Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Page 122
Samstarf leik- og grunnskóla hefur alla tíð verið mér hugleikið og ég hef lagt áherslu
á það í þeim skólum þar sem ég hef unnið að leggja rækt og alúð við það samstarf.
Leiðin sem farin var í starfendarannsókninni Á sömu leið er að mörgu leyti áhugaverð
og skemmtileg nálgun. Starfendarannsóknin gefur tilefni til að bera vel saman starfs-
hætti grunn- og leikskólakennara og velta vöngum yfir mismunandi aðferðum í vinnu
með fimm og sex ára börn á þessum tveimur skólastigum. Í 1. kafla bókarinnar veltir
Jóhanna Einarsdóttir fyrir sér hugmyndafræði leik- og grunnskóla og bendir á þá þró-
un sem orðið hefur víða um heim að færa skyldubundið nám niður á leikskólaaldur-
inn og jafnvel svo að markmið grunnskólans í kennslu og námi og starfshættir færast
allt niður að fjögurra ára aldri. Í þessari þróun hefur ekki verið tekið tillit til áherslna
í starfsháttum leikskólanna. Eins bendir hún á að í samvinnu leik- og grunnskóla á
Íslandi hafi oftar en ekki falist að laga leikskólabörnin að grunnskólanum. Mun fá-
tíðara virðist vera að leikskólakennarar veiti grunnskólakennurum upplýsingar um
starfshætti leikskólanna eða að grunnskólakennarar leiti eftir þeirri vitneskju (bls. 16).
Hrafnagilsskóli og leikskólinn Krummakot eru samreknir að hluta og á milli skól-
anna er góð samvinna. Hins vegar hefur ekki enn verið ákveðið hvort móta skuli einn
skóla með tveimur skólastigum og á meðan eru þetta því tvær stofnanir með tveimur
starfsmannahópum. Mér finnst virkilega áhugaverð sú leið sem ýmsir skólar hafa
farið, að vera með þessi tvö skólastig í einum og sama skólanum, en þá þarf að yfir-
stíga hindranir sem felast m.a. í tveimur ólíkum kjarasamningum, ólíkum viðhorfum
til starfshátta í leik- og grunnskóla og ýmsum öðrum þáttum sem koma fram í starf-
endarannsókninni, eins og t.d. ólíkum viðhorfum til leiksins sem kennsluaðferðar. Til
að slíkur skóli nái að verða heildstæður þarf að skapa heildstæða hugmyndafræði
fyrir bæði skólastigin.
atHUgasEMDir
1 Árskógarskóli er nýr skóli á gömlum merg, stofnaður 1. ágúst 2012, samþættur og
samrekinn leik- og grunnskóli með einn skólastjóra og deildarstjóra sem er leik-
skólakennari. Í skólanum eru ríflega 40 nemendur og 14 starfsmenn í rúmum 9
stöðugildum. Nemendur eru á aldrinum 9 mánaða til og með 7. bekk grunnskóla-
stigs (13 ára).
2 Í Hrafnagilsskóla eru um 180 nemendur og um 40 starfsmenn. Leikskólabörn í
Krummakoti eru rúmlega 50 og starfsmenn þar 16. Dagheimili tók til starfa haustið
1987, rekið af Hrafnagilshreppi, en frá árinu 1992 hefur Krummakot verið rekið sem
heilsárs leikskóli. Árið 1992 var skólahald í Eyjafjarðarsveit sameinað undir eina
stjórn að Hrafnagili.
á sömU Leið
UPPeLDi og mennTUn/iCeLanDiC joUrnaL of eDUCaTion 22(1) 2013122