Morgunblaðið - 28.03.2013, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 28.03.2013, Blaðsíða 25
25 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. MARS 2013 Ferðadagar Margir eru á ferðinni um páskana eða eins og maðurinn sagði: „Ég hef aldrei séð aðra eins gommu af Land Roverum.“ Kristinn Íslendingar eru fámenn þjóð sem á miklar sjáv- arauðlindir, mikið rækt- unarland, miklar orkulindir og mikið vatn. Hækkandi matvælaverð á heimsvísu og breytingar á veðurfari munu opna mikla möguleika fyrir íslenskan matvælafram- leiðslu. Mörg nágrannaríkja okkar hafa á undanförnum árum lagt aukinn kraft í framleiðslu og markaðs- setningu matvæla. Ísland á að undirbúa sig undir þær breytingar sem eru fram- undan á matvælamörkuðum heimsins. Matvælaþörf margfaldast í heiminum Það er sama hvort um er að ræða er- lendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir, vís- indamenn eða viðskiptatengda fjölmiðla, flestir eru sammála um að heimurinn muni breytast hratt á næstu áratugum og að matvælaframleiðsla verði veigameiri í allri pólitískri umræðu. Jarðarbúar eru í dag yfir 7 milljarðar talsins og spár gera ráð fyrir því að þeim fjölgi í 9 milljarða til árs- ins 2050. Íbúum fjölgar um 200.000 dag hvern eða um 140 einstaklinga á hverri mínútu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gefið út yfirlýsingu um að vegna fólksfjölgumar og breytinga á neysluvenjum megi gera ráð fyrir því að matvælaþörf heimsins muni aukast um 70% til ársins 2050. Á sama tíma hefur efnahagsleg framþróun aukið kaupgetu hundraða milljóna manna í Asíu og víðar. Í Asíu er t.d. gert ráð fyrir stór- aukinni mjólkur- og kjötneyslu í stað korns og hrísgrjóna. Nefna má í því sam- hengi að þrátt fyrir stóraukna mjólk- urframleiðslu í Asíu gera spár ráð fyrir að árið 2025 muni innflutningsþörf Kínverja á mjólk nema heildarmjólkurframleiðslu Frakklands, Rússlands og Bandaríkjanna. Þættir sem vinna gegn aukinni mat- vælaframleiðslu Samhliða þessari auknu eftirspurn eru ýmsir stórir þættir sem vinna gegn auk- inni framleiðslu eða munu stuðla að mikilli hækkun matvælaverðs. Besta ræktunarland heimsins er þegar fullnýtt og framboð á nýju ræktunarlandi fer minnkandi. Árið 1960 voru 1,45 ha af ræktuðu landi á hvern jarðarbúa en árið 2003 var þessi tala komin í 0,78 ha. Þetta er m.a. ástæða þess að Kín- verjar kaupa stór landsvæði í Súdan, Eþíópíu, Kasakstan og víðar. Vatn er af skornum skammti og ljóst að það verð- ur takmarkandi þáttur í mat- vælaframleiðslu heimsins inn- an fárra ára. Sem dæmi má nefna að það þarf 15 m3 af vatni til að framleiða 1 kg af nautakjöti og 0,4-3 m3 af vatni til að framleiða 1 kg af korni. Talið er að jarðarbúar nýti rúmlega 50% af nýtanlegu ferskvatni heimsins og að þetta hlutfall verði komið í 90% árið 2050. Loftslagsbreytingar munu einnig hafa mikil áhrif á landbúnaðarframleiðslu og mörg fæðuframleiðslusvæði verða fyrir neikvæðum áhrifum, m.a. vegna þurrka og flóða. Þetta mun hins vegar hafa þau áhrif að köld og dreifbýl lönd í norðri hlýna og verða góð ræktunarlönd. Ísland á að nýta sóknarfærin Á nýafstöðnu flokksþingi Framsókn- arflokksins var m.a. mótuð stefna í land- búnaðar- og sjávarútvegsmálum. Framsóknarflokkurinn vill að staðinn verði vörður um matvælaframleiðslu þjóð- arinnar, hvatt verði til nýsköpunar og leit- að verði leiða til að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem felast í aukinni mat- vælaframleiðslu hér á landi. Þingflokkur Framsóknar hefur í framhaldi af þessum samþykktum lagt til á Alþingi að allir helstu hagsmunaaðilar á sviði mat- vælaframleiðslu og matvælaiðnaðar verði kallaðir til og unnin verði áætlun um að- gerðir sem miði að því að stórauka matvælaframleiðslu landsins. Það þarf að skoða alla lagaumgjörð, menntastofnanir þurfa að taka þátt í þessu átaki og fara þarf sérstaklega yfir allt sem snýr að ný- sköpun, markaðs- og sölumálum. Ísland á að nýta sér þau sóknarfæri sem felast í aukinni matvælaframleiðslu. Eftir Ásmund Einar Daðason » Jarðarbúum