri
upplifun kvennanna af menningarmiðaðri menntun (Gay, 2000) þar sem reynsla
þeirra og þekking var nýtt á markvissan hátt, svo og í mótun fjölmenningarlegs náms-
samfélags (Nieto, 2010).