Morgunblaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. JANÚAR 2013
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Sú frétt að búið væri að endurgera
kvikmynd Hafsteins Gunnars Sig-
urðssonar, Á annan veg, í Banda-
ríkjunum kom eins og þruma úr
heiðskíru lofti um mitt síðasta sum-
ar. Engar fréttir höfðu þá borist af
því að til stæði að endurgera mynd-
ina og hvað þá að í aðalhlutverkum
væru þekktir Hollywood-leikarar,
þeir Paul Rudd og Emile Hirsch.
Leikstjórinn enginn aukvisi, David
Gordon Green.
Endurgerðin, Prince Avalanche,
var frumsýnd á Sundance-
kvikmyndahátíðinni í Utah sunnu-
daginn sl. og hefur hún hlotið já-
kvæða gagnrýni í virtum kvik-
myndamiðlum á borð við Variety og
The Hollywood Reporter. Og mynd-
in hlýtur að vera góð því hún verður
meðal mynda sem verða í að-
alkeppni kvikmyndahátíðarinnar í
Berlín í ár.
Nokkur fyrirtæki komu að fram-
leiðslu Prince Avalanche, m.a.
Rough House Pictures sem leitaði
til framleiðenda Á annan veg um
endurgerðina en Green hefur starf-
að fyrir það fyrirtæki. Framleið-
endur Á annan veg, þeir Árni Fil-
ippusson og Davíð Óskar Ólafsson
hjá kvikmyndafyrirtækinu Mystery,
Sindri Páll Kjartansson, Tobias
Munte og leikstjórinn Hafsteinn,
sóttu Sundance-hátíðina, sáu end-
urgerðina og hittu stjörnurnar.
Blaðamaður sló á þráðinn til Davíðs
í fyrradag.
Trúir sögunni
– Hvernig er Prince Avalanche í
samanburði við Á annan veg?
„Hún er mjög svipuð. Við vorum
auðvitað búnir að lesa handritið áð-
ur en við fórum út, við fengum það
áður en þeir byrjuðu að skjóta
þannig að við vissum að þeir væru
búnir að vera mjög trúir sögunni og
handritinu,“ svarar Davíð. Myndin
Borist með bylgjunni
Endurgerð kvikmyndarinnar Á annan veg, Prince Avalanche, hefur veitt framleiðendum hennar
og leikstjóra tækifæri vestanhafs Bandarísk kvikmynd eftir íslensku handriti í undirbúningi
Endurgerðin Úr Prince Avalanche, Emile Hirsch og Paul Rudd í hlutverkum sínum. Líkt og í myndinni Á annan veg segir í endurgerðinni af tveimur vegavinnumönnum sem þurfa að vinna saman
úti á landi sumarlangt og semur þeim illa í fyrstu. Í Á annan veg fóru leikararnir Sveinn Ólafur Gunnarsson og Hilmar Guðjónsson með hlutverk vegavinnumannanna.
er löguð að bandarískum markaði,
gerist í Texas og segir Davíð örlitlar
breytingar hafa verið gerðar á
handriti, m.a. uppröðun atriða.
Hann segir Hafstein þekkja vel til
verka Green, hafi treyst honum full-
komlega til að endurgera myndina
og sé sáttur við útkomuna.
– Felast ekki einhver tækifæri í
þessu fyrir Hafstein og ykkur?
„Ég held þetta sé tækifæri fyrir
okkur alla. Frá því þetta kom hefur
þetta opnað dyr á mörgum stöðum.
Ég held að þetta sé að gera okkur
og Hafsteini gott og þegar Tobi og
Sindri fara að gera sitt næsta þá
held ég að þeir muni njóta góðs af
þessu líka,“ svarar Davíð.
– Hvaða dyr eru það?