fjölgar um 200.000 á dag og auka þarf matvælaframleiðslu um 70% til ársins 2050. Í þess- um breytingum felast mikil sóknarfæri fyrir Ísland. Ásmundur Einar Daðason Höfundur er alþingismaður Framsóknarflokksins. Sóknarfæri í aukinni matvælaframleiðslu Íslenska utanríkisráðuneytið sinnir ekki bara samningum, eða vörn og sókn fyrir hagsmuni ís- lenska ríkisins, á erlendri grundu. Það vakir – í bókstaflegri merkingu – allan sólarhringinn til að aðstoða íslenskra ríkisborgara sem lenda í óvæntum vanda erlendis. Borg- araþjónustan stendur vaktina 24 tíma á sólarhring, alla daga ársins. Sendiskrifstofur í 24 löndum, og vel skipulagt net ríflega hundrað ólaun- aðra ræðismanna víðs vegar um heiminn er ræst út eins fljótt og unnt er eða liðsinni veitt að heiman. Ég lít á þessa þjónustu sem ein mikilvægustu verkefni okkar, og er stoltur af vask- leika liðsins sem stendur vaktina. Sektir og týnd skilríki Eitt kvöldið hringdi andstutt kona dyrasímanum heima. Maður hennar á leið á sjávarútvegssýningu til að kynna fyrirtæki þeirra hjóna hafði verið handtekinn fyrir of hraðan akstur í Suður-Evrópu og hafði ekki reiðufé fyrir sektinni. Ráðuneytið ræsti út ræðismann sem lagði út fyrir sektinni. Fjórum tímum eftir að dyrabjallan hringdi var karl hennar laus úr dýflissu og komst á vörusýninguna. Það var gott kvöld hjá þjónustunni. Mörg tilvika tengjast skilríkjum, sem týnast eða er stolið. Maður í Suður-Ameríku gleymir vega- bréfi í leigubíl. Annar tapar veski með skilríkjum í fótboltaferð. Vinkonur fjarri Íslandi lenda í að þjóf- ur sprengir upp öryggishólfið og hirðir vegabréfin. Íslenskt barn fæðist í Asíu – og vantar ferðapapp- íra. Ekki er lengra síðan en á mánudag að okkur barst bréf frá glaðri fjölskyldu sem þurfti fram- lengingu á vegabréfi á leið í páskaferð til annarrar heimsálfu: „Verð bara að fá að þakka fyrir ótrúlega þjónustu – það er ekki hægt að vera stoltari af þjóðerni sínu en á svona stundum, og fyrir það frá- bæra fólk sem við Íslendingar eigum. Þúsund þakkir fyrir mig – svona gengur bara upp hjá Ís- lendingum.“ Líkflutningur og týndra leitað Maður týnist í stórborg, þar sem lögreglan kipp- ir sér ekki upp við tilkynningu um týndan útlend- ing. Ráðsnar sendiherra ræsir alla starfsmenn og ínáanlega Íslendinga til að leita. Hann finnst að lokum, hundfúll, en ættingjarnir gráta af ham- ingju. Menn leita gjarnan á náðir borgaraþjónustunnar ef ættingi veikist illa erlendis til að fá aðstoð við að koma viðkomandi heim. Sorglegustu tilvikin eru kannski þegar fjölskylda er á ferðalagi og dauðsfall hendir. Ráðuneytið kann alltof vel að koma líki heim. Sorgleg fangamál Fangamálin eru erfiðust. Í Evrópu eru þó sendi- ráð nálæg. Á minni vakt hef ég upplifað að sendi- ráði tókst með óhefðbundnum hætti að koma í veg fyrir að íslenskur ríkisborgari í varðhaldi væri framseldur til ríkis utan Evrópu þar sem fangelsismál eru með því allra versta sem þekkist. Einn sendiherra, með sérlega staðföst augu, mætti dag hvern í réttarhald yfir ógæfusömum ungum Íslendingum. Dómarinn lauk sínu máli þannig að þó að viðkomandi væru sekir ætlaði hann að senda þá heim til Íslands vegna góðra orða sendiherrans um bernsku og innræti viðkomandi. Í mörgum löndum sýnir reynslan hins vegar að það getur verið háskalegt að reyna að tala inn í dóms- kerfið. Við metum stöðuna út frá að- stæðum. Verst viðfangs eru málefni fanga sem eru teknir fyrir meint smygl á eiturlyfjum í löndum víðs fjarri okkur, þar sem mannréttindi eru lítils virði, og fangelsin full af vestrænu ungu fólki sem hefur lent á röngu spori. Í þessum löndum höfum við engar sendiskrifstofur. Þá reynast ræðismennirnir afar mikilvægir. Þeir eru þó ólaunaðir, og sinna þjón- ustu við fanga í hreinni sjálfboðavinnu. Það er ofurskiljanlegt að harmi lostnum fjöl- skyldum heima á Íslandi finnist ekki nóg að gert þegar ekki tekst að ná unglingnum þeirra út úr fangelsi, þar sem troðið er í klefa, fötunum stolið af þeim, maturinn vondur, og mannréttindi lítils virði. Raunveruleikinn