Morgunblaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 25
25
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. JANÚAR 2013
Vetrarstilla Viðgerðarmaður við fjölbýlishús á Kleppsvegi í stilltu veðri að
áliðnum mörsugi, þriðja mánuði vetrar að íslensku misseristali.
Golli
Nær allir alþing-
ismenn sem hafa
fjallað um rammaáætl-
un hafa lagt áherslu á
sátt og samstöðu og
nauðsyn þess að ná
jafnvægi milli nýt-
ingar- og vernd-
unarsjónarmiða. Til-
laga um þrjár virkjanir
í neðri hluta Þjórsár er
nú komin í biðflokk og
nauðsynlegt að endurmeta málið í
heild út frá lífríkinu, og félags- og
lagalegum sjónarmiðum.
Mikill styr stóð um afkomu laxa-
stofna við alla afgreiðslu ramma-
áætlunar. Í Þjórsá er sennilega
stærsti, villti, sjálfbæri laxastofn á
Íslandi og í tillögum sínum hafði
verkefnisstjórn gert fyrirvara um að
hann mætti ekki skaða. Lands-
virkjun taldi að virkjunarfram-
kvæmdir myndu skerða laxastofninn
um 4% en í umsagnarferlinu kom
fram rökstutt mat bandarískra vís-
indamanna með reynslu og sérþekk-
ingu á lífsskilyrðum laxfiska á því að
rennslisbreytingar, búsvæðaröskun
og seiðadauði myndu leiða til 80-89%
affalla miðað við að ekki væri virkj-
að. Þetta eru staðreyndir sem ráð-
herrar urðu að taka til greina þegar
farið var yfir umsagnir um tillögu
verkefnisstjórnar. Því er mikilvægt
að fá nú til verksins óháða sérfræð-
inga til að endurmeta allar upplýs-
ingar, afla nýrra rannsóknargagna
og leggja nýtt heildarmat á málið.
Merkilegt má teljast hve margir
þingmenn og virkjunarsinnar hafa
viljað knýja fram þjóðnýtingu á
Þjórsársvæðinu og hunsa allt sam-
ráð við þá sem eiga stjórnarskrár-
varin einkaeignaréttindi á þessu
svæði. Um 160 lögbýli með um 300-
400 eigendur eiga hlut að málinu.
Hver og einn ræður yfir landi sínu
og nýtingu þess. Þess utan fer stjórn
Veiðifélags Þjórsár með veiðiréttinn
fyrir hönd félagsmanna og á að gæta
hagsmuna þeirra í hvívetna. Hags-
munirnir felast ekki síst í því að líf-
ríkið blómstri og fiskstofnar dafni.
Alþingismenn og virkjunarsinnar
hafa ekki virt þessa aðila viðlits.
Spyrja má hvort fylg-
ismenn virkjananna
hafi ætlað að keyra
málið í gegnum Alþingi
og bjóða síðan landeig-
endum lágmarksbætur
að vali Landsvirkjunar.
Er kannski ætlunin að
miða við nýlega fallinn
dóm Hæstaréttar í máli
eigenda vatnsréttinda
á vatnasvæði Jökulsár
á Dal? Ef raunveruleg-
ur áhugi er á að virkja í
neðri Þjórsá þarf að
semja við hvern og einn landeigenda
sérstaklega, hvort sem hlunnindi
þeirra eru efst eða neðst í ánni.
Eftir að Búrfellsvirkjun var tekin í
gagnið 1969 komu í ljós á lífríki
Þjórsár margvísleg áhrif sem margir
landeigendur voru ósáttir við. Því
var ákveðið að gera fiskveg við foss-
inn Búða til mótvægis við afleiðing-
arnar og til að efla stöðu fiskstofna í
ánni. Nú, áratugum síðar, getur
þessi fiskvegur ekki talist „mótvæg-
isaðgerð“ vegna nýrra virkjana í
Þjórsá – eins og Landsvirkjun hefur
reynt að læða inn í umræðuna. Á
sama hátt er ekki hægt að skerða
búsvæði laxfiska í neðri hluta árinn-
ar og bæta fyrir það með umbun til
bænda sem eiga land að ánni ofar –
eins og Landsvirkjun hefur boðað.
Þjórsá er verðmæt auðlind. Hún er
nú að nokkru nýtt en framtíð-
armöguleikar til enn frekari verð-
mætasköpunar eru miklir. Arður af
þeim tækifærum er landeigenda –
ekki Landsvirkjunar.
Mikilvægt er að setja á laggirnar
virkt, óháð og gagnrýnið eftirlit með
áhrifum af stíflum og öðrum raf-
orkumannvirkjum á lífríki fallvatna
á Íslandi; koma á vöktun á rennsl-
isbreytingum og rannsaka áhrif
virkjana á búsvæði laxfiska í ám
landsins. Nú þegar er góður grunn-
ur lagður að slíku hjá vatnamæl-
ingadeild Veðurstofunnar. Miklu
meira þarf að koma til, rannsóknir á
breytingum á hrygningarstöðvum
og uppeldisskilyrðum laxfiska, og
eftirlit með seiðasleppingum, svo
nokkuð sé nefnt. Margt bendir til að
eitthvað hafi farið úrskeiðis vegna
virkjunar Sogsins, Laxár á Ásum,
Laxár í Aðaldal, Fljótaár og víðar.
Nauðsynlegt er að eftirlit sé haft
með hreinsun uppistöðulóna og ekki
verði til dæmis leyft að skola upp-
söfnuðu botnfalli lónanna niður árn-
ar eins og enn virðist gert í nokkrum
ám. Það gæti verið verðugt verkefni
fyrir stjórnvöld að setja upp sérstaka
búsvæðadeild vatnafiska, annað
hvort hjá vatnamælingadeild Veð-
urstofunnar eða Veiðimálastofnun og
skapa þannig öflugan grunn að sér-
fræðiþekkingu þessara mála á Ís-
landi.
Víða í nágrannalöndunum hafa
laxastofnar hrunið vegna stíflugerða
og þekkingarleysis á afleiðingum
slíkra inngripa í náttúruna. Má þar
nefna ána Shannon á Írlandi og fjöl-
margar ár í Noregi. Þá er víða verið
að rífa niður stíflur, m.a. á Norm-
andy-skaga í Frakklandi, og í Pe-
nobscot-fljóti í Maine-fylki í Banda-
ríkjunum, að ógleymdum Elwha- og
Condit-stíflunum í Washington-fylki
í Bandaríkjunum. Allt er það gert í
von um að endurheimta fiskstofna í
þessum ám.
Aðalatvinnuvegir íbúa Þjórs-
ársvæðisins og Suðurlands alls eru
landbúnaður og ferðamennska. Að-
för að ímynd þessa svæðis myndi
skaða tekjumöguleika og eignaverð-
mæti þeirra þúsunda karla og
kvenna sem þarna búa. Áður en
virkjunarframkvæmdum er hleypt af
stað væri rétt að gera rækilega út-
tekt á framtíðarmöguleikum svæð-
isins. Ekki síst þyrfti að skoða hvað
hægt er að gera til að styrkja villta
laxa- og sjóbirtingsstofna í Þjórsá.
Mörgum öðrum spurningum er
ósvarað en það er nauðsynlegt að
þeir stjórnmálamenn sem ætla sér
setu á næsta þingi vandi til verka.
Eftir Orra
Vigfússon » Í Þjórsá er sennilega
stærsti, villti, sjálf-
bæri laxastofn á Íslandi
og í tillögum sínum
hafði verkefnisstjórn
gert fyrirvara um að
hann mætti ekki skaða.
Orri Vigfússon
Höfundur er formaður NASF,
verndarsjóðs villtra laxastofna.
Rammaáætlun – sátt, sam-
staða og fagleg vinnubrögð
Íslendingar glötuðu eða
„týndu“ um 100 milljarða tæki-
færum á liðnu ári – tækifærum
sem hefðu líklega gefið af sér
margfalda ávöxtun í formi hærri
launa og aukinna skatttekna. Svo
virðist sem það sé orðin hefð hjá
Íslendingum að henda tækifær-
unum frá sér. Á hverju ári frá
hruni hefur tækifærunum verið
sóað með skelfilegum afleið-
ingum.
Vilji Íslendingar sækja fram,
bæta lífskjörin, fjölga störfum og tækifærum,
verður að auka fjárfestingu. Lítil sem engin
fjárfesting í atvinnuvegunum er ávísun á verri
lífskjör til framtíðar með sama hætti og auknar
fjárfestingar eru forsenda sóknar.
Hagtölur benda til þess að á liðnu ári hafi
fjárfesting á liðnu ári verið um eða yfir 100
milljörðum króna minni en hún hefur verið að
meðaltali frá árinu 1980. Íslenskur almenn-
ingur mun bera skaðann í formi lægri laun,
færri möguleika á vinnumarkaði og lakari heil-
brigðis- og velferðarþjónustu.
Sé miðað við raunverulegan 30 milljarða
króna heildarkostnað Hörpunnar, er hægt að
halda því fram að Íslendingar hafi „týnt“ rúm-
lega þremur tónlistarhöllum á síðasta ári.
Í flokki með Grikkjum
Ef fjárfesting hér á landi hefði verið svipuð í
hlutfalli af vergri landsframleiðslu og í Eist-
landi hefði fjárfesting á liðnu ári verið um 170
milljörðum meiri hér á landi en raun var á. Þess
í stað er Ísland komið í slagtog með Grikklandi.
Íslendingar eru því að gefa eft-
ir í samkeppni þjóðanna. Í frétta-
skýringu Morgunblaðsins 12. jan-
úar síðastliðinn, kom fram að
aðeins þrjú ríki á evrusvæðinu
voru með lægra fjárfestingastig
en Ísland á síðasta ári. Aðeins
Grikkland, Írland og Kýpur voru
með minni fjárfestingu. Spánn og
Portúgal, sem glímt hafa við
mikla erfiðleika, stóðu Íslend-
ingum mun framar við að búa í
haginn fyrir framtíðina.
Skattar og stöðugleiki
Lítil fjárfesting og þá sérstaklega atvinnu-
vegafjárfesting, kemur engum á óvart. Stefna
stjórnvalda vinnur beinlínis gegn fjárfest-
ingum, jafnt innlendum sem erlendum. Komið
er í veg fyrir nýtingu arðbærustu kostanna í
orkuvinnslu. Endurteknar hótanir um að koll-
varpa stjórnkerfi fiskveiða hefur leitt til þess að
lítil sem engin endurnýjun á sér stað í sjávar-
útvegi.
Auðlegðarskattur hefur orðið til þess að
margir litlir atvinnurekendur hafa annað hvort
neyðst til að draga saman seglin eða skuldsetja
fyrirtækin. Breyting á skattlagningu arð-
greiðslna hefur ekki orðið til þess að auka
áhuga fjárfesta á að leggja til áhættufjármagn í
ný atvinnutækifæri.
Stöðugar breytingar á skattalögum samfara
brotum á gerðum samningum, hafa ekki aukið
tiltrú fjárfesta á íslensku efnahagslífi. Sífelldar
breytingar á lögum og reglum hafa komið í veg
fyrir að áhættufjármagn leiti í arðsamar fjár-
festingar.
Nú er svo komið að pólitísk óvissa og gjald-
eyrishöft eru helsta ógn efnahagslífsins –
krabbamein sem ógnar lífskjörum og velferð al-
mennings.
Drög að verkefnalista
Forsenda þess að byggt verði undir sókn til
bættra lífskjara er að fjárfestingar innlendra
og erlendra aðila aukist verulega á komandi
misserum og árum. Hagstætt skattaumhverfi,
stöðugleiki, vel menntað vinnuafl og jákvætt
viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, laða öðru
fremur erlent áhættufé inn í landið og styrkja
tiltrú innlendra aðila.
Þetta er eitt stærsta verkefni nýrrar rík-
isstjórnar að loknum kosningum samhliða því
að endurskipuleggja rekstur ríkisins og þá sér-
staklega stjórnkerfi þess – auka framleiðni.
Mikilvægt er að ný ríkisstjórn leggi fram verk-
efnalista sem vinna á eftir á kjörtímabilinu og
standi þannig að verki strax í upphafi að al-
menningur og fjárfestar trúi því og treysti því
sem lofað er.
Verkefnin eru fjölmörg og ekki hægt að gera
hér tæmandi grein fyrir þeim. Það má þó gera
ákveðin drög að verkefnalista nýrrar rík-
isstjórnar:
Rammaáætlun endurskoðuð og breytt til
samræmis við tillögur sérfræðinefndar um nýt-
ingu vatnsafls og jarðjarma.
Auðlegðarskatturinn afnuminn.
Gerðir langtíma nýtingasamningar um
fiskveiðiauðlindir.
Fjögurra ára áætlun um lækkun tekju-
skatts fyrirtækja og einstaklinga. Þrepaskipt-
ing tekjuskatts afnumin. Tvísköttun arð-
greiðslna afnumin og fjármagnstekjuskattur
lækkaður í áföngum.
Tryggingagjald lækkað samhliða auknum
fjárfestingum. Gjaldið verði ekki hærra en
5,34% í árslok 2014.
Afnám gjaldeyrishafta í ákveðnum skref-
um á 12-18 mánuðum. Lífeyrissjóðir fái strax
heimild til erlendra fjárfestinga fyrir a.m.k.
30% af árlegu ráðstöfunarfé.
Áætlun um sölu ríkiseigna samhliða yf-
irlýsingu um að allar tekjur af sölu þeirra renni
til að greiða niður skuldir.
Fjármálaregla um útgjöld ríkisins inn-
leidd þannig að útgjöldin verði ekki hærri en
sem nemur ákveðnu hlutfalli af landsfram-
leiðslu.
Framtíðin er að veði
Fáar þjóðir eiga meiri tækifæri til að byggja
upp öflugt velferðarsamfélag en Íslendingar.
Því er það grátlegt hve tækifærunum hefur
verið sóað á undanförnum árum.
Í komandi kosningum fá landsmenn tækifæri
til að ákveða hvort haldið verður áfram á sömu
braut stöðnunar eða hvort blásið verði til sókn-
ar.
Framtíðin er að veði.
Eftir Óla Björn Kárason »Nú er svo komið að pólitísk
óvissa og gjaldeyrishöft
eru helsta ógn efnahagslífsins
– krabbamein sem ógnar
lífskjörum og velferð
almennings.
Óli Björn Kárason
Þrjár tónlistarhallir „týndust“ á síðasta ári
Höfundur er varaþingmaður
Sjálfstæðisflokksins.