„Við Árni fórum til Texas í heim-
sókn á tökustað og þetta lið er alveg
svakalega vel tengt inn í bransann
alls staðar þannig að með því að
vera með þeim og hitta þau þá eru
þau búin að tengja okkur við fullt af
fólki. Við fórum í kjölfarið á fund í
LA og við erum komnir með annað
bandarískt verkefni í gang. Þannig
að þetta er búið að opna þannig dyr,
tengslanetið hefur stækkað.“
– Hvers konar verkefni er það?
„Þetta er bandarísk bíómynd sem
við erum að gera sem við vorum
með handrit að, frá Íslandi, fengum
meðframleiðanda að því úti og búið
að setja bandarískan leikstjóra á
það og verið að skoða cast-ið,“ segir
Davíð og á þar við leikaraval. Von-
andi verði sú mynd gerð á árinu. Þá
sé Mystery að framleiða kvikmynd
Ragnars Bragasonar, Málmhaus, og
góð tengsl skipti máli þegar að því
komi að selja hana í útlöndum.
„Fólk sem við höfum hitt hér (á
Sundance) vill endilega fá að sjá
myndina,“ segir Davíð og bendir á
þann mikla áhuga sem hefur verið í
kvikmyndabransanum vestanhafs
hin síðustu ár á því að endurgera
evrópskar kvikmyndir og þá ekki
síst frá Norðurlöndunum. „Þetta er
búið að setja okkur, Hafstein og
aðra á kortið, fólk vill fylgjast með
því sem við erum að gera.“ – Nú
virðist hafa farið af stað, fyrir
nokkrum árum, bylgja í end-
urgerðum á norrænum kvikmynd-
um í Hollywood. Hafið þið eitthvað
rætt það við fólkið í bransanum úti,
hvort það eigi einhverja skýringu á
þessu?
„Nei, þeim finnst þetta líka skrít-
ið, alla vega þeim sem við vorum að
tala við. Þeir eru meðvitaðir um að
það er þessi bylgja og allir eru að
segja að það verði að ná henni,
hoppa á hana og njóta þess að vera
partur af henni,“ segir Davíð. Hann
viti til þess að margir handritshöf-
undar í Bandaríkjunum hafi snúið
sér að sjónvarpi og að skortur sé á
frumlegum kvikmyndahandritum.
Því hafi menn leitað út fyrir land-
steinana. Davíð segir bransann lít-
inn á Íslandi en líka í Hollywood,
það sé ekki auðvelt að komast þar
inn.
Maður hittir mann
Spurður að því hvernig það hafi
komið til að leitað hafi verið til
þeirra um endurgerðina segir Davíð
að leikmyndahönnuður Á annan
veg, Hálfdán Pedersen, hafi hitt
bandarískan starfsbróður sinn í
New York og sagt honum frá mynd-
inni. Sá bandaríski hafi þá beðið
hann um eintak af myndinni, sagst
vita af leikstjóra sem væri að leita
sér að verkefni. Það var David
Gordon Green. Davíð segir hlutina
hafa gengið hratt eftir það. „Það er
ár liðið frá því ég hitti framleiðend-
urna á hlaupum á Subway á JFK
(flugvellinum í New York) í hálf-
tíma, til að byrja viðræðurnar.“
Prince Avalanche hefur notið
mikilla vinsælda á Sundance og seg-
ir Davíð að mikið hafi verið hlegið á
frumsýningu. Hann og félagar hans
fjórir hafi hitt Green og Rudd á há-
tíðinni og spurður að því hvort þetta
séu viðkunnanlegir náungar segir
Davíð svo vera. „Paul er yndislegur,
hann er svo niðri á jörðinni og ró-
legur, bara „nice“ í gegn,“ segir
Davíð um leikarann. Það sama megi
segja um Green og aðra sem að end-
urgerðinni komu.
Ljúfur Davíð með Hollywood-stjörnunni Paul Rudd. Davíð ber Rudd vel sög-
una, segir hann lausan við allan hroka og hinn ljúfasta náunga.
Leikstjórarnir Hafsteinn með David Gordon Green á Sundance. Hátíðinni
lýkur 27. janúar og verður Prince Avalanche sýnd í dag og á morgun.
www.mystery.is