er allt öðru vísi. Í öllum tilvikum er reynt af fremsta megni að gæta allra réttinda viðkomandi fanga. Á síðustu sex mánuðum höfum við sent fólk nokkrum sinnum þvert yfir hnöttinn til að gæta réttinda Íslendinga í varðhaldi eða fang- elsi – af því við höfum óttast um þeirra hag. Þrýstingi beitt Stundum er hægt að beita óformlegum þrýst- ingi. Ég hef látið sendiherra koma því á framfæri að ég íhugi að draga fulltrúa Íslands út úr stofnun í ríki þar sem ég taldi okkar hagsmunum aug- ljóslega misboðið að því er varðaði rétt ein- staklings. Ég hef leyft sendiherra að hafa í óform- legum samtölum eftir mér þá skoðun að Ísland telji það ekki þess virði að eiga stjórnmálasamband við fjarlægt ríki sem virtist fara illa með rétt Íslend- ings, sem reyndist svo ekki sekur. Í svona tilvikum kemur það Íslandi til góða að hafa virka utanrík- isþjónustu sem leggur sig fram um að rækta tengsl inn í stjórnkerfi sem flestra þjóða, og er alltaf lipur til samstarfs við fjarlæg ríki – jafnvel þó að það kosti stundum tíma og fjármagn. Staðreyndin er sú að alltaf þegar Íslendingur lendir í vanda í útlöndum er brugðist við og allt gert til að leysa hann og tryggja að öll réttindi séu virt. Eftir Össur Skarphéðinsson »Utanríkisráðuneytið vakir – í bókstaflegri merkingu – allan sólarhringinn til að aðstoða íslenskra ríkisborgara sem lenda í óvæntum vanda erlendis. Össur Skarphéðinsson Höfundur er utanríkisráðherra. Á vaktinni fyrir Ísland Meirihluti Samfylk- ingar og Besta flokks- ins hefur samþykkt, með stuðningi Vinstri grænna, að Reykjavík- urborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykja- víkur fyrir 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 94% í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning úr einum vasa í annan. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks- ins hafa stutt sölu eigna Orkuveit- unnar en vildu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Fyrir rúmu ári var vissulega reynt að selja Perluna á opnum markaði en sú tilraun misheppnaðist algerlega vegna hroðvirknislegra vinnubragða borgarstjórnarmeirihlutans. Í stað þess að læra af reynslunni og vanda betur til verka, kýs meirihlutinn að flytja eignarhaldið á mannvirkinu al- farið til borgarinnar og leigja það síð- an ríkinu undir náttúruminjasafn. Hefur verið unnið að málinu á miklum hraða undanfarna mánuði þar sem meirihluti borg- arstjórnar vill ásamt ríkisstjórninni klára málið fyrir kosningar. Þessi mikli hraði hefur komið niður á vinnu- brögðunum. Perlan var ekki byggð sem nátt- úruminjasafn og ljóst er að ráðast þarf í kostn- aðarsamar fram- kvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. Þær áætlanir, sem lagðar hafa verið fram eru ófull- nægjandi til að kjörnir fulltrúar og skattgreiðendur geti áttað sig á kostnaðinum. T.d. efast ég um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins mun kostnaðurinn lenda á Reykjavíkurborg. Í tengslum við kaupin gaf Dagur B. Eggertsson, formaður borg- arráðs, út yfirlýsingar í fjölmiðlum um að sú leið að selja Perluna til fjár- festa hafi ekki reynst fær þar sem öll tilboð hafi verið með fyrirvara um byggingu hótels eða aðra uppbygg- ingu í Öskjuhlíð. Þessar fullyrðingar standast ekki því á síðasta ári barst Orkuveitunni formlegt kauptilboð í Perluna að upphæð 950 milljónir króna frá einkaaðila án fyrirvara um slíkar skipulagsbreytingar. Er þetta sama upphæð og nú er notast við í sölu hússins frá OR til borgarinnar. Umræddar fullyrðingar formanns borgarráðs um sölu Perlunnar eiga því ekki við rök að styðjast. Benda þær til að miðlun upplýsinga milli borgarráðs Reykjavíkur og stjórnar Orkuveitunnar sé stórlega ábóta- vant. Perlan færð úr einum opinbera vasanum í annan Eftir Kjartan Magnússon Kjartan Magnússon » Söluferli Perlunnar hefur verið eitt klúður frá upphafi vegna hroðvirknislegra vinnubragða borgar- stjórnarmeirihluta Sam- fylkingar og Besta flokksins. Höfundur er borgarfulltrúi